Myndir þú refsa barninu þínu fyrir að gera mannleg mistök?

Ekkert foreldri er fullkomið. En æfingin skapar meistarann.
Ekkert foreldri er fullkomið. En æfingin skapar meistarann. mbl.is/Colourbox

Á vef Mind Body Green má lesa grein um fjórar tegundir af uppeldi. Ef marka má það sem haft er eftir Nicole Beurkens sálfræðingi ættu allir foreldrar að byrja á því að ala sjálf sig upp áður en þau eignast börn.  

Hvaða uppeldisaðferð notar þú?

1. Skipandi uppeldi

Foreldrar sem skipa börnunum sínum fyrir gera vanalega miklar kröfur. Skipanir og agi eru yfirleitt ekki vandamálið hjá þessum foreldrum, heldur skortur á næmi. 

Börn sem alast upp við skipandi uppeldi geta fundið fyrir stjórnleysi þegar foreldrið er ekki að segja þeim hvað þau eiga að gera. Þau upplifa vanalega skort á sjálfsvirðingu og geta verið með undirliggjandi streitu. Það býr til kvíða að hafa lítið um málin að segja.

Dæmi um skipandi uppeldi er:

Foreldrar útskýra ekki fyrir börnum af hverju þau eiga að gera hluti. Börnin eiga að gera þá af því foreldrarnir segja þeim að gera það. 

Foreldrar setja háleit markmið en aðstoða börnin ekki við að ná þessum markmiðum. 

Foreldrar refsa börnum fyrir að gera mistök og vera mannleg. 

Ljósmynd/Unsplash

2. Eftirlátssamt uppeldi

Andstæðan við skipandi uppeldi er eftirlátssamt uppeldi. Foreldrar sem viðhafa þetta uppeldi gefa mikið eftir gagnvart börnum sínum. Þau eru vanalega næm og einstaklega hlý, en eiga erfitt með að setja mörk eða taka við mörkum.

Í eftirlátssömu uppeldi eru foreldrarnir vanalega bestu vinir barna sinna. Þau nota stundum mútur til að ná fram ákveðinni hegðun og búa til lítinn sem engan ramma í kringum börnin. 

Börn sem alast upp við eftirlátssamt uppeldi eiga erfitt með að taka ábyrgð, þeim gengur vanalega illa í skóla og hafa lítið sjálfstraust. 

Dæmi:

Foreldrar refsa börnum sínum aldrei, sama hversu mikið hefur farið úrskeiðis.

Foreldrarnir eru góðir í að hugga en afleitir í að setja mörk.

Foreldrar leggja meiri áherslu á að börnunum líki við þau en að þau læri og þroskist í lífinu.  

Ljósmynd/Unsplash

3. Afskiptalaust uppeldi

Foreldrar sem vanrækja börnin sín eru ónæm fyrir þörfum barnanna og skilja þau eftir ein til að sjá um sig sjálf. Þau hafa ekki áhuga á börnum sínum, sýna áhugamálum og íþróttum þeirra vanalega ekki áhuga og eru lítið með börnunum. Þetta þykir versta tegund uppeldis sem völ er á að mati sérfræðings. 

Börn sem alast upp við vanrækslu eiga erfitt með sambönd og samskipti, þeim gengur illa í skóla og hafa lítið sjálfsálit. Mörg þeirra þróa með sér andleg veikindi. 

Dæmi:

Foreldrið er fjarverandi hvort heldur sem er líkamlega eða andlega. 

Foreldrið refsar hvorki fyrir hegðun né hrósar fyrir það sem vel er gert. 

Foreldrið býður ekki upp á neina kennslu eða leiðbeiningar um lífið. 

Ljósmynd/Unsplash

4. Leiðandi uppeldi 

Þetta uppeldi hefur verið kallað alls konar nöfnum. Í þessu uppeldi er boðið upp á svipað mikið magn af næmi, aga, mörkum og kröfum. Barnið eflist, þroskast og lærir af lífinu. 

Foreldrar sem eru með leiðandi uppeldi vita hver börnin þeirra eru. Börnin verða örugg og vita til hvers er ætlast af þeim. 

Þetta uppeldi aðstoðar börn við að verða ábyrg og gera það sem þau geta miðað við aldur. Foreldrarnir eru að mestu leyti leiðandi fyrirmyndir sjálf í lífi barna sinna.  

Börnin eru þátttakendur í lífi fjölskyldurnar og hafa stundum álit á ákvörðunum sem eru teknar. Sér í lagi ef það varðar þau sjálf. 

Börn sem alast upp við leiðandi uppeldi eru hæf til verka, eru félagslega fær, í tilfinningalegu jafnvægi og stýra hegðun og hugsun í meira mæli en hinar uppeldisleiðirnar bjóða upp á. 

Þess má geta að ekkert foreldri er fullkomið og eflaust finna margir foreldrar sig í mismunandi flokkum. En æfingin skapar meistarann og leiðirnar góðar til leiðbeiningar. 

Ljósmynd/Unsplash
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert