Forvörn um kynheilbrigði

Kristín Þórsdóttir.
Kristín Þórsdóttir. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Kristín Þórsdóttir er með forvarnafræðslu fyrir fermingarbörn um kynheilbrigði, sterka sjálfsmynd og það að setja mörk. Hún segir mikilvægt að krakkar séu ekki að „fixa“ sig á öðru fólki og til þess þurfi þeir fræðslu. 

Það hafa margir heyrt talað um Kristínu Þórsdóttur sem hefur tjáð sig af krafti um það að vera aðstandandi eiginmanns með krabbamein. Hún kynntist Kristjáni Birni Tryggvasyni, Kidda, átján ára gömul og var það að hennar sögn ást við fyrstu sýn.

Ást við fyrstu sýn

„Við áttum einstakt samband sem grundvallaðist á aðdáun og virðingu en ekki síst á vinskap okkar á milli. Hann lést úr krabbameini árið 2017 og hafði þá verið með krabbamein í ellefu ár með smáhléi.“

Kristín segist ekki vilja draga úr þeirri áskorun sem það felur í sér að eiga eiginmann sem er veikur en samband þeirra hafi leitt hana inn á veg sjálfsvinnu þar sem hún fann sjálfsvirðinguna sem hún býr yfir í dag og gefur fólki áfram, m.a. sem ACC-markþjálfi.

Hún stofnaði Eldmóð markþjálfun en starfar einnig sem markþjálfi hjá Krafti. Um þessar mundir er hún í framhaldsnámi í markþjálfun frá Evolvia ásamt því að vera að læra kynlífsmarkþjálfun í fjarnámi frá Kaliforníu. Hún kom að fermingarfræðslu barna í Fríkirkjunni í Hafnarfirði á þessu ári þar sem hún ræddi meðal annars mikilvægi þess að setja mörk í kynlífi og það að fermingarbörn séu meðvituð um sjálfsvirðinguna.

Forvarnafyrirlestur um kynheilbrigði

Kristín segist hafa orðið mjög hissa þegar Sigríður Kristín prestur hafði samband við hana. „Engu að síður fannst mér þetta ótrúlega flott hjá þeim, að vilja bæta fræðslu um sjálfsmynd og kynheilbrigði inn í fermingarfræðsluna.“

Hún segir að hana hafi alltaf langað til að verða kynfræðingur þegar hún var ung stelpa. „Reyndar hárgreiðslukona líka en ég valdi mér að fara í viðskiptafræði þar sem ég ákvað að fylgja hópnum í stað þess að fylgja eigin sannfæringu. Ég taldi þá ákvörðun svalari fyrir samfélagið sem við búum í í dag.

Ég hafði alltaf haft mjög brenglaða sjálfsmynd, ég man sem dæmi eftir að hafa verið ung að árum þegar mér fannst ég ekki nógu sæt og flott og ég reif mig niður af því ég gat ekki teiknað eins vel og vinkonur mínar. Kannski var ég pínulítið týnda barnið í leit að viðurkenningu og fann mínar leiðir með það,“ segir hún og heldur áfram:

„En ég á góða fjölskyldu og góðar vinkonur í gegnum alla barnæskuna.“

Kynlíf getur verið æðislegt en líka hræðilegt

Kristín er á því að þegar hún var unglingur hafi fræðsla um kynheilbrigði verið af skornum skammti.

„Það eina sem talað var um voru blæðingar og kynsjúkdómar. Þetta var meira svona hræðsluáróður frekar en bein fræðsla. Það var heldur ekkert hægt að leit sér upplýsinga á netinu um þessa hluti. Sem betur fer er umhverfið öðruvísi í dag. Sem dæmi má nefna að ég vissi ekki einu sinni að það væri eðlilegt að stunda sjálfsfróun og fannst eins og ég væri að gera eitthvað sem ég mætti ekki. Ég ræði það við krakkana að þetta er eðlilegasti hlutur í heimi og mjög mikilvægt til þess að læra að þekkja líkama sinn.

Mér finnst mikilvægt að opna á þessa umræðu við krakka á fermingaraldri. Eins tala ég um út frá eigin reynslu hvernig kynlíf getur verið æðislegt en það getur líka verið hræðilegt. Það hef ég prófað á eigin skinni. Í þessu samhengi tala ég um mikilvægi þess að krakkarnir hlusti á sína innri rödd þegar þau prófa sig áfram í kynlífi. Hversu mikilvægt sé að setja mörk og að þau finni hvernig þeim líður á eftir. Að þau þjóni sér en fylgi ekki hópnum. Virði sig og einnig virði mörk annarra á þessu sviði.“

Lamaðist af ótta þegar henni var nauðgað

Kristín nær vel til krakka á fermingaraldri með því að tala á heiðarlegan og opinskáan hátt.

Kristín talar meðal annars um fyrsta skiptið sitt ásamt því að deila því með krökkunum þegar henni var nauðgað af tveimur mönnum. Hún fer ekki ítarlega út í þann atburð en ræðir samt viðbrögð sín. Í hennar tilfelli lamaðist hún af ótta og þess vegna kenndi hún sér um en ekki þeim. Það var svo ekki fyrr en hún varð fullorðin að hún áttaði sig á því að hún hafði borið skömmina í hljóði og þetta hefði ekki verið henni að kenna. Hún var svo reið út í líkama sinn fyrir að hafa hafnað sér. Að hún hefði ekki getað lamið frá sér eða gert eitthvað til að losna úr aðstæðunum. „Þetta eru þekkt viðbrögð við nauðgun, en það vissi ég ekki á þessum tíma. Það gerðist eitthvað innra með mér sem gerði það að verkum að ég breyttist á einni nóttu. Ég byrjaði að drekka meira áfengi og prófaði sem dæmi eiturlyf með vinkonu minni. Ég var heppin að hafa ekki ánetjast hugbreytandi efnum.“

Hún fer lauslega yfir þessa atburðarás með krökkunum og spyr þá hvern þeir myndu tala við ef eitthvað svipað þessu kæmi fyrir þá.

„Ég útskýri fyrir þeim að þau mega segja nei og þau mega bakka. Eins læt ég þau vita að ef þeim líður illa með eitthvað þá sé nauðsynlegt að tala um það við einhvern sem maður treystir. Ef ég hefði gert það á þessum tíma hefði ég brugðist öðruvísi við. Ég hefði ekki kennt mér um atburðinn. En á þessum tíma sem þetta gerðist var forsendan í lögum sú að aðilar sem lentu í nauðgun yrðu að segja nei og berjast á móti verknaðinum. Sem er magnað, miðað við þá staðreynd að algeng viðbrögð við nauðgun eru þau að fórnarlambið lamast af ótta.“

Heppin að hafa hitt eiginmanninn

Kristín var sextán ára þegar atvikið átti sér stað og segir hún það hafa haft djúpstæð áhrif á allt líf sitt. Hún hafi unnið ötullega í sér til að komast yfir þennan atburð og getur nú notað reynslu sína sem forvörn fyrir aðra.

„Ef krakkarnir okkar breytast og það virðist vera eitthvað að angra þau er mikilvægt fyrir foreldra að reyna að verða aðilinn sem þau geta treyst fyrir þessum málum. Ég breyttist á einni nóttu við það sem kom fyrir hjá mér og varð aldrei sama unga konan. Ég hefði þurft að eiga einn góðan aðila sem var eldri en ég sem ég hefði getað treyst fyrir þessu. Ég bendi krökkunum á að hugsa sér til hvers þeir myndu leita að þessu leyti. Eins bendi ég þeim á að það er alltaf hægt að hringja í hjálparsíma Rauða krossins ef þeir treysta engum, þar er fólk að vinna og getur aðstoðað og leiðbeint þeim annað. Barnahús og Stígamót eru einnig að vinna frábært starf ásamt neyðarmóttökunni uppi á spítala. En ég skil vel að það sé erfitt að taka skrefið.“ Það sem Kristínu finnst svo mikilvægt í lífinu er að krakkar séu ekki að „fixa“ sig á öðrum. Að þau leiti leiða til að fylla tómleika eða skort á sjálfsvirðingu með leiðum sem virka en ekki kynlífi með fólki sem hefur enga getu til að tengjast þeim á tilfinningasviðinu.

„Ég var ótrúlega heppin að finna Kidda stuttu eftir nauðgunina mína. Mann sem kunni að meta mig fyrir hvað ég var skemmtileg og hress en ekki einungis á líkamlega sviðinu,“ segir hún að lokum.

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »