Uppeldisráð í anda Maya Angelou

Maya Angelou var andlegur leiðtogi margra í lifanda lífi og …
Maya Angelou var andlegur leiðtogi margra í lifanda lífi og leiðbeinir enn þá sem goðsögn í lífi þeirra sem þekktu til hennar eða hafa lesið verkin hennar.

Í gegnum árin hafa margir heillast af skáldinu og mannréttindakonunni Maya Angelou. Hún skrifaði fjölmargar bækur og hafði áhrif á líf margra áður en hún lét lífið árið 2014 þá tæplega níræð að aldri. Hún eignaðist einn son, Guy Johnson. 

Það var ýmislegt sem Maya Angelou gerði öðruvísi á sínum tíma tengt uppeldi sonar hennar og hefur hann verið spurður hvort hann hafi verið alinn upp í skugga hennar þar sem hann hefur ítrekað að uppeldið hafi verið andstæða þess. Í raun í ljósi hennar. Johnson sagði að trú móður sinnar hafi verið svo sterk að hann og fleiri hafi getað notað það sem stein til að standa á í lífinu. 

Angelou var alin upp hjá föðurömmu sinni og móður sinni. Hún lærði ólíka hluti af þessum konum. Eftirfarandi uppeldisráð eru í anda Maya Angelou. 

Kenndu muninn á réttu og röngu

Maya Angelou var alltaf með mikla réttlætiskennd og vildi skilja hvernig heimurinn virkaði. Hún var lítið fyrir meðvirkni og tók afstöðu með hlutum sem henni fannst rétt að gera.

Þetta hugrekki að standa með skoðun sinni og vita muninn á réttu og röngu lærði hún af móður sinni þegar hún fór ung að heiman. Móðir hennar stóð ekki í veg fyrir að Angelou færi af heiman þrátt fyrir ungan aldur.

Angelou vissi muninn á réttu og röngu ung að aldri. Hún vissi að lífið yrði erfitt en hún yrði að muna að það væri búið að ala hana upp og að hún hefði alltaf val. Valið um að velja það sem er rétt að gera. 

Þeir sem þekkja sögu hennar vita að hún fékk svigrúm til að læra af lífinu. Án þess að vera dæmd fyrir það eða sett niður. 

Að kenna muninn á réttu og röngu er í hennar anda. Að kenna börnum að vera mannleg. Að sýna auðmýkt og heiðarleika er einnig í hennar anda. Að taka ábyrgð sjálf sem foreldrar og viðurkenna vanmátt sinn þegar út af ber kennir börnum að vera mannleg. Þannig læra börn muninn á réttu og röngu og geta þar af leiðandi reynt að gera það sem rétt er hverju sinni.

Hafðu trú á barninu þínu

Eitt af því sem Angelou fékk frá móður sinni er trú á sjálfa sig. Hún er þekkt fyrir að útskýra það hvernig mamma hennar hafði endalaust trú á henni. „Mamma sagði að ég væri merkileg manneskja. Hún sagði það svo oft að ég fór að trúa henni. Það er sama hvað lífið færði mér, mamma hafði alltaf trú á mér. Í hvert skipti sem ég kom heim eftir að hafa verið barin niður í lífinu fékk ég faðmlag frá mömmu. Hún gagnrýndi mig ekki heldur var til staðar.“

Elskaðu barnið þitt án skilyrða

Það sem móðir Maya Angelou kenndi henni var m.a. að elska. Að elska börn þýðir ekki að stjórna börnum eða ofvernda. Heldur að elska þau frá stað þar sem er traust og von.

Að vera góð fyrirmynd er án efa stærsta gjöfin sem hægt er að gefa börnum. Að elska þau sama hvað þau gera er líka í hennar anda. Skilyrðislaus ást er ekki þannig að börn fái hana einungis þegar þau eru góð að mati foreldrana, heldur alltaf. Að hafa trú á að börnin geri góða hluti, en leiðbeina þeim með það sem betur mætti fara er án efa ást að hennar mati. 

Kenndu barninu þínu að trúa

Maya Angelou var trúuð kona og kenndi trú sína áfram til sonar síns. Þegar hann veiktist eða eitthvað bjátaði á var hún vön að segja, þakkaðu fyrir lífsreynsluna og biddu um styrk til að komast í gegnum hlutina. Veikindi og erfiðleikar misstu mátt sinn í lífi Angelou, þar sem trú hennar var svo sterk að hún virkaði eins og klettur fyrir aðra að standa á. Sonur Angelou sagði, að það að alast upp hjá móður sinni hafi verið uppeldi fullt af trú og von. Að hann hafi fengið að alast upp í hennar ljósi, aldrei í skugga hennar. 

Segðu barninu þínu að það sé einstakt

Maya Angelou trúði því að allir væru fullkomin sköpun Guðs. Að hver einasta manneskja væri fullkomin þar sem hún væri gerð af Guði. Það eina sem hver einstaklingur þyrfti á að halda væri ást og friður til að finna sinn tilgang og fá að vaxa og dafna og læra af lífinu. 

Angleou var hugrökk þegar kom að verkefnum lífsins og sagði ekkert eins mikið eitur og illar tungur. Með því að tala fallega við börn og hjálpa þeim að skilja að þau eru einstök ertu að ala barnið þitt upp í anda Angelou. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert