Segir Beckham vera mjög góðan pabba

David og Victoria Beckham eiga saman fjögur börn.
David og Victoria Beckham eiga saman fjögur börn. AFP

Victoria og David Beckham eru á meðal frægustu foreldra í heimi og nýta hvert tækifæri til þess að tala vel um hvort annað. Fyrrverandi knattspyrnukappinn virðist vera sérstaklega góður pabbi eða það finnst eiginkonu hans að minnsta kosti. 

„Ég hef verið gift honum í yfir 20 ár svo ég er eiginlega hrifin af honum,“ sagði Victoria um eiginmann sinn í spjallþætti Jimmy Kimmel í vikunni. „Hann er góður pabbi, hann er mjög góður pabbi.“

Kimmel sagði henni þá frá því að hann hefði eitt sinn séð eiginmann hennar með öll börnin þeirra úti að borða en fjölskyldan er þekkt fyrir að vera samrýnd. Kimmel spurði þá hvort David væri að passa börnin og sagði Victoria svo vera en þau eru með sérstakt kerfi á heimilinu.

„David er að passa börnin og við skiptumst á. Þegar ég er heima er hann í burtu þannig það er alltaf annað okkar að sjá um börnin.“

Hjónin eiga fjögur börn saman. Elsti sonurinn er tvítugur en einkadóttirin er átta ára og yngst. Frú Beckham sagði í gríni að þegar börnin væru orðin svona mörg snerist foreldrahlutverkið minna um uppeldi og meira um að stjórna hópi. 

mbl.is