Fæðingin mögnuð lífsreynsla

Mæðginin Stefanía Svavarsdóttir og Örlygur Ómi Benjamínsson.
Mæðginin Stefanía Svavarsdóttir og Örlygur Ómi Benjamínsson. Ljósmynd/Aðsend

Benjamín Náttmerði Árnasyni rétt fyrir jól en fyrir áttu þau hundana Lárus og Monsa og köttinn Flóka. Sonurinn Örlygur Ómi kom í heiminn seint að kvöldi þann 18. desember 2018 á Akranesi en Stefanía er ánægð með að hafa ákveðið að fara upp á Akranes til að fæða frumburðinn.

Hvernig gekk meðgangan?

„Ótrúlega vel. Mér leið almennt mjög vel en seinni hlutann fékk ég grindargliðnun sem var ekkert sérstaklega æðisleg. Ég elskaði að vera ólétt, fékk æði fyrir ís og appelsínum og hormónarnir gerðu mig enn sjúkari í manninn minn, mér fannst allt við hann og allt sem hann gerði algjörlega stórkostlegt. Honum þótti það ekkert leiðinlegt,“ segir Stefanía um óléttuna.  

Hvernig breytt­ist lífið eft­ir að þú varðst mamma? 

„Ég sef svo sannarlega ekki lengur til hádegis en það er ekki nærri eins erfitt og ég hafði ímyndað mér að vakna eldsnemma alla morgna því maður vaknar með litlum gaur sem er alltaf í svo ótrúlega góðu skapi. Tímastjórnun og skipulagshæfileikar mínir bötnuðu til muna því tíminn sem maður hefur er mun takmarkaðri sem er mjög gott fyrir svona ADHD týpu eins og mig og lífið er hreinlega allt annað en miklu miklu betra. Það er miklu fyllra. Ég hugsaði út í það áður en ég varð ólétt hverju maður væri að fórna við það að eignast barn en það allt skiptir mig nákvæmlega engu máli núna. Það einhvern veginn bliknar allt í samanburði við þessa litlu manneskju sem maður bjó til.“ 

Hvað kom þér á óvart varðandi móður­hlut­verkið?

„Hvað þetta er manni eðlislægt, hvað ég er miklu minna sjálfhverf, hvað maður er óendanlega montinn af minnstu hlutum og hvað maður getur elskað miklu dýpra en maður hélt að væri mögulegt. Ég er til í að gera hvað sem er fyrir hann hvenær sem er sólarhringsins, alltaf. Þetta er mest krefjandi hlutverk sem ég hef þurft að sinna og á sama tíma það sjálfsagðasta, skemmtilegasta og besta.“ 

Foreldrarnir Stefanía, Benjamín Náttmörður með syni sínum Örlygi Óma.
Foreldrarnir Stefanía, Benjamín Náttmörður með syni sínum Örlygi Óma. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig mamma vilt þú vera og hvað vilt þú leggja áherslu á í uppeldinu? 

„Ég vil vera eins og mamma mín, góð fyrirmynd, ótrúlega kærleiksrík og skilningsrík. Ég legg mikla áherslu á sjálfsvinnu og að halda mér í eins góðu andlegu jafnvægi og ég get og ég hugsa að það sé það besta sem ég get gert fyrir barnið mitt og uppeldið hans. Því betra standi sem ég er í því betri ákvarðanir tek ég. Ég ætla að leggja áherslu á að leyfa honum að vera nákvæmlega eins og hann langar til, koma fram af heiðarleika og virðingu við hann og setja fordæmi með eigin hegðun. Það er svo oft sem fullorðnir segja eitt við börn en gera svo allt annað sjálfir. Það verður alveg áskorun fyrir mig. Svo hef ég verið að lesa mér aðeins til um „RIE-parenting“ og er mjög skotin í því.“ 

Finn­ur þú fyr­ir pressu frá sam­fé­lags­miðlum sem móðir?

„Nei, ég reyni líka að bera mig ekki saman við aðrar mæður á samfélagsmiðlum. Við sjáum oftar en ekki bara glansmyndina á samfélagsmiðlum og svo erum við bara allar svo ólíkar. Hver móðir reynir sitt besta og veit hvað er best fyrir sitt barn. Ég reyni því frekar að treysta á mitt innsæi og einbeita mér að lífinu utan internetsins, því það er það sem er gerast og er raunveruleikinn minn.“ 

Hvernig voru fyrstu mánuðirn­ir með ung­barn? 

„Mjög krefjandi, lærdómsríkir og dásamlegir. Maður er einhvern veginn í móki fyrstu mánuðina. Ástarvímu og svo að venjast þessu nýja hlutverki, kynnast og fylgjast með kraftaverkinu sínu stækka svo hratt. Ég var búin að senda það út í kosmósið áður en hann fæddist að hann yrði rólegur og heilbrigður, myndi sofa og drekka vel og fengi engar kveisur. Það rættist allt saman. Ég fékk nægan svefn flestar nætur og ef maður nær að sofa nóg þá er maður fær í flest.“ 

Er eitthvað sem þú hefðir viljað vita áður en þú fórst inn í fæðingu eða fékkst ungabarn í hendurnar?

„Það hefði verið gott að vita að brjóstagjöfin er ekki auðvelt til að byrja með. Ég var örugglega búin að heyra það einhvers staðar áður en það hafði ekki stimplast inn. Samt gekk mér alveg vel með að hafa hann á brjósti en maður er svo klunnalegur við þetta fyrst og áhyggjufullur. Ég fór í meðgöngujóga hjá Auði í Jógasetrinu og mér fannst það frábær andlegur undirbúningur fyrir fæðinguna og hlutverkið sem var framundan. Ég var mjög róleg í fæðingunni og nýtti vel það sem ég lærði, eins og til dæmis að anda í gegnum hríðarnar, slaka vel á og treysta ferlinu. Ég á fjögur yngri systkini sem fæddust frá því ég var á aldrinum 10-18 ára svo ég var með ágæta og raunsæja mynd af því hvernig væri að annast ungabarn. Bestu ráðin sem ég hef fengið eru að treysta mínu innsæi - mamma veit alltaf best og að fyrstu árin er allt tímabil, sem er frábært að muna þegar það reynir mikið á.“ 

Stefanía segir ekkert mál að vakna með syni sínum sem …
Stefanía segir ekkert mál að vakna með syni sínum sem er alltaf í góðu skapi. Ljósmynd/Aðsend

Ertu í mömm­u­klúbbi?

Já. Ég er í mömmuklúbbi með konum sem áttu börn í desember og svo hliðarhóp út frá honum fyrir okkur sem eigum heima í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Mér finnst frábært að hafa vettvang þar sem maður getur skipst á skoðunum og ráðum og deilt því sem maður er að ganga í gegnum með öðrum konum sem eru á nákvæmlega sama stað.“ 

Hvernig var þín fæðingarsaga? 

„Ég var gengin 11 daga fram yfir og fór upp á Akranes í gangsetningu mánudaginn 17. desember. Mig langaði til að eiga 18. desember því mér fannst dagsetningin svo flott á pappír 18.12.18 en var ekkert að kippa mér upp við það að vera kölluð inn 17. des. Ég tók töflur á tveggja tíma fresti fram á kvöld og ekkert gerðist. Klukkan 23 um kvöldið fann ég að eitthvað var að fara í gang og ræddi þá við son minn í bumbunni um það hvort við ættum ekki að hvíla okkur yfir nóttina fyrir átökin og láta til skarar skríða daginn eftir og hann var sammála því. Klukkan tíu morguninn eftir missti ég vatnið og átti dásamlegan dag með mömmu og unnusta mínum uppi á Skaga þar sem ég hékk í baði, hlustaði á tónlist og andaði mig í gegnum hverja hríð. Það var svo góð ákvörðun að eiga á Akranesi. Það var svo heimilislegt og yndislegt og ég get ekki hrósað ljósmæðrunum sem þarna vinna nóg. Þær eru englar í mannsmynd. Ég notaði glaðloftið óspart og fékk mænudeyfingu seinnipart dags en þá duttu hríðarnar niður. Eftir kvöldmat fékk ég „dripp og svo um klukkan 22 fór ég að hugsa að þetta myndi nú örugglega ekki nást, það er að fæða hann þann 18. desember. En viti menn, þá fór allt í gang. Hálftíma síðar var ég farin að rembast og rúmum klukkutíma síðar klukkan 23:12 kom hann í heiminn, 19 merkur af fullkomnun. Ég rumdi eins og ljón við að koma honum út og ég hef aldrei áður upplifað mig jafn mikið eins og dýr. Ég var ekkert annað í þessu augnabliki, náttúran tók algjörlega við. Þetta er magnaðasta lífsreynsla sem ég hef á ævinni gengið í gegnum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert