Fannst hún ekki nógu klár í skóla vegna lesblindu

Beatrice prinsessa er lesblind.
Beatrice prinsessa er lesblind. AFP

Beatrice prinsessa opnaði sig um upplifun sína af lesblindu í nýju myndbandi sem sjá má á YouTube. Prinsessan reynir að líta á það jákvæða við að vera lesblind en viðurkennir að lesblindan hafi reynst sér erfið í skóla.  

Hin 31 árs gamla prinsessa sem er dóttir Andrésar prins og fyrrverandi eiginkonu hans, Söruh Ferguson, segist hafa verið heppin með að það hafi verið hugsað vel um hana í skóla. Þrátt fyrir stuðninginn reyndist lærdómurinn henni snúinn og hafði það áhrif á sjálfsöryggið. 

„Ég man að við vorum með bækur sem voru mismunandi á litinn eftir því á hvaða lestrarstigi þú varst á og ég var alltaf með hvítar bækur. Bestu vinir mínir voru alltaf með gular eða grænar bækur. Þeir voru langt á undan,“ segir Beatrice í myndbandinu.

„Þú ert ekki nógu góð, þú ert ekki nógu klár. Af hverju er ég ekki eins og hinir,“ segir prinsessan að séu hugsanir sem koma upp við svona aðstæður. Prinsessan segir að það sem gerist í skólastofunni sé mjög mótandi og hefði hún viljað vera meðvitaðri um að láta það sem gerðist í prófum og skólastofunni ekki skilgreina sig. 

Enn í dag er lesblinda stór hluti af lífi Beatrice en prinsessan hefur lært að lifa með því og nýta aðra hæfileika. Í dag starfar Beatrice meðal annars með tæknifyrirtæki og segir að þar fái hún að nýta samskiptahæfileika sína. Hún segir marga vinnufélaga sína einnig með lesblindu. 

„Ég held að einn af styrkleikum okkar sem eru með lesblindu er að horfa öðruvísi á hlutina, að finna út úr vandamálum, finna nýjar aðferðir við að gera hluti, vera tilraunakennd, frumkvöðlar.“

mbl.is