Lífið tók stakkaskiptum í fæðingarorlofinu

Sara Barðdal einkaþjálf­ari og heil­su­markþjálfi.
Sara Barðdal einkaþjálf­ari og heil­su­markþjálfi.

Sara Barðdal einkaþjálf­ari og heil­su­markþjálfi býr í Danmörku ásamt manni sínum Hákoni Víði og sonum þeirra Alexander Úlfi fimm ára og Baltasar Mána tveggja ára. Eftir að frumburðurinn kom í heiminn fann Sara sig ekki í tímum í líkamsræktarstöðvum. Hún uppgötvaði þá HIIT-æfingar sem hentuðu fullkomlega í fæðingarorlofinu með lítið kríli. Í kjölfarið fór hún að þróa sínar eigin æfingar og líkamsræktar- og heilsusamfélagið HIITFIT varð til. Sara segir mikilvægt að foreldrar gefi sér tíma til fyrir sjálfa sig. 

Hvernig gengur þér að gefa þér tíma fyrir þig í barnauppeldinu? 

„Í dag gengur það mjög vel, af því ég set það sem forgangsatriði. En það var alls ekki alltaf þannig. Á tímabilum hef ég sett sjálfsumhyggju og sjálfa mig í aftasta sætið, eins og margar mömmur kannast líklega við. Ég sá fljótlega að þegar ég gleymdi sjálfri mér þá fór það að hafa alvarlegar afleiðingar, bæði líkamlega og andlega. Ég varð þreyttari, pirraðri og þyngri á mér þar sem ég hugsaði ekki um líkamann minn nægilega vel, andlega leið mér verr og ég varð miklu óþolinmóðari og þráðurinn mun styttri. Ég sá líka að ég fór að gleyma því hver ég var sem einstaklingur, maður getur sökkt sér svo djúpt ofan í mömmuhlutverkið og allt í einu veit maður varla hver maður er án þess. Það er mjög mikilvægt fyrir mig að gefa sjálfri mér tíma fyrir hreyfingu, áhugamálin mín, vini og það sem gefur mér gleði, því þá er ég hamingjusamari og hamingjusöm mamma gerir hamingjusamt heimili, ég trúi því 100%.

Mér finnst líka gott að hugsa um það sem flugfreyjurnar segja: „Settu súrefnisgrímuna á sjálfa þig fyrst áður en þú aðstoðar aðra.“ Því ef tankurinn þinn er tómur, þá ertu líklega ekki að fara að gefa mikið af þér.

Því miður er þetta mjög algengt í dag, að konur gleyma að setja sjálfar sig í forgang því þeim finnst þær þurfa að hugsa um alla aðra fyrst, og enda síðan algjörlega búnar á því og með tóman tank. En það á einmitt að virka öfugt.

Til þess að láta þetta allt ganga upp þá geri ég þetta ekki ein, ég þarf að biðja um stuðning og þá sérstaklega frá maka. Við setjumst reglulega niður og förum yfir vikuna okkar saman, skipuleggjum hvenær við ætlum að hreyfa okkur, hvort það sé eitthvað á dagskránni sem mun hafa áhrif á hinn aðilann og stillum saman strengina okkar. Þannig minnkum við líkurnar á að eitthvað komi hinum á óvart og allir vita hvenær annað hvort okkar þarf að sjá um matinn, vera einn með börnin eða svæfa.

Það gengur allt svo miklu betur þegar samtalið er tekið um hverju hver einstaklingur þarf á að halda og við reynum að styðja hvort annað, þannig að allir séu glaðir.

Þetta getur verið púsluspil, og er það einmitt ástæðan fyrir því af hverju ég elska heimaæfingar, það einfaldar málin svo mikið fyrir alla. Því þá þarf maður bara að skella dýnu á gólfið og byrja, og börnin taka þátt eða fylgjast áhugasöm með.“

Sara Barðdal á tvo stráka sem fylgjast með henni æfa …
Sara Barðdal á tvo stráka sem fylgjast með henni æfa heima við.

Hvernig breyttist lífið eftir að þú varðst móðir?

„Það breyttist frekar mikið, eins og hjá flestum líklega. Allt í einu þarf maður að halda lítilli mannveru á lífi og hugsa um fleiri en sjálfa sig. Við tókum þann pólinn að reyna að láta það ekki hafa áhrif á hluti eins og draumana okkar, markmið í lífinu, ferðalög og áhugamál. Við erum sammála um að börnin eiga að aðlagast lífinu okkar frekar en öfugt og höfum því verið dugleg að hafa þau með í hlutunum.

En það má segja að lífið hafi tekið miklum stakkaskiptum, þar sem ég fékk hugmyndina að HIITFIT í fæðingarorlofinu með eldri strákinn. Þá vildi ég komast í gott form eftir meðgöngu en mömmutímarnir sem ég var í voru ekki að henta mér nægilega vel og mig vantaði einhverja áhrifaríka og góða leið sem hentaði rútínunni með lítið kríli heima. Ég varð því ástfangin þegar ég uppgötvaði HIIT-æfingarnar og fór sjálf að þróa mínar eigin æfingar áfram.

Á sama tíma upplifði ég mig svo eina, þar sem ég var mikið heima við og man eftir hugsuninni „oh ég vildi að það væri til eitthvert námskeið þar sem ég gæti tengst stelpum sem eru líka að æfa heima og við gætum hvatt hver aðra áfram“. Ég fór meira að segja og googlaði það á fullu, án árangurs. Þannig ég ákvað bara að skapa sjálf og hélt mitt fyrsta „Sterkari á 16-námskeið“ í janúar 2016, sem snýr einmitt að þessu.“

Hvað leggur þú áherslu á í uppeldinu?

„Mér finnst skipta mestu máli að vera góð fyrirmynd fyrir strákana mína. Því ég veit að þeir fylgjast með öllu sem við gerum og eru að læra af gjörðum okkar frekar en af því sem við segjum. Talað er um að á fyrstu sjö árum ævinnar séum við að taka allt inn eins og svampar, við erum að skapa sýn okkar á heiminum, viðhorfin, sjálfsmyndina okkar og persónuleika. Mér finnst því mikilvægt að sýna þeim í verki hvernig maður getur átt hamingjusamt og gott líf.

Ég legg mikla áherslu á að sýna góðvild og kærleika í garð annarra (manna og dýra), reyna að horfa á jákvæðu hliðarnar á málunum, vera lausnamiðaður, kenna þeim hvernig hugsanir manns skapa raunveruleikann og að maður sé stjórnandi í sínu eigin lífi og að allt sé mögulegt. En þetta er grunnur sem ég fékk þegar ég var ung sem ég tel að hafi þjónað mér ótrúlega vel.

Einnig hallast ég mikið að RIE-stefnunni þó svo að ég sé ekki 100% að fylgja öllu. En ég og maðurinn minn ræðum mikið og oft um hvernig við viljum ala strákana, hverjar áherslurnar okkar eru og svo framvegis. Áherslur RIE eru meðal annars virðing, traust og tenging.

Til að bæta við í lokin, þá legg ég mikla áherslu á ást og kærleika og segi þeim daglega að ég elski þá, það er mikið um knús á okkar heimili. Þetta er ein af mikilvægustu þörfunum okkar, að upplifa að við séum elskuð og finna fyrir öryggi og það er svo mikilvægt að börnin okkar upplifi það svo að við mótum sterka og örugga einstaklinga.“

Strákarnir hennar Söru taka stundum þátt í æfingunum.
Strákarnir hennar Söru taka stundum þátt í æfingunum.

Hvernig gekk þér að koma þér í form eftir meðgöngu?

„Það gekk mjög vel eftir að ég uppgötvaði HIIT-æfingaformið. Eftir að ég kynntist því var það í fyrsta skipti sem ég náði að halda hreyfingunni inni og virkilega skapað mér lífsstíl þar sem hreyfing var hluti af rútínunni. Ég var alltaf að byrja og hætta, föst í heilsuátökum og kúrum sem entust stutt, en loksins fann ég eitthvað sem hentaði upptekinni mömmu.

Það kom mér einnig mikið á óvart hvað árangurinn var fljótur að koma, og áttaði ég mig á því að það var ekki endilega tíminn sem skipti máli, heldur frekar hvað ég var að gera á æfingunni. En HIIT-æfingarnar eru lotuþjálfun þar sem púlsinn er kýldur upp í stuttan tíma og svo er tekin hvíld á milli. Það var því mikill léttir fyrir mig að uppgötva að ég þurfti ekki að eyða einni til tveimur klukkustundum í ræktarsal til að upplifa sterkan líkama, heldur voru 20 mínútur af kröftugum heimaæfingum nóg.

Þegar það var komið af stað fór allt annað að smella saman, mataræðið batnaði og ég byrjaði að kafa ofan í hluti eins og hugarfar og hvernig maður látið breytingar endast. Núna vinn ég við að hjálpa öðrum konum gera slíkt hið sama og erum við hjá HIITFIT að fara halda 10 daga heilsuáskorun þar sem við bjóðum þátttakendum ókeypis heimaæfingar, uppskriftir, hugaræfingu, fræðslu og mikla hvatningu. Ég hvet alla sem vilja bæta heilsuna sína að vera með, við lofum mikilli stemningu og stuði. Áhugasamir geta lesið allt um það hér.“

Er eitthvert ráð sem þú vilt deila með öðrum foreldrum?

„Já! Að muna að hugsa um sig og setja heilbrigði og hamingju í forgang. Börnin okkar sjá allt sem við gerum og munu líklega endurtaka ferlið þegar þau verða stór. Þannig að ef þau sjá heilbrigða, hamingjusama og glaða foreldra sem hugsa vel um sig, fylgja markmiðunum sínum og skapa sér draumalífið sitt, þá læra þau það.

Einnig langar mig að hvetja fólk að sýna sjálfu sér meiri væntumþykju og kærleika, við þurfum að byrja á okkur og setja sjálfsumhyggju sem forgangsatriði. Þannig sköpum við heilbrigðari fjölskyldur.

Ef þú ert að byrja heilsuferðalagið þitt eða hefur verið að ströggla á því sviði áður fyrr, ekki setja svona miklar kröfur á þig. Byrjaðu smátt, taktu lítil skref, skref sem þú nýtur þess að gera. Breyttu tungumálinu þínu frá því að segja „ég þarf að hreyfa mig“ yfir í „ég fæ að hreyfa mig“ eða „mig langar að hreyfa mig“.

Það þarf að verða hugarfarsbreyting þegar kemur að heilbrigðum lífsstíl, hann á ekki að vera kvöl og pína eða erfiður. Við þurfum bara að finna það sem hentar okkur og finna það sem okkur finnst skemmtilegt og njótum þess að gera.

Að hugsa um líkama og sál á að vera gefandi og sjálfsagður hluti af lífinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert