Sia ættleiddi tvo unglingsdrengi

Söngkonan Sia (t.h.) ættleiddi tvo unglingsdrengi í fyrra.
Söngkonan Sia (t.h.) ættleiddi tvo unglingsdrengi í fyrra. AFP

Tónlistarkonan Sia greindi frá því í vikunni að í fyrra hafi hún ættleitt tvo unglingsdrengi sem voru að verða of gamlir til þess að vera á fósturheimilum.

„Ég ættleiddi tvo syni í fyrra. Þeir voru báðir 18 ára, þeir eru báðir 19 ára núna. Þeir voru að verða of gamlir til þess að vera á fósturheimili. Já og ég elska þá,“ sagði Sia í viðtali við The Morning Mash Up.

Sia talaði um hvernig fjölskyldulífið hefur verið á meðan kórónuveiruheimsfaraldurinn geisar og sagði að annar drengjanna ætti frekar erfitt með að aðlagast. 

„Þeim finnst þetta báðum mjög erfitt, einum meira en öðrum. En þeir eru að gera hluti sem eru góðir fyrir þá núna og það hjálpar. Þeir eru að læra mikið og það er gott fyrir þá,“ sagði Sia. 

Sia talaði fyrst um að hún væri orðin móðir í viðtali við GQ fyrr á þessu ári en gaf þó ekki miklar upplýsingar. Hún sagði í því sama viðtali að hún hefði ekki áhuga á að finna sér framtíðarmaka og ætlaði að vera einhleyp að eilífu. 

mbl.is