Mæðgur fara í snyrtimeðferðir fyrir tugi þúsunda á mánuði

Þær Tia, Brooke og Valentina elska að fara á snyrtistofuna …
Þær Tia, Brooke og Valentina elska að fara á snyrtistofuna með mömmu sinni. Skjáskot/Instagram

Hin fjögurra barna móðir Hannah Skidmore fer með dætrum sínum á snyrtistofu oft í mánuði og eyða þær mæðgur allt að eitt þúsund pundum eða 160 þúsund krónum á mánuði í meðferðir. 

Breska móðirin segir að hún vilji kenna börnum sínum, Tiu 17 ára, Brooke 9 ára og Valentinu 15 mánaða að leggja hart að sér en búa til tíma fyrir sig sjálfar. Skidmore rekur sjálf veisluþjónustu og segir að dætur hennar séu ekki ofdekraðar. 

Dætur hennar hafa farið í hand- og fótsnyrtingar frá unga aldri og þær eldri fylgja móður sinni nokkrum sinnum í mánuði á snyrtistofuna. „Ég er að kenna þeim hvernig þær eigi að hugsa um sjálfar sig og húðina sína, neglur og hár,“ sagði Skidmore í viðtali við The Sun.

Valentina litla fær handsnyrtingu af og til.
Valentina litla fær handsnyrtingu af og til. Skjáskot/Instagram

Hún kaupir gervipelsa og Louboutin-skó handa dætrum sínum. „Við elskum allar ferðirnar okkar á snyrtistofuna því það er okkar tími til þess að slaka á, slúðra og hafa gaman. Við förum allar í andlitsbað vikulega og förum í handsnyrtingu á tveggja vikna fresti. Valentina litla situr í fanginu á mér og finnst gaman að fylgjast með mér í handsnyrtingu. Hún skemmtir sér líka í fótsnyrtingunni og sullar vatninu,“ segir Skidmore. 

Hún segir þó að dætur hennar fái ekki gervineglur strax, svo þeirra náttúrulegu neglur skemmist ekki. Elsta dóttir hennar, Tia, hefur farið með henni á snyrtistofuna síðan hún var aðeins tveggja eða þriggja ára gömul. 

Skidmore og eiginmaður hennar Nick eiga líka einn son. Hún segir að þeir feðgar eigi líka stráka-daga þegar þær mæðgur fara á snyrtistofuna. 

mbl.is