Rúrik fór strax að hugsa hvernig hann gæti hjálpað

Rúrik Gíslasyni velgjörðarsendiherra SOS fékk þá humgynd að selja boli …
Rúrik Gíslasyni velgjörðarsendiherra SOS fékk þá humgynd að selja boli til styrktar SOS. Ljósmynd/Aðsend

Knattspyrnustjarnan Rúrik Gíslason ákvað að nýta áhuga sinn á tísku til þess að leggja munaðarlaus­um og yf­ir­gefn­um börn­um lið. Sem velgjörðarsendiherra SOS barnaþorpa ákvað Rúrik að fá 66°Norður til þess að hjálpa með framleiðslu og hönnun á bol til styrktar SOS barnaþorpum. 

„SOS barnaþorpin á Íslandi vinna frábært starf og ég er svo heppinn að fá að styðja við þeirra öfluga starf. Þegar ég gerðist velgjörðarsendiherra fór ég strax að hugsa hvað ég gæti gert til að vekja athygli á samtökunum og hvernig hægt væri að styðja þau fjárhagslega. Þar sem ég hef mikinn áhuga á tísku datt mér í hug að það væri gaman að hanna bol og selja til styrktar samtökunum. Ég vissi að þetta yrði flókið ferli og sá að ég væri ekki að fara að gera þetta einn. Ég hafði því samband við 66°Norður sem tóku mjög vel í hugmyndina og vildu hjálpa mér að framleiða bolinn. Markmiðin voru skýr, við vildum að sjálfsögðu hanna flottan og vandaðan bol sem fólk myndi vera stolt af að klæðast. Það er virkilega ánægjulegt að sjá þessa hugmynd verða að veruleika og það líka á þessum árstíma, rétt fyrir jólin,“ segir Rúrik Gíslason.

Rúrik Gíslason í SOS-bolnum sem framleiddur er af 66°Norður.
Rúrik Gíslason í SOS-bolnum sem framleiddur er af 66°Norður. Ljósmynd/Aðsend

„SOS barnaþorpin á Íslandi fagna samstarfinu við Rúrik og 66°Norður og eru mjög þakklát enda ljóst að sala á bolnum mun hjálpa okkur að bæta líf barna sem mest þurfa á hjálp að halda. Við erum afar sátt við útkomuna og ljóst að fjöldi fólks hefur lagt metnað sinn í hönnun og framleiðslu á bolnum. Á þeim 70 árum sem samtökin hafa hjálpað börnum hafa samtökin haft jákvæð áhrif á um 13 milljónir einstaklinga um allan heim. Bolurinn er ekki bara vandaður og flottur, heldur er hann yfirlýsing þess sem honum klæðist um að viðkomandi vilji gera heiminn betri fyrir munaðarlaus og yfirgefin börn,“ segir Ragnar Schram, framkvæmdastjóri SOS barnaþorpanna á Íslandi.

Bolurinn kemur í verslanir í dag, föstudag, og rennur allur ágóði til SOS barnaþorpanna. SOS barnaþorpin veita munaðarlausum og yfirgefnum börnum staðgengil fyrir þá fjölskyldu sem þau hafa misst. Samtökin starfa í 136 löndum og reka 559 barnaþorp úti um allan heim. Samtökin starfa óháð stjórnmálum og trúarbrögðum. Þau ná til ríflega milljón barna, ungmenna og fullorðinna í gegnum meira en 2.300 verkefni. SOS barnaþorpin eru stærstu óháðu hjálparsamtök heims sem einblína á börn án foreldraumsjár og ósjálfbjarga barnafjölskyldur.

mbl.is
Ragnhildur Birna Hauksdóttir

Ragnhildur Birna Hauksdóttir sérfræðingur í fjölskyldumeðferð svarar spurningum lesenda um sálfræðileg og félagsleg efni sem tengjast ýmsum vandamálum innan fjölskyldu

Ragnhildur Birna Hauksdóttir

Ragnhildur Birna Hauksdóttir sérfræðingur í fjölskyldumeðferð svarar spurningum lesenda um sálfræðileg og félagsleg efni sem tengjast ýmsum vandamálum innan fjölskyldu