Cruise má ekki hitta dóttur sína

Tom Cruise á dótturina Suri með Katie Holmes.
Tom Cruise á dótturina Suri með Katie Holmes. AFP

Stórleikarinn Tom Cruise má ekki hitta yngstu dóttur sína Suri samkvæmt viðtali í Us Weekly við fyrrverandi Vísindakirkjusóknarbarnið Samantha Domingo. 

Samkvæmt henni má hann ekki hitta dótturina vegna reglna kirkjunnar, þar sem hún er ekki í söfnuðinum. Suri, sem er þrettán ára, sást síðast í fylgd með föður sínum árið 2013. Það var um ári eftir að hann skildi við leikkonuna og barnsmóður sína Katie Holmes. 

Cruise er í samskiptum við eldri börn sín tvö, Isabellu 26 ára og Connor 24 ára, enda eru þau í Vísindakirkjunni. 

Annar heimildarmaður Us Weekly segir að reglur kirkjunnar leyfi foreldrum í kirkjunni að umgangast börn sín þótt þau séu ekki í kirkjunni. Domingo segir hins vegar að það sé meira í spilinu, því Cruise velji að hitta ekki dóttur sína.

Fólk í Vísindakirkjunni trúir á endurholdgun og telur því að „Suri sé í raun ekki dóttir hans, hún er bara andavera í líkama dóttur hans,“ sagði Domingo.

Suri í fangi föður síns árið 2012.
Suri í fangi föður síns árið 2012. MEHDI TAAMALLAH
mbl.is