Sögð hafa fætt 69 börn

Er ein fæðing ekki nóg? Hvað með 27?
Er ein fæðing ekki nóg? Hvað með 27? mbl.is/Thinkstockphotos

Sumum finnst alveg nóg að eiga tvö börn, hvað þá þrjú eða fjögur. Eiginkona bóndans Feodor Vassilyev í Rússlandi á hins vegar metið „frjósamasta móðir í heimi“ í Heimsmetabók Guinness en hún er sögð hafa eignast 69 börn. Þótt sagan sé ólíkleg stendur met hennar enn síðan á 18. öld. 

Frú Vassilyev er sögð hafa gengið í gegnum 27 fæðingar. Á hún að hafa eignast 16 sinnum tvíbura, sjö sinnum þríbura og fjórum sinnum fjórbura, samtals 69 börn. Eiginmaður hennar á hins vegar að hafa eignast alls 87 börn þar sem seinni eiginkona hans er sögð hafa eignast sex sinnum tvíbura og tvisvar þríbura. 

Ekki er mikið vitað um heimsmethafann. Telja sumir að hún hafi heitið Valentina en það er ekki víst. Aðeins áttu tvö af öllum 69 börnum hennar að hafa dáið sem ungabörn en sjálf er hún sögð hafa orðið 76 ára. 

Þótt það sé óumdeilt að kona ætti afar erfitt með að ganga í gegnum 27 fæðingar eru það samtímaheimildir Vassilyev-hjónanna sem heimsmetabókin styðst við. Í skjölum sem send voru til Moskvu árið 1782 frá Nikolskiy-klaustrinu er tekið fram hversu mörg börn bóndinn átti með hverri konu og hversu mörg börn fæddust í hverri fæðingu. 

Konan er sögð hafa eignast 69 börn.
Konan er sögð hafa eignast 69 börn. mbl.is/Thinkstockphotos
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert