Sum börn fá það næstbesta og lifa frábæru lífi

Sonja Maggý á soninn Alexander Örn.
Sonja Maggý á soninn Alexander Örn. Ljósmynd/Aðsend

Sonja Maggý Magnúsdóttir og unnusti hennar Baldvin Örn Ólafsson eiga prinsinn Alexander Örn sem er á öðru ári. Sonja Maggý segir móðurhlutverkið yndislegt en um leið krefjandi. Hún fékk góða hjálp frá ljósmóðurinni Önnu Eðvalds í brjóstagjöfinni auk þess sem hún nýtti sér hjálp Ljáðu mér eyra eftir erfiða fæðingu. 

„Móðurhlutverkið gaf mér dýpri þýðingu á þessu lífi. Allt sem ég geri í dag og allar ákvarðanir sem ég tek eru fyrir son minn,“ segir Sonja Maggý um móðurhlutverkið. 

Hvað hefðir þú vilja vita áður en þú varðst móðir?

„Að þetta er það erfiðasta sem maður gerir en jafnframt það allra besta. Mjög skrítin blanda. Það er ekki bara dans á rósum.“

Kom eitthvað á óvart við móðurhlutverkið?

„Nei bara hvað þetta tekur á og svo þegar ég er ein eða hann er ekki hjá mér vantar alltaf eitthvað. Sakna hans meira að segja þegar hann fer á leikskólann.“

Hvernig móðir vilt þú vera?

„Ástrík, til staðar, gefa honum trú á sjálfan sig og vera  fyrirmynd fyrir hann til að sýna honum að fara á eftir þeim hlutum sem hann dreymir um.“

Sonja Maggý leggur áherslu á að vera góð fyrirmynd fyrir …
Sonja Maggý leggur áherslu á að vera góð fyrirmynd fyrir son sinn. Ljósmynd/aðsend

Sonja Maggý segist lítið spá í pressu frá samfélagsmiðlum í barnauppeldinu. Hún nýtti sér heldur ekki bumbuhópa eða mömmuklúbba á meðgöngu og eftir meðgöngu. „Ég vinn hjá sjálfri mér með fullt af ofurmömmum sem veita góðan félagsskap og fullt af góðum ráðum.“

Hvernig var meðgangan?

„Mjög góð fram að um 30. viku en þá fór aðeins að halla undan fæti. Þreyta, bjúgur og annað vesen.“

Sonja Maggý segir fæðinguna hafa verið erfiða en hún tók tvo sólarhringa. 

„Það komu alls konar hlutir upp á sem hefðu ekki þurft að gerast. Ég var mjög lengi að jafna mig þar sem mig vantaði mikið blóð, fékk svo sýkingu og margt fleira. Ég leitaði mér aðstoðar hjá Ljáðu mér eyra og hefur það hjálpað mér mikið til að vinna úr fæðingunni og eftirkvillunum.“

Baldvin Örn, Sonja Maggý og Alexander Örn.
Baldvin Örn, Sonja Maggý og Alexander Örn. Ljósmynd/Aðsend

Besta ráð sem þú átt handa nýbökuðum eða verðandi mæðrum?

„Ekki reyna að gera allt 100% og setja of mikla pressu á ykkur. Það mun ekki allt fara eins og stendur í bókunum eða allir sýna á Instagram. Ég til dæmis átti rosa erfitt með brjóstagjöf og hafði það mikil áhrif á mig og mína andlegu líðan þar sem ég upplifði ákveðna pressu af minni hálfu og frá umhverfinu. Ég fékk rosa gott ráð frá einni yndislegri ljósmóður, Önnu Eðvalds, þegar ég lagðist inn á LSH með sýkingu í brjósti eftir að hafa verið buguð og fárveik við brjóstagjöfina: „Sum börn fá það næstbesta í lífinu og lifa frábæru lífi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert