Allt í drasli eftir fæðingu og greiðir ekki hárið

Keira Knightley greiðir ekki á sér hárið heima hjá sér.
Keira Knightley greiðir ekki á sér hárið heima hjá sér. AFP

Leikkonan Keira Knightley eignaðist sitt annað barn fyrir sex vikum. Þrátt fyrir glamúrinn er hún bara venjuleg nýbökuð móðir sem nær ekki einu sinni að greiða sér. Þetta kom fram í viðtali við hana á föstudaginn í morgunþætti á BBC

Knightley er að kynna nýja mynd og verður því að mæta í vinnuna og kynna myndina. Hún sagði að hún hefði sex klukkutíma tímaramma. Hún pumpaði sig áður en hún fór, rétt áður en viðtalið var tekið upp og sagðist svo þurfa að vera komin heim klukkan hálfsjö um kvöldið til þess að gefa. 

Mikið hefur gengið á hjá leikkonunni síðustu vikur. Hún segir að hún og maðurinn hennar taki því rólega á náttfötunum, hugsi ekki um að taka til og fái fólk til þess að koma með mat til sín þegar það kemur í heimsókn. 

„Þetta er í þriðja sinn sem hárið á mér hefur verið greitt síðan ég fæddi og ég greiddi það ekki sjálf,“ sagði Knightley sem upplýsti sjónvarpsáhorfendur um að hárgreiðslumaður hefði komið heim til hennar þegar hún var í náttbuxunum og greitt henni. Hún ætti einu sinni ekki kjólinn sem hún væri í. 

„Þið ættuð enn að vera í náttbuxunum,“ sagði breska stjarnan þegar hún var beðin um að gefa venjulegum mæðrum ráð. „Og ekki greiða á ykkur hárið og leyfið húsinu að vera sóðalegt og hittið bara fólk sem færir ykkur mat.“

Keira Knightley er nú tveggja barna móðir.
Keira Knightley er nú tveggja barna móðir. AFP
mbl.is