Fæðingin miklu betri en meðgangan

Katrín hertogaynja á þrjú börn.
Katrín hertogaynja á þrjú börn. AFP

Katrín hertogaynja af Cambridge talaði mjög opinskátt um móðurhlutverkið í hlaðvarpsþættinum Happy Mum, Happy Baby að því er fram kemur á vef Hello. Talaði hún meðal annars um fæðingar sínar og hvernig það hefði verið að láta mynda sig fyrir framan fæðingardeildina sem nýbökuð móðir. 

Katrín sagðist ekki hafa verið mjög hamingjusöm kona þegar hún var ólétt. Katrín þjáðist af mjög mikilli ógleði á meðgöngum sínum og þurfti meðal annars að leggjast inn á spítala. Þrátt fyrir að hún viti vel að margir hafi það verra sagði hún að meðgöngurnar hefðu tekið á. Ekki bara fyrir hana heldur einnig fyrir fólk nákomið henni. 

Vegna veikindanna á meðgöngunum leið henni betur í fæðingu. 

„Vegna þess hversu slæmt ástandið var á meðgöngunni leið mér vel í fæðingu... Af því að ég vissi að hún ætti eftir að taka enda. En ég veit að sumt fólk á mjög, mjög erfitt svo það er ekki fyrir alla. Allar meðgöngur eru ólíkar, allar fæðingar eru ólíkar.“

Hertogaynjan nýtti sér dáleiðslutækni í fæðingunum en hún byrjaði strax á meðgöngu að tileinka sér tækni þar sem hún nýtti mátt hugans til að ná stjórn á líkamanum. 

Katrín og Vilhjálmur með Georg prins nýfæddan.
Katrín og Vilhjálmur með Georg prins nýfæddan. AFP

Katrín og Vilhjálmur stilltu sér upp fyrir ljósmyndara þegar þau komu út af fæðingardeildinni. Þau voru óreyndir foreldrar þegar þau stilltu sér upp fyrir framan ljósmyndara eftir að Georg fæddist árið 2013. Blendnar tilfinningar fylgdu þessum myndatökum.

Mikið hefur verið fjallað um hvort þetta sé eðlilegt og vildi Meghan svilkona Katrínar til að mynda ekki gera þetta þegar hún og Harry eignuðust barn í fyrra. Katrín sagðist ekki ætla að ljúga og sagði það hafa verið skelfilegt vita af öllu fólkinu fyrir utan. Að sama skapi sagðist hún vera þakklát fyrir stuðninginn sem almenningur hefur sýnt henni og fjölskyldu hennar.

mbl.is