Anna prinsessa gagnrýnir öfgar í öryggi barna

Anna prinsessa.
Anna prinsessa. AFP

Anna prinsessa telur að oft sé of langt gengið í öryggisreglum í íþróttum barna. Hún segir öfgar í þessum málum í raun geta sett börn í meiri hættu en ella. 

Í viðtali við The Telegraph lýsir Anna yfir áhyggjum sínum af því að börn hafi ekki lengur hæfileikann til að meta hvað sé hættulegt vegna þess að það eru svo strangar öryggisreglur. Þar af leiðandi verða hlutir hættulegri þeim fyrir vikið.

Anna vísar í þýska rannsókn sem sýnir fram á að börn hafi innbyggðan öryggismælikvarða og að ekki megi spilla honum með því að venja þau af því að hugsa um eigið öryggi. 

„Ef þú leyfir ekki börnum að meta sitt eigið öryggi þá læra þau það í raun aldrei. Síðan fara þau og gera hluti sem þau eru í raun ekki nógu góð í, en einhver segir að það sé í lagi út frá öryggismálum en þau hafa ekki dómgreind sjálf til þess að meta hvort þau hafi hæfileika til að gera þetta,“ sagði Anna.

Anna er verndari Wooden spoon sem eru samtök sem styðja við rugby-lið barna í Bretlandi. Hún er einnig verndari skoska rugby-sambandsins. 

Á sínum tíma gagnrýndi hún ákvörðun skosku rugby-deildarinnar að setja axlarpúða á búninga leikmanna. „Ég sagði við skoska lækninn, ekki gera þetta því að þá munu leikmenn bara fara harðar í andstæðinga sína. Þeir hættu við þetta því meiðslum á leikmönnum hafði fjölgað svo mikið,“ sagði Anna í viðtalinu. 

Hún gagnrýnir einnig að allt of mörg góðgerðarsamtök í stærri borgum Bretlands einblíni of mikið á listir og menningu í verkefnum sínum í stað þess að bjóða upp á fjölbreyttari valmöguleika fyrir börnin. 

mbl.is
Ragnhildur Birna Hauksdóttir

Ragnhildur Birna Hauksdóttir sérfræðingur í fjölskyldumeðferð svarar spurningum lesenda um sálfræðileg og félagsleg efni sem tengjast ýmsum vandamálum innan fjölskyldu

Ragnhildur Birna Hauksdóttir

Ragnhildur Birna Hauksdóttir sérfræðingur í fjölskyldumeðferð svarar spurningum lesenda um sálfræðileg og félagsleg efni sem tengjast ýmsum vandamálum innan fjölskyldu