Fríða elur upp dóttur sína í New York-ríki

Fríða Kristinsdóttir flutti fyrir 11 árum til New York þar …
Fríða Kristinsdóttir flutti fyrir 11 árum til New York þar sem hún vann fyrir Fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu Þjóðunum. Hún fór síðan í kokkanám og vinnur nú við að elda fyrir ýmsa viðburði. Ljósmynd/Katrín Björk

Fríða Kristinsdóttir flutti fyrir 11 árum til New York, þar sem hún vann fyrir fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Hún fór síðan í kokkanám og vinnur nú við að elda fyrir ýmsa viðburði, tekur ljósmyndir og kennir á matreiðslunámskeiðum fyrir börn svo eitthvað sé nefnt. 

Fríða býr í Kingston ásamt eiginmanni sínum, Tait Simpson, eiganda brugghúsins Kingston Standard Brewing Company. Saman eiga þau dótturina June Kristínu, sem er að byrja í fyrsta bekk í haust. Kingston er í New York-ríki í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í Hudson-dalnum, í tveggja tíma akstursfjarlægð frá New York-borg. Fjölskyldan hefur verið búsett í Kingston í fimm ár en áður bjuggu þau í Brooklyn. Fríða segir að lífið hafi breyst eftir að þau eignuðust dóttur sína. „Við keyptum gamalt hús frá 1924 sem stóð autt í þrjú ár og var ekki íbúðarhæft. Við unnum hörðum höndum í rúmt ár að því að koma húsinu í stand og og erum ofboðslega ánægð í þessu fallega húsi. Við búum í fimm mínútna göngufæri frá skóla, kaffihúsum og grænmetismarkaðinum,“ segir hún.
Mikil uppbygging í Kingston

Kingston er merkilegur bær fyrir margar sakir, en þar búa um 24 þúsund manns. Bærinn fór í mikla efnahagslega lægð fyrir nokkrum áratugum þegar IBM-verksmiðjan lagði niður starfsemi sína í bænum.

„Síðastliðin ár hefur verið mikil uppbygging og margt ungt fólk flust til Kingston og hafið ýmsan rekstur. Opnað kaffihús, veitingastaði og fleiri fyrirtæki. Tait, maðurinn minn, opnaði í vor ásamt félögum sínum brugghús sem heitir Kingston Standard Brewing Company. Þetta var lengi í bígerð og við lögðum öll okkar að mörkum að koma því á laggirnar. Tait bruggar bjórinn og ég baka kringlur og svo erum við líka með ostrur og humarsamlokur á matseðlinum. Þetta er mikil vinna en mjög gaman að taka þátt í því að koma nýju lífi í bæinn.“

Tait þykir frábær fagmaður þegar kemur að því að brugga …
Tait þykir frábær fagmaður þegar kemur að því að brugga bjór. Ljósmynd/Richard Beaven
Kingston Standard Brewing Company er í eigu Tait eiginmanns Fríðu.
Kingston Standard Brewing Company er í eigu Tait eiginmanns Fríðu. Ljósmynd/Richard Beaven
Tait bruggar bjórinn og Fríða bakar kringlur á brugghúsinu. Síðan …
Tait bruggar bjórinn og Fríða bakar kringlur á brugghúsinu. Síðan bjóða þau upp á girnilegar ostrur og humarsamlokur á matseðlinum. mbl.is

Fríða eignaðist dóttur sína þegar hún var 39 ára og segist hafa verið meira en tilbúin í móðurhlutverkið og nýtur þess mjög vel.

„Leikskólar hér úti eru mjög dýrir, þannig að June Kristín fór í 2-3 daga í viku í leikskóla og aðra daga var hún heima þannig að við höfum átt mikinn og góðan tíma saman. Það sem mér finnst líklega erfiðast við að vera mamma er að muna að taka tíma fyrir sjálfa mig en í fyrra byrjaði hún í skóla og eftir því sem hún eldist verður þetta auðveldara á ýmsan hátt,“ segir hún.

Jarðaberjatínsla vinsæl á sumrin

Spurð hvað henni finnist skemmtilegast að gera með dóttur sinni nefnir hún að fara í ferðir með henni út í náttúruna.

„Mér finnst gaman að vera úti og njóta fallegu náttúrunnar sem er í kringum okkur hér í Hudson-dalnum. Á sumrin syndum við í ám og vötnum og förum í jarðarberjatínslu eða heimsækjum bóndabæi. Þar sem ég hef mikinn áhuga á mat finnst mér voða gaman að elda og baka með June Kristínu. Á veturna snjóar mikið og þá er farið á snjóþotu eða gönguskíði og búin til snjóhús. Við förum líka reglulega á bókasafn og kaffihús.“

Fríða fer með dóttur sinni að týna jarðaber á sumrin.
Fríða fer með dóttur sinni að týna jarðaber á sumrin. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða uppeldisaðferðir notar þú?

„Ég veit ekki til þess að ég noti einhverja sérstaka uppeldisaðferð en þegar ég fer í strand ráðfæri ég mig við systur mína eða vinkonur. Við reynum að hafa nokkrar reglur sem henta okkar fjölskyldu. Til dæmis að hafa einn dag í viku þar sem June fær sætindi og að horfa á bíómynd. Þá er ekki suðað alla hina dagana og bara farið beint í að finna sér eitthvað annað að gera. Við leggjum líka áherslu á að smakka allan mat og borðum öll saman kvöldmat.“

Hvað hefur dóttir þín kennt þér?

„Að vakna hress og glöð, að hægja á og njóta augnabliksins.“

Hvað upplifðir þú í æsku sem þig langar að taka áfram?

„Að leggja áherslu á upplifanir og að læra eitthvað nýtt. Ég átti aldrei nýjasta og dýrasta dótið en það var alltaf fundinn peningur fyrir tónlistarnámi og ballett. Bestu æskuminningarnar eru frá þeim árum þegar mamma og pabbi voru í námi í Danmörku. Þá höfðum við fjölskyldan mikinn tíma saman og það var mikið ævintýri að læra nýtt tungumál, hjóla út um alla Kaupmannahöfn og kynnast nýrri menningu. June Kristín er byrjuð í píanónámi og ballett og við reynum að verja miklum tíma saman fjölskyldan, ferðast og gera eitthvað skemmtilegt.“

Saknar fjölskyldunnar

Þar sem Fríða hefur verið búsett erlendis um árabil segist hún sakna margs frá Íslandi og þá sérstaklega fjölskyldunnar.

„Fjölskyldan er dugleg að koma til okkar í heimsókn og ég hef farið til Íslands einu sinni til tvisvar á ári síðan ég flutti hingað út. Ég öfunda stundum systur mína og vinkonur í Reykjavík að hafa ömmur og afa til halds og trausts, en hérna úti koma vinirnir svolítið í stað fjölskyldu. Við hittumst mikið um helgar og erum dugleg að hjálpast að við að sækja börnin í skólann og passa.“

Er eitthvað eitt frekar en annað sem þú saknar frá Íslandi?

„Ég sakna þess mest að geta farið í sund allan ársins hring í hitaðri laug,“ segir Fríða og þegar hún er spurð hvort það sé eitthvað við Ísland sem hún er fegin að losna við nefnir hún skammdegið. „Ég áttaði mig á því þegar ég flutti út að þegar það er bjart úti á morgnana finnst mér ekkert erfitt að fara á fætur.“

Nauðsynlegt að eiga vinkonur

„Flestar vinkonur mínar hér úti eru mömmuvinkonur. Þegar ég flutti til Kingston fyrir fimm árum var June Kristín rétt að verða eins árs og ekki byrjuð á leikskóla. Ég kynntist yndislegum hópi af konum sem áttu það sameiginlegt að vera nýfluttar frá New York hingað upp í sveit og voru með ung börn. Við hittumst með börnin á hverjum einasta þriðjudegi allan veturinn og aðra daga líka ef okkur leiddist. Nú eru börnin öll byrjuð í skóla en við mömmurnar erum ennþá bestu vinkonur og pabbarnir líka. Það er enn að bætast í vinahópinn þegar fleiri fjölskyldur flytja til Kingston og núna á ég meira að segja íslenska vinkonu í næstu götu, hana Katrínu Björk sem er ljósmyndari og kokkur. Krakkarnir okkar eru orðnir bestu vinir og það er alveg frábært að eiga íslenskt samfélag hér úti, borða saman páskalambið og skera út laufabrauð.“

Fríða ákvað að fara í kokkanám og vinnur nú við …
Fríða ákvað að fara í kokkanám og vinnur nú við að gera fallegar veitingar fyir allskonar tilefni. Ljósmynd/Camilla French
Fríða er mikill fagurkeri og leikur sér með liti og …
Fríða er mikill fagurkeri og leikur sér með liti og form. Ljósmynd/Camilla French
Það er hægt að gera klassískan matardisk að listaverki ef …
Það er hægt að gera klassískan matardisk að listaverki ef marka má matarverkefni Fríðu. Ljósmynd/Camilla French
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »