Algjör óþarfi að pína mat ofan í börnin

Fjóla Signý Hannesdóttir, afrekskona í frjálsum íþróttum, leggur mikið upp …
Fjóla Signý Hannesdóttir, afrekskona í frjálsum íþróttum, leggur mikið upp úr því að gefa dóttur sinni almennilegan mat.

Fjóla Signý Hannesdóttir er afrekskona í frjálsum íþróttum og móðir sautján mánaða gamallar stúlku. Hún veit vel hvað klukkan slær þegar kemur að næringu, bæði fullorðinna og hinna yngri. Fjóla er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að pína ekkert ofan í börnin og umfram annað, vera góðar fyrirmyndir sjálf þegar kemur að því að velja matinn okkar. Börnin læri jú það sem fyrir þeim er haft. Hún sagði frá sínum hugmyndum í Heilsublaði Nettó. 

„Allir hafa sína skoðun á mataræði og langar mig til þess að deila með ykkur minni skoðun. Mér finnst vera mikil ábyrgð á foreldrum þegar komið er að því hvernig börnin þeirra borða. Ég las mér til um fjölbreytta fæðu og hvað börn mættu að borða og hvenær. Það eru alls ekki allir sammála í þessu eins og svo mörgu öðru. Í dag er talað um að börn megi strax byrja að borða nánast hvað sem er, bara ekki sterkan mat og það sé vel eldað. Það þarf þó alltaf að fara rólega í að smakka eitthvað nýtt og ekki smakka margt nýtt í einu. Fyrst þurfa þau líka að fá allt maukað/stappað til að auðvelda meltinguna,“ segir Fjóla.

Best að hlusta á innsæið

Hún segir mikilvægt fyrir foreldra að fylgja innsæinu hverju sinni, hvað þeim finnist rétt að gefa barninu. En mikilvægast sé þó að hafa fjölbreytni í mataræði í brennidepli: „Mér finnst skipta máli fyrir mína stelpu að hún kynnist fjölbreyttu fæði og sleppi hvítum sykri. Ég fór eftir tilmælum landlæknis með að hún yrði eingöngu á brjósti til 6 mánaða enda var hún líka algjör bolla og þurfti ekki meira. Hún smakkaði því mat rúmlega 6 mánaða og þá byrjaði ég að gefa henni Hollet Millet-barnagraut blandaðan saman við brjóstamjólk. Þegar ég átti ekki til brjóstamjólk fékk hún Oatly-hafrarjóma/mjólk. Ég fór fljótlega að stappa avókadó í grautinn. Hún borðar avókadó nánast daglega. Hún fær einnig daglega D-vítamíndropa frá Animal og Biona Hempolíu og hörfræolíu.

Hún fær engar mjólkurvörur nema smá ost og smjör stundum. Hún fékk ekkert sem innihélt mjólk fyrr en hún var að verða 1 árs.  Mjólkurvörur fara illa í mig og hún er því að borða svipaða fæðu og ég.“

Ekki gott að skapa neikvæða upplifun í að smakka mat

Aðspurð hvort hún hafi sjálf verið alin upp við slíkt mataræði og geti þ.a.l. stuðst við það, segir hún svo ekki vera. „Mér fannst ég ekki geta farið eftir því hvernig ég borðaði þegar ég var lítil þar sem bæði þekking og fæðuúrval hafa breyst mikið. Ég var mjög matvönd fram eftir öllu, borðaði aðeins hafragraut, brauð og stappaðar kartöflur með smjöri fyrstu 4 árin. Kartöflur er eitt af því versta sem stelpan mín fær. Ég borðaði alls ekki kjöt, sem þótti ekki gott því ég er alin upp á sveitabæ og þar var nánast alltaf kjöt í matinn. Ég vandist kjötinu þótt ég hafi aldrei verið mikil kjötæta. Stelpan mín vill heldur ekki borða kjöt nema hvítan fisk og kannski smá kjúkling. Mér finnst það líka fullkomlega eðlilegt þar sem þessar kjötvörur eru auðveldari í meltingu. Mér finnst algjör óþarfi að pína mat ofan í börnin. Frekar fá þau til að smakka og ef þau vilja ekki meira þá er það í lagi. Ekki gott að það verði neikvæð upplifun að smakka mat.“

Gott að gufusjóða grænmetið og geyma í frysti

„Það voru aldrei til ávextir eða grænmeti heima hjá mér í uppvextinum, nema þá kartöflur og rófur, en stelpan mín borðar mikið af ávöxtum og gæti borðað endalaust af þeim. En ég reyni að hafa eins mikið grænmeti með og hægt er. Passa þarf að gufusjóða grænmetið þangað til þau eru tilbúin að borða óeldað grænmeti. Hún byrjaði snemma að borða gúrku í fæðusnuð/net og elskar enn að fá gúrkubita til að tína upp í sig,“ segir Fjóla. Hún segir einfaldleikann oft bestan, en sjálf hafi hún verið með alls konar flottar uppskriftir á takteinunum en um leið og hún hafi nostrað um of við matinn var eins og litli matgæðingurinn vildi ekki sjá hann. „Ég þurfti því bara að prófa mig mikið áfram með hvaða samsetningu ég vildi. Ég gufusauð grænmeti og frysti svo í Systema-klakaboxi sem ég tók út eftir þörfum. Flest entist í 2 mánuði í loftþéttum umbúðum í frysti. Mikill munur að þurfa ekki að eyða alltaf miklum tíma í að sjóða grænmetið og græja matinn. Á kvöldin tók ég svo út teninga, setti í Systema-box inn í ísskáp þar sem það þiðnaði yfir nóttina.“

Fjóla bendir á að fyrir hana skipti miklu að velja sem hreinasta fæðu fyrir stúlkuna og helst alltaf lífræna. Þá sé líka stórt atriði að foreldrar séu meðvitaðir um að þeir séu fyrirmyndir í fæðuvali. „Ég vil ekki að hún sé að borða unnar vörur sem innihalda fullt af aukaefnum. Lífrænar vörur eru að mínu mati yfirleitt bragðbetri og ferskari. Svo finnst mér skipta sköpum að foreldrar hafi í huga að ef barnið þitt er að biðja um það sem þú ert að borða og það er ekki nógu hollt eða gott að gæðum fyrir barnið þitt, er það góð áminning að þú ættir kannski ekki heldur að vera borða þetta,“ segir hún að lokum.

Nokkur ráð Fjólu fyrir foreldra ungra barna:

  • Prófa mismunandi mat og samsetningu. Prófa sig áfram með hlutföllin
  • Best að prófa nýjan mat snemma dags eða um hádegi, til að sjá hvernig maturinn fer í barnið. Ef barnið borðar lítið fyrir svefninn er hætt við að það hafi áhrif um nóttina.
  • Borða alltaf góða máltíð fyrir svefninn svo þau vakni síður. Einnig gott að eiga alltaf klára „skvísu“ til að grípa í ef hungrið kallar um miðja nótt.
  • Fjölnota „skvísur“ sem hægt er að setja heimagert mauk og smoothie í eftir þörfum.
  • Frosið mangó eða banani í fæðusnuð getur bjargað miklu þegar börn taka tennur og eru með hita.
  • Finndu eitthvað sem barnið þitt elskar, eins og mín hefur elskað perumauk, og bættu við mat sem barnið er ekki endilega hrifið af.
  • Fyrir hægðatregðu, sem fylgir því að byrja að borða fasta fæðu, fannst mér virka vel fyrir mína að gefa henni sveskjumauk, perumauk og hörfræolíu.
  • Smoothie er frábært sérstaklega í veikindum þegar illa gengur að fá börnin til að borða. Passa að hafa hann ekki of kaldan eða frosinn, þá drekka þau yfirleitt minna.
  • Gott að gefa kókosvatn í veikindum. Fullt af næringu og spennandi að drekka með röri.
  • Þægilegt að eiga stundum tilbúin mat fyrir börnin eins og „skvísur“ – bæði ávaxta eða kvöldverðar.

Hér koma nokkrar uppáhaldsuppskriftir hjá stelpunni minni:

Hugmyndir að góðum mauk-samsetningum:

  • Pera og sveskjur
  • Gulrætur, pera
  • Gulrætur, sveskja, rófur
  • Brokkólí, rófur, sveskjur
  • Blómkál, pera, gulrætur

Hugmyndir að góðum smoothie-drykkjum:

  • Avókadó, epli (ekki með hýði), mangó, vatn
  • Banani, fersk piparmynta, epli (ekki með hýði), jarðarber, vatn
  • Avókadó, epli, mangó, vatn
  • Avókadó, banani, epli, piparmynta
  • Avókadó, bláber, kókosvatn, mangó
  • Chia-grautur, chia-fræ látin liggja í vatni, hafrarjóma bætt við og settir ávextir saman við – hægt að mauka í blandara þegar þau eru nýbyrjuð að borða

Nestishugmyndir fyrir litla kroppa á ferðinni:
Systema-boxin eru snilld fyrir ávaxtabita

  • Skera niður vínber
  • Amasin qinoa kex (subbast ekki allt út)
  • Cheerios og rúsínur
  • Smoothie
  • Hafraklattar
  • Banani
  • Gúrkubitar
  • Harðsoðið egg (mín byrjaði að borða mikið af eggjum strax um 8 mán.)
  • Vitabio „skvísur“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert