Þarfir vinnumarkaðarins bitna á börnum

Anna María segir að börn séu viðkvæm í eðli sínu ...
Anna María segir að börn séu viðkvæm í eðli sínu og mótist af tilfinningalegu umhverfi sínu. mbl.is/Hari

Anna María Jónsdóttir geðlæknir og hópsálgreinir segir það djúpt í sálarvitund þjóðarinnar að setja tilfinningar til hliðar og halda áfram. Hún er einn færasti sérfræðingur landsins þegar kemur að tengslavanda og tengslaröskun. Hún er á því að þarfir vinnumarkaðarins séu settar ofar en þarfir barnanna í landinu. Hún segir þá áherslu ranga að hennar mati, að samfélagið þurfi að setja börn og barnafjölskyldur í öndvegi. Það muni skila betra samfélagi og meiri hagsæld þegar til lengri tíma er litið. 

Reynsla kvenna á fæðingadeildinni áhugaverð

Anna María lærði hópsálgreiningu í Institute of Group Analysis í London. Hún hefur starfað á geðdeildum Landspítala og á geðsviði Reykjalundar ásamt því að reka eigin læknastofu. Hún hefur einnig lært fjölskyldumeðferð fyrir ungbarnafjölskyldur og er ein af stofnendum Miðstöðvar foreldra og barna (MFB). Hún tók einnig þátt í stofnun FMB (Foreldrar, meðganga, barn) teymis á Landspítala háskólasjúkrahúsi.

Anna María er án efa einn helsti sérfræðingur landsins þegar kemur að tengslavanda og tengslaröskun. Á námsárum sínum hafði hún ákveðið að fara í frekara nám sem kvensjúkdómalæknir og vissi ekkert meira áhugavert en að taka á móti nýfæddum börnum. Þar til hún kynntist reynslu kvenna á fæðingadeildinni á námsárum sínum.

 Sumar konur fullar af ótta fyrir fæðingu

„Ég man vel þá hugsun sem kom upp hjá mér þegar ég var nemi á kvennadeild LSH og hitti konur fullar af ótta fyrir fæðingu. Þegar ég ræddi við þær komst ég að því að þær höfðu yfirleitt átt erfiða fyrri fæðingu eða aðra erfiða reynslu að baki. Á þeim tíma upplifði ég að oft var vandi þessara kvenna vangreindur og það ríkti ákveðið úrræðaleysi í heilbrigðiskerfinu gagnvart þeim. Eins kynntist ég á þessum tíma þeim gríðarlegu áskorunum sem mættu konum sem fengu fæðingarþunglyndi eða jafnvel fæðingarsturlun. Þá fékk ég áhuga á geðlækningum og fékk vinnu á deild 33C á geðdeild Landspítalans hjá Halldóru Ólafsdóttur sérfræðingi í geðlækningum sem var fyrst til þess hér á landi að leggja mæður inn með ungbörnum sínum til að styðja við tengslamyndun móður og barns eftir því sem móðurinni batnaði.

Hulda Guðmundsdóttir félagsráðgjafi var síðar með hópa fyrir mæður með ungbörn á Hvítabandinu við Skólavörðustíg og þær eru í raun frumkvöðlar á Íslandi í því að bjóða sérhæfða þjónustu fyrir mæður með geðrænan vanda í tengslum við fæðingar. Síðar fékk ég tækifæri til að koma að stofnun FMB-teymis á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Það teymi er starfandi enn í dag á göngudeild geðdeildarinnar og sinnir foreldrum á meðgöngu og eftir fæðingu sem glíma við geðrænan vanda og/eða tengslaerfiðleika við ungbarnið. Þegar mæður þurfa að leggjast inn á geðdeild býðst nú innlögn á sérhæfða deild þar sem báðir foreldrar eru velkomnir með ungbarnið og því boðið skjól fyrir alla fjölskylduna að jafna sig saman eftir veikindin. Enda sé tengslamyndum bæði föður og móður við ungbarnið mikilvæg og fjölskyldumiðuð nálgun því höfð í fyrirrúmi á þessum tíma.“

Miðstöð foreldra og barna er geðheilsuþjónusta fyrir verðandi foreldra og ungbarnafjölskyldur. Þar er verið að sinna fjölskyldum sem þurfa meiri þjónustu en heilsugæslan veitir en hafa þó ekki þörf fyrir þjónustu á spítala.

Vaxandi fjöldi leitar eftir þjónustu FMB-teymis og Miðstöðvar foreldra og barna á hverju ári en þó er búist við að enn sé töluverð þörf fyrir þessa þjónustu sem ekki er mætt ef miðað er við erlendar rannsóknir.

Börn voru skírð sama nafni vegna ungbarnadauða

Anna María vill færa umræðuna í átt að því sem hefur mótað þjóðina og umhverfið sem við búum foreldrum og ungum börnum í dag. Þannig að við horfum á þær þjóðfélagslegu breytur sem hafa áhrif á einstaklinginn á Íslandi.

„Við höfum varið okkur mikið fyrir tilfinningum í gegnum aldirnar. Forfeður okkar háðu harða lífsbaráttu og flestir áttu þeir mörg börn. Fyrir ekki svo löngu síðan var ungbarnadauði allt að 50% fram að tveggja ára aldri og sumir muna þá hefð þegar tvö eða jafnvel fleiri börn í sömu fjölskyldu voru skírð saman nafni, því reiknað var með afföllum á meðal barna. Það hversu stutt er liðið frá þessum veruleika, veldur því að við getum ekki afskrifað þá staðreynd að við höfum þurft að harka af okkur í gegnum árin.“

Að kenna börnunum að vera sjálfstæð ekki það mikilvægasta

„Á Íslandi í dag viljum við sem foreldrar gera börn okkar sjálfstæð. Við viljum kenna þeim að herða sig upp, við lofum þau fyrir dugnað og sjálfstæði og þolum illa að þau séu of háð okkur og þurfi mikið á okkur að halda. Samfélagsgerðin er mun fókuseraðri á þarfir atvinnulífsins og efnislegra gæða, en á tilfinningalegar þarfir barna okkar. Ég veit að ég er að alhæfa en þegar ég ræði við fólk um þetta þá eru flestir sammála. Auk þessa erum við Íslendingar enn að jafna okkur á efnahagshruninu sem olli því að 10.000 fjölskyldur misstu heimili sín og hröktust út á hinn erfiða og ótrygga leigumarkað. Ég hef ekki séð samantekt á því hversu mörg börn voru rifin upp með rótum úr sínu umhverfi vegna þessa, en þegar við horfum á þetta allt í samhengi ætti ekki að koma okkur á óvart að ungmennin okkar í dag glími við aukinn kvíða og vanlíðan. Þar ofan á kemur svo aukið álag og áreiti vegna samfélagsmiðlanotkunar hjá börnum og fullorðum, sem hefur sýnt sig að hefur neikvæð áhrif á tengsl og samskipti.“

Að mynda náin tengsl við börn er mikilvægara en að ...
Að mynda náin tengsl við börn er mikilvægara en að kenna þeim að harka af sér og vera sjálfstæð. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Anna María bendir á vitneskjuna sem finna má í rannsóknum í dag, sem leiðir í ljós að börn eru viðkvæm og mótast af tilfinningalegu umhverfi sínu. 

„Þau eru sérstaklega viðkvæm fyrir þessum mótunaráhrifum fyrstu mánuði og ár lífsins. Börn læra mjög fljótt hvort einhver sé til staðar sem þau geta leitað til með óöryggi sitt og spurningar um lífið, eða hvort þau þurfi að standa á eigin fótum og bjarga sér sjálf. Hægt er að segja að þau læri þetta fyrir eins og hálfs árs aldur. Hins vegar er sjálfsvitundin, tilfinningalífið og tengsl að mótast allt lífið hjá börnum og fullorðnum, því er aldrei of seint að grípa inn í ef eitthvað fer úrskeiðis á þessum mikilvæga mótunartíma. Best er þó að við vinnum að því saman sem samfélag að bæta aðstæður verðandi foreldra og ungbarna til að gefa börnum sem best veganesti út í lífið og skila sterkum einstaklingum út í samfélagið.“

Ánægð með breytingarnar í dag

Að þessu sögðu er Anna María bjartsýn í dag á það að við sem samfélag höfum vilja og getu til þess að gera betur í málefnum barna og fjölskyldna þeirra.

„Í því samhengi hef ég sérstaklega í huga að við erum nú með ríkisstjórn sem hefur sett málefni barna í forgrunn með því að skipa Ásmund Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra frá 1. janúar 2019. Ég fagna því innilega og  gleðst yfir þeirri vitundarvakningu sem hefur orðið varðandi málefni barna undanfarið. Ég vil hafa trú á getu okkar sem samfélags til að horfa í eigin barm, endurskoða samfélagsgerðina og bæta kerfin okkar til að mæta börnunum okkar betur á þeirra eigin forsendum. Við þurfum að skapa þeim betri uppvaxtarskilyrði með hliðsjón af nýrri þekkingu á tilfinningalegum þroskaferli barna, heilaþroska þeirra og áhrifum áfalla og streitu á þessa þætti. Einnig er mikilvægt að við sem samfélag nýtum þá þekkingu sem til er varðandi tilurð seiglu hjá börnum og hvernig við getum styrkt þau betur til þess að mæta þeim áskorunum sem lífið færir þeim.“

Anna María telur að bækur Sæunnar Kjartansdóttur, Um fyrstu 1000 dagana og Árin sem enginn man, hafi gegnt stóru hlutverki í þeirri vakningu sem hefur verið í samfélaginu að undanförnu og mælir eindregið með þeim fyrir foreldra og fagfólk.

mbl.is