Pippa fer með soninn í ungabarnarækt

Pippa og James Matthews eiga son sem er að verða …
Pippa og James Matthews eiga son sem er að verða eins árs. AFP

Pippa Matthews, litla systir Katrínar hertogaynju, eignaðist sitt fyrsta barn fyrir tæpu ári. Í nýjasta pistli sínum fyrir Waitrose-verslunarkeðjuna, að því fram kemur á vef People, segir Pippa að hún fari með 11 mánaða gamlan son sinn í sérstaka líkamsrækt fyrir ungabörn. 

Sjálf er Pippa þekkt fyrir mikinn íþróttaáhuga og greindi vel og skilmerkilega frá því hvernig hún æfði á meðgöngunni. Hún segir að það hafi ekki verið nóg fyrir sig að fara bara í göngutúra með son sinn í vagninum. 

„Ég þurfti að finna eitthvað meira að gera en bara göngutúra í garðinum með vagninn. Ungabarnalíkamsræktin í hverfinu hefur verið algjör blessun. Hún er í stóru rými sem er fullt af skemmtilegum, mjúkum hlutum, leikmottum, stigum, boltum, rólum, litlum trampólínum og öðru til þess að örva ung börn,“ skrifar Pippa í pistlinum. 

Í ungbarnaræktinni er ekki bara hægt að koma í frjálsan leik heldur eru einnig sérstakir tímar fyrir ungabörn þar sem þau geta þjálfað hreyfifærni sína, jafnvægi og styrk. 

„Artúr eyðir mikilli orku í þessu örugga umhverfi og þjálfar líkamlega færni,“ skrifaði hin 36 ára gamla móðir og sagði sjálfstraust sonar síns einnig hafa eflst. 

Þetta er ekki fyrsta skipulagða þjálfunin sem Artúr litli fær en Pippa greindi frá því þegar hann varð sex mánaða að hann hefði byrjað í ungbarnasundi fjögurra mánaða. Sagði hún þá sund vera í miklu uppáhaldi hjá honum, hann nyti þess að synda og sundið hjálpaði sjálfstrausti hans. 

Pippa Matthews kasólétt af syni sínum.
Pippa Matthews kasólétt af syni sínum. AFP
mbl.is