Átta barna móðir fyrir 28 ára aldurinn

Von er á sjöunda og áttunda barninu.
Von er á sjöunda og áttunda barninu. Skjáskot/Instagram

Ástralska móðirin Chloe Dunstan á sex börn en verður orðin átta barna móðir í lok árs þegar tvíburar mæta á svæðið. Dunstan á fyrir þríbura en hún fékk ekki hjálp til að geta börnin að því er fram kemur á vef News.com.au. 

Dunstan á öll börnin með eiginmanni sínum Rohan. Hún var orðin þriggja barna móðir 22 ára. Evan er átta ára, Otto er sjö ára og Felx er sex ára. Stuttu seinna var hún orðin sex barna móðir þar sem hún eignaðist þríbura sem eru nú að verða fimm ára. 

Dunstan þurfti að fara í keisaraskurð þegar hún gekk með þríburana þar sem stúlkan sem hún gekk með var ekki að dafna nógu vel. Henry var 1.370 grömm, Rufus var 1.200 grömm og Pearl aðeins 690 grömm.

Eftir að þríburarnir komu í heiminn lét Dunstan gera ófrjósemisaðgerð á sér. Hjónunum snerist þó hugur og ákváðu að eignast fleiri börn. Í stað þess að fara í tæknifrjóvgun lét hún gera sig frjósama aftur. Læknar mæltu með því að fara strax í tæknifrjóvgun af því erfitt getur verið að virkja frjósemi kvenna aftur eftir ófrjósemisaðgerðir. Allt gekk þó að óskum hjá hjónunum og eru nú sjöunda og áttunda barnið á leiðinni. 

Dunstan er dugleg að sýna frá lífi fjölskyldunnar á YouTube og Instagram og er með töluverðan fjölda fylgjenda. 

 

mbl.is