Dagskrá Meghan skipulögð út frá Archie

Meghan og Archie.
Meghan og Archie. AFP

Afríku-ferð Meghan hertogaynju er algjörlega skipulögð í kringum son hennar Archie. Meghan greindi blaðamönnum frá því í viðtali í Jóhannesarborg í Suður-Afríku í gær. 

„Það gengur vel. Ég held að dagskráin, þau hafa verið virkilega góð við mig, þar sem allt snýst um hvenær Archie fær að drekka. Svo það er mikið, en við látum það ganga upp. Það er þess virði,“ sagði Meghan. 

Archie litli er aðeins 4 mánaða og er Meghan með hann á brjósti. Fjölskyldan hóf 10 daga Afríku-ferðalag sitt í Höfðaborg þann 23. september síðastliðinn. Harry hefur ferðast til Botsvana, Angóla og Malaví síðan en Meghan og Archie hafa verið í Suður-Afríku á meðan. Hann hefur nú verið viku í burtu og sagðist Meghan hlakka til að fá hann til baka. 

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég heimsæki Suður-Afríku og Harry hefur heimsótt nokkur önnur lönd. Við hittumst aftur í dag og ég get ekki beðið eftir því, ég hef saknað hans svo mikið. En ég held að þetta hafi verið mjög einstök ferð fyrir okkur því þið fáið að sjá okkur einbeita okkur að málefnum sem skipta okkur virkilega miklu máli. Þið sjáið að áhrifin eru góð og mér líður eins og þetta skipti miklu mál,“ sagði Meghan.

Litla fjölskyldan sameinaðist aftur í gær.
Litla fjölskyldan sameinaðist aftur í gær. AFP
mbl.is