Uppeldisráð Obama til Meghan

Michelle Obama svaraði spurningum Meghan.
Michelle Obama svaraði spurningum Meghan. AFP

Meghan hertogaynja af Sussex gestaritstýrði septemberútgáfu breska Vogue í ár. Í leiðara blaðsins segir Meghan að hún hafi viljað hafa sterkt viðtal í lok blaðsins og því valdi hún að taka viðtal við Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna. 

Meghan segir í leiðaranum að Obama hafi svarað spurningum ítarlega og vel og ef hana hefði grunað að hún myndi gefa svona mikið af sér hefði hún skrifað mun lengri spurningar. Meghan vann að blaðinu á meðan hún gekk með Archie litla, sem kom í heiminn í byrjun maí. Spurningarnar sem hún sendi Obama snúast um móðurhlutverkið en stærsta ráðið sem Obama gaf henni var að njóta alls þess sem móðurhlutverkinu fylgir.

Fyrsta spurningin snýr að því hvað móðurhlutverkið hefur kennt henni. „Að vera mamma hefur verið eitt stórt námskeið í því að læra að sleppa tökunum. Við getum reynt eins og við viljum, en við getum bara stjórnað upp að vissu marki,“ sagði Obama.

Meghan og Harry eignuðust sitt fyrsta barn í maí.
Meghan og Harry eignuðust sitt fyrsta barn í maí. mbl.is/AFP

Obama á tvær dætur með eiginmanni sínum Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. „Ekki merkja bara í kassana sem þú heldur að þú eigir að merkja í, eins og ég gerði á þeirra aldri. Ég segi þeim að ég voni að þær prófi eitthvað nýtt þangað til þær finna eitthvað sem þeim finnst vera rétt fyrir sig,“ sagði Obama. Hún segir að það ráð sé einnig gilt fyrir drengi. 

Lokaspurning Meghan til Obama var „Hvaða hljóð er það fallegasta sem þú hefur heyrt?“

„Þegar Malia og Sasha voru nýfæddar, eyddum við Barack miklum tíma í að horfa á þær sofa. Við elskuðum að hlusta á litlu hljóðin sem þær gáfu frá sér þegar þær voru í djúpum svefni. Ekki misskilja mig samt, maður er úrvinda á þessum tíma. Ég veit að þú veist eitt og annað um það núna. En það er eitthvað töfrandi við það að hafa lítið barn í húsinu. Tíminn teygist og beygist og hvert andartak er eins og eilífð. Ég er svo spennt fyrir ykkur Harry að fá að upplifa það, Meghan. Njótið þess,“ skrifaði Obama. 

Sem fyrr segir var Meghan gestaritstjóri septemberútgáfunnar. Hún valdi að vera heldur gestaritstjóri en á forsíðunni. Á forsíðuna valdi hún 15 konur sem hafa haft jákvæð áhrif á heiminn. Á forsíðunni eru 16 bil og konurnar 15 fylla öll nema eitt. Í því 16. er „spegill“ til að hvetja lesandann til að stuðla að breytingum í samfélagi sínu.

Forsíðan umrædda.
Forsíðan umrædda. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert