„Engin kona er eins“

Kristín ásamt Hallgrími eiginmanni sínum og börnunum þeirra tveimur.
Kristín ásamt Hallgrími eiginmanni sínum og börnunum þeirra tveimur.

Kristín Þorvaldsdóttir eignaðist sitt annað barn með eiginmanni sínum, Hallgrími Þór Harðarsyni, í október 2018 þegar dóttirin Ýlfa Aþena kom í heiminn. Fyrir áttu hjónin soninn Rúnar Pétur sem varð fjögurra ára í sumar. Kristín fór í bráðakeisara þegar hún fæddi eldra barn þeirra en skipulagðan keisaraskurð þegar seinna barn þeirra kom í heiminn og segir himin og haf á milli. 

Kristín segir meðgöngur og fæðingar sínar vera ólíkar. Hún lærði af báðum meðgöngunum að engin kona er eins hvorki á meðan hún er ólétt né eftir meðgöngu. 

Kristín átti alls ekki auðvelda fyrstu meðgöngu en seinni meðgangan gekk betur.

„Fyrri meðgangan var alls ekki góð. Fyrstu 15 vikurnar voru reyndar fínar, einstaka ógleði en annars ekkert að kvarta yfir. Á 15. viku byrjaði ég að finna til í rófubeininu og stundum var það það slæmt að ég gat ekki setið. Fram að þessu hafði ég hreyft mig reglulega, passað upp á mataræðið og hugsað almennt vel um sjálfa mig. Þegar ég byrjaði að finna til hætti ég að mestu að æfa því það var bara einfaldlega vont. Svo uppúr 20. viku byrjaði blóðþrýstingurinn minn að hækka og ég byrjaði að fá bjúg af og til. Svo upp úr 26. viku var blóðþrýstingurinn orðin svo hár að ég var komin á blóðþrýstingslyf ásamt því að bjúgur var orðinn daglegt brauð. Ég þyngdist mjög hratt því ég var svo rosalega mikinn bjúg ásamt því að ég mátti lítið gera eftir 30. viku vegna háþrýstings. Þá fór líka að mælast eggjahvítur í þvagi og þar sem allt þetta þrennt, háþrýstingur, bjúgur og eggjahvítur i þvagi benda til byrjunar á meðgöngueitrun var ég kyrrsett á 32. viku og skipað að setja fætur upp í loft. Þetta var 2015 en þá var líka ljósmæðraverkfall. Ég endaði á að ganga 41 viku, átti gangsetningu um kvöldið 5. júlí en fer sjálf á stað snemma morguns 4. júlí. Ég var heima með verki af og til allan 4. júlí en við maðurinn minn förum upp á fæðingardeild um tvö um nóttina aðfaranótt 5. júlí,“ segir Kristín um sína fyrstu meðgöngu. 

„Fæðingin gekk svo mjög illa, ég var mjög verkjuð, tveir leggir settir upp fyrir mænurótardeyfingu en það sló samt aldrei almennilega á og ég svaf ekkert um nóttina. Um  ellefuleytið er ég komin með níu í útvíkkun og kollurinn var komin mjög neðarlega í grindina en hann var skakkur, snéri sér sem sagt ekki almennilega á leiðinni niður. Á þessum tímapunkti var samt búið að taka fullt af blóðprufum úr kollinum á stráknum mínum því að ritið hans var ekki alveg eins og það átti að vera. Eftir smá vangaveltur milli læknanna og ljósmæðranna var ákveðið að ég myndi reyna að rembast og koma honum út. Það gekk ekki og klukkan eitt um daginn var farið með mig á skurðstofuna þar sem bráðakeisari var framkvæmdur. Við eyddum svo fjórum dögum á spítalanum, Rúnar Pétur var þrjá daga á vökudeild því hann fæddist með vot lungu og átti erfitt með andadrátt. Hann fékk svo að koma yfir til okkar á þriðja degi og eyða með okkur seinustu nóttinni. Ég lá inni því að ég þurfti á blóðgjöfum að halda eftir keisarann,“ segir Kristín um fæðinguna. 

Allt annað var upp á teningnum hjá Kristínu rúmlega þremur árum seinna. 

„Seinni meðgangan var draumur í dós miðað við þá fyrri þó að hún hafi kannski ekki verið neitt auðveld. Mér var mjög óglatt fyrstu 16 vikurnar þó að ég hafi ekki kastað neitt upp af viti. Ég borðaði bara mjög lítið og hafði enga list á mat, sem er sko mjög ólíkt mér. Svo fékk ég verk í grindina, sem ég gat svo sem alveg lifað með. Hinsvegar þurfti ég að díla við stanslausa verkjalausa samdrætti frá 20. viku sem urðu svo samdrættir með verkjaseyðing frá 25. viku. Ég var samt heppin að á þessum tíma var ég í þannig vinnu að ég gat setið mest allan daginn og gat því sinnt vinnunni minni í 50% stöðu alveg að 36. viku þegar ég hætti. En þegar ég gekk með Rúnar var ég í 60% næturvöktum fram að 25. viku ásamt því að vinna 40% dag og kvöldvaktir. Ég var hinsvegar komin í 75% dagvinnu þegar ég varð ólétt af Ýlfu.“

Systkinin Ýlfa Aþena og Rúnar Pétur.
Systkinin Ýlfa Aþena og Rúnar Pétur.

Kristín tók ákvörðun um að fara í keisaraskurð þegar hún var ólétt af dóttur sinni og er ánægð með þá ákvörðun.  

„Ég tek þá ákvörðum á 34. viku að fara í fyrir fram ákveðinn keisara. Ég var bara alveg rosalega hrædd um að enda aftur í sömu aðstæðum og við fyrri fæðingu. Ég sé alls ekki eftir þeirri ákvörðun því að upplifunin af fyrir fram ákveðnum keisara var bara alveg allt önnur en af bráðakeisaranum. Við Halli höfðum talað um það bæði að við værum ekki alveg viss hvernig upplifunin yrði.

Það er allt annað að vera á skurðstofu þar sem eru 20 manns og allir að flýta sér að ná barninu út og blása í það og koma því í hitakassa og svo var strax farið með það á meðan ég lá bara enn á skurðarborðinu. Halli fylgdi Rúnari og mér fannst ég verða pínu ein í heiminum þrátt fyrir allt fólkið þarna inni. Ég vissi ekki alveg hvað var í gangi eða hvenær ég myndi hitta barnið mitt. Ég fékk rétt svo að sjá framan í hann áður en hann var tekin yfir á vöku. Ég hitti hann svo ekki fyrr en fjórum eða fimm tímum síðar þegar ég var búin að sofa og jafna mig aðeins. 

Hinsvegar með Ýlfu að þá voru sex eða átta manns inn á skurðstofunni, allt rosa rólegt og allir að spjalla við mann og ekkert stress. Um leið og hún kom í heiminn var hún lögð hjá mér og þar var hún á meðan það var klárað að sauma mig saman. Við fengum svo að kúra saman á meðan deyfingin var að fara úr fótunum á mér á vöknun og svo áfram eftir að við vorum öll þrjú komin saman. Við láum svo inni í einn og hálfan sólarhring. Allt annað.“

Var eitthvað sem þú lærðir af fyrri meðgöngunni sem nýttist þegar þú gekkst með yngra barnið? 

„Já og nei. Þetta voru svo hrikalega ólíkar meðgöngur með ólíkum meðgöngukvillum. Ég var búin að ákveða fyrir fram að næst myndi ég sko borða hollt og hreyfa mig alla meðgönguna, en svo var mér svo óglatt að mig langaði bara ekkert að hreyfa mig eða borða neitt yfir höfuð og þegar mig langaði í eitthvað var það ekkert sérlega hollt. Svo fékk ég samdrætti við það eitt að standa upp úr stól, hvað þá að labba nokkur skref þannig að það varð ekkert mikið úr því að hreyfa sig alla meðgönguna.

Ég lærði það hinsvegar af báðum meðgöngunum að engin kona er eins, ég „bánsaði“ ekki beint til baka, er enn með fullt af lausri húð og fullt af aukakílóum á meðan sumar konur fá líkamann sinn nánast eins til baka. Ég var fúl út af þessu eftir fyrri meðgönguna en alls ekki eftir seinni. Ég lærði það að elska sjálfan mig nákvæmlega eins og ég er í dag. Þrátt fyrir slappan maga og slitin brjóst þá kom þessi magnaði líkami sem ég á tveimur gullfallegum og hrikalega skemmtilegum börnum í heiminn og gæti ég ekki verið þakklátari fyrir það.“

Var eitthvað sem þú gerðir á meðgöngunum til þess að láta þér líða betur?

„Ég horfði mikið á Friends og las allar Harry Potter-bækurnar, á íslensku þegar ég gekk með Rúnar og ensku þegar ég gekk með Ýlfu. Þegar maður getur lítið hreyft sig verður maður að finna sér eitthvað að gera,“ segir Kristín og hlær. 

Náðir þú að koma þér í „form“ eftir fyrri meðgönguna?

„Já. Alls ekki í sama form og fyrir meðgöngu enda var það bara alls ekki form sem ég sækist eftir í dag. Fyrir meðgöngu var ég með útlitið algjörlega á heilanum, var 59 til 62 kíló og hreyfði mig rosalega mikið. Mér fannst ég samt aldrei nógu grönn eða nógu flott og fín. Hinsvegar eftir meðgöngu þá ákvað ég að byrja að hreyfa mig og taka til í hausnum á mér til að ég gæti leikið við strákinn minn og gert allskonar með honum. Við giftum okkur svo 11 mánuðum eftir að ég átti þannig að það var pínu gulrót líka.

Hinsvegar keyrði ég á pínu vegg um tveimur árum eftir meðgöngu. Var búin að vera í fullu námi við Keili að taka IAK einkaþjálfun og vinna fullt með því og æfa fullt líka. Fékk eiginlega bara nóg og hætti að hugsa almennilega um sjálfan mig og þyngdist aftur. Var því alls ekki í mínu besta formi eftir fyrri meðgönguna þegar ég verð svo ólétt aftur.“ 

Fjölskyldan saman.
Fjölskyldan saman.

Hvernig hugsar þú um heilsuna núna?

„Ég er að koma mér af stað í rútínu. Er búin að vera að vinna vaktavinnu í sumar á meðan Halli er í fæðingarorlofi og það var pínu púsl að koma hreyfingu inn í það með tvö ung börn. Við erum hinsvegar að flytja norður á Ólafsfjörð og ég er að fara í skóla í haust þannig að það eru stórar breytingar fram undan og ég get eiginlega ekki beðið eftir því að komast í rútínu og leyfa hreyfingu og hollu mataræði að verða aftur normið. Þrátt fyrir að ég sé alveg á því að mér líði vel í mínum eigin líkama í dag að þá er ég líka alveg á því að ég þarf að vera léttari en ég er núna, ekki útlitsins vegna heldur heilsunnar vegna. Það er bara miklu auðveldara fyrir líkamann að vera passlega þungur.“

Hvernig er að vera með tvö ung börn?

„Bæði yndislegt og hrikalega erfitt. Þau eru mjög ólík, bæði í útliti og skapi. Þó svo að skipulagði keisarinn hafi verið auðveldari var Ýlfa Aþena til dæmis kveisubarn með bakflæði og því sváfum við tvær mjög lítið fyrstu fjóra mánuðina hennar. Hinsvegar sér Rúnar Pétur ekki sólina fyrir systur sinni, enn þá alla vega. Hún er náttúrulega bara rúmlega tíu mánaða líka þannig að það er ekki komin nein rosaleg reynsla á þetta.“

„Það besta við að vera mamma er að ég fæ að fylgjast með börnunum mínum uppgötva lífið og allt því sem því fylgir,“ segir Kristín um móðurhlutverkið að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert