Voru með 8 börn í heimaskóla

Gunna Stella ásamt eiginmanni og börnum.
Gunna Stella ásamt eiginmanni og börnum.

Gunna Stella er gift, fjögurra barna móðir, fósturmóðir, heilsumarkþjálfi og kennari sem er búsett á Selfossi. Hún sérhæfir sig í að hjálpa einstaklingum að minnka hraðann og finna leiðir til að einfalda lífið.

Hún miðlar af eigin reynslu og aðstoðar einstaklinga við að breyta hugarfari sínu með það að markmiði að upplifa meiri hugarró.

Hvað hefur þú verið að gera mitt í heimsfaraldrinum?
„Ég hef verið mun meira heima en oft áður. Í vor þegar samkomubannið skall á þá unnum við hjónin mjög mikið heima frá okkur. Börnin okkar fjögur fengu að fara misjafnlega mikið í skóla. Dóttir okkar fór beint í fjarnám þar sem fjölbrautarskólinn lokaði. Á þeim tíma vorum við einnig með fjögur fósturbörn sem voru sum alveg í fjarnámi á meðan sum þeirra fengu að mæta í skólann að einhverju leiti. Við reyndum að gera gott úr hlutunum. Vorum með heimaskóla, héldum góðri rútínu. Höfðum leik og lestrartíma.“

Kemur sér vel að vera með kennaramenntun

Gunna Stella viðurkennir að það hafi komið sér vel að vera kennaramenntuð.

„Hér var líka púslað mun meira en áður. Ég verð að viðurkenna að mér fannst þetta að mörgu leiti mjög skemmtilegt. Ég fann hvernig lífið varð að mörgu leiti mun einfaldara og börnin þurftu að læra að leika við hvort annað. Eftir því sem á leið og takmörkunum var aflétt og það fór að vora vorum við meira úti. Ég held að við höfum gengið á mun fleiri fjöll en nokkurn tíma áður á einu ári. Í kjölfar samkomubannsins í vor skrifaði ég nýtt námskeið sem ég kalla Hugarró heima. Ég áttaði mig á því að ef ég ætlaði að vera til staðar fyrir börnin og fjölskylduna mína þá yrði ég að huga að minni andlegu og líkamlegu heilsu. Ég passaði því vel upp á það í vor. Maður verður víst að setja súrefnisgrímuna á sjálfan sig áður en maður setur hana á aðra.“

Hvernig á fólk að upplifa betri líðan í heimsfaraldrinum að þínu mati?
„Ég mæli með því að allir passi upp á hreyfa líkamann. Ég veit að það var sjokk þegar líkamsræktarstöðvarnar lokuðust og fólk gat ekki haldið uppi þeirri rútínu sem það var vant. Ég var ein af þeim sem fann ekki fyrir því þar sem ég hef stundað Pilates heima í nokkur ár og gat haldið minni rútínu. En það að hreyfa sig, drekka nægilega mikið af vatni, sofa 7-8 tíma á sólahring, passa áreiti af bláum ljósum úr tækjum og sjónvarpi og iðka þakklæti og þögn, bæn og hugleiðslu er eitthvað sem allir geta upplifað jákvæða líðan af.“


Mikilvægt að skipuleggja sig
Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir?
„Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að vera á göngu úti í náttúrunni í góðra vina hópi, með fjölskyldunni eða jafnvel ein ef svo ber undir. Það að vera í náttúrunni hleður mig andlega og líkamlega. Þögnin, litirnir, lyktin, hreyfingin, nestispásurnar, félagsskapurinn. Þetta er yndislegt.“

Hvað hefur virkað best fyrir þig þegar kemur að því að vera heima með átta börn?
„ Það er að skipuleggja mig. Það skiptir svo miklu máli fyrir alla að hafa fastar venjur. Þegar enginn þurfti að vera mættur á ákveðinn stað í vor þá var reglan sú að allir ættu að vera komnir á fætur og búnir að borða morgunmat fyrir klukkan níu. Þá hófst heimaskóli. Við settum upp einfalda stundaskrá fyrir hvern og einn. Það tók smá tíma en var algjörlega þess virði. Inn í stundaskránni var lærdómstími, leiktími, hádegismatur og húsverk, lestartími og skjátími. Þessi stundaskrá gekk rosalega vel fyrir leikskóla og grunnskólaaldur. Fjölbrautarskólastelpurnar gengu að nokkru leiti inn í þessa stundaskrá en lærdómstíminn þeirra var lengri en grunnskólabarnanna. Með því að hafa hádegismat og húsverk inn í stundaskránni einfaldaði það allt hér heima. Við borðuðum hádegismatinn öll saman, yfirleitt var það súrdeigsbrauð úr bakaríinu og allskonar álegg og þegar því var lokið fengu allir úthlutað ákveðnum húsverkum eftir aldri. Þetta gerði það að verkum að þegar lestrarstundin byrjaði var allt hreint og fínt og allir gátu slakað á. Þegar lestrarstundin byrjaði og börnin notuðu skjátímann sinn eftir það notað ég þann tíma til að sinna vinnunni minni. Þegar sumarfríið hófst varð allt mun sveigjanlegra. Mér finnst persónuleg svo mikilvægt að börn fá tækifæri til að vera frjáls, leika sér og vera mikið úti. En það sem skiptir mig mestu máli er að börnin upplifi sig örugg og finni að þau séu elskuð og virt og hér sér kærleiksrík festa.

Mikilvægt þegar fjölskyldan borðar saman

Hvernig er matmálstíminn hjá ykkur?
„Einfalt, hollt en fljótlegt er mottóið okkar. Mér finnst mjög skemmtilegt þegar fjölskyldan getur borðað kvöldmat saman. Það er því miður ekki þannig alla daga þar sem börnin eru á misjöfnum tímum á æfingum og sum að vinna með skóla. En við náum að borða saman oft. Við erum með fjölbreyttan mat tölum saman við matarborðið. Spyrjum hvernig dagurinn hefur gengið og förum stundum hringinn þar sem allir segja eitthvað sem þau eru þakklát fyrir þann daginn. Ég legg líka áherslu á að það sé ekki notaður sími við matarborðið. Það er í lagi ef einhver situr einn og er að borða snarl en ekki þegar það eru fleiri saman.“

Hvaða ráð áttu tengt uppeldi?
„Mér finnst skipta máli að nýta tækifærin til að hlusta og tala við börnin þegar þau eru að velta einhverju fyrir sér. Í því samhengi skiptir máli að vera ekki svo upptekin af símanum sínum að maður gleymi að taka eftir barninu sínu. Sumir halda því fram að þeir geti „multi taskað“ sem er eflaust rétt en fókusinn fer alltaf bara á eitt í einu. Ég held að að sé mikilvægt að gefa börnunum athygli og læra að þekkja hvert barn sem einstakling líka og nálgast þau á þann hátt sem þau þurfa hvert og eitt. Mér finnst svo mikilvægt að börnin upplifi sig örugg og elskuð.“

Mikilvægt að sýna fósturbörnum virðingu og kærleika


Áttu gott ráð þegar kemur að fósturbörnum?
„Mér finnst skipta miklu máli að fósturbörnin upplifi sig sem jafn mikinn hluta af heimilinu og aðrir. Að maður sýni þeim virðingu og kærleika. Maður þarf líka að átta sig á því að þau eiga oft erfitt með að treysta og maður þarf að nálgast þau á þann hátt sem hentar hverju og einu þeirra. Grípa tækifærin sem opnast og vera tilbúin að hlusta. Það er mikilvægt að muna að það tekur þau tíma að læra að treysta en ég legg líka áherslu á það við þau að þau geti alltaf treyst því að við segjum sannleikann við þau og séum heiðarleg við þau. Það er svo mikilvægt þar sem börn sem send eru í fóstur hafa oft upplifað erfiðar aðstæður heima fyrir, óheiðarleika og jafnvel mikið óöryggi. Okkar hlutverk er að gefa þeim öryggi, kærleika og festu.“

Hvað gerir þú til að dekra við þig?
„Ég fer í fjallgöngur, tek einn hvíldardag í viku þar sem ég slekk á samfélagsmiðlum og öllu áreiti, les bækur og á notalegar stundir með fjölskyldu og vinum.“

Hvað ert þú að gera um þessar mundir?
„Ég held úti heimasíðunni Gunnastella og miðlinum Gunnastella á Instagram. Þar deili ég allskyns ráðum og hvatningu ásamt pistlum sem ég skrifa reglulega. Ég er einnig að vinna að því að gefa út bók, hvenær það verður er ekki komið á hreint en það kemur með kalda vatninu. Ég held reglulega námskeið og fyrirlestra sem er mjög skemmtilegt og gefandi. Nýlega kom í sölu netnámskeiðið mitt Hugarró heima. Námskeiðið fjallar um þau verkfæri sem ég hef nýtt mér til að vera sátt í eigin skinni og upplifa hugarró heima og annarsstaðar mitt í heimsfaraldri. Þetta námskeið er til sölu sem stakt námskeið en einnig til sölu sem hluti af stærri pakka sem innheldur sjö námskeið. Meðal annars námskeiðið Betri heilsa - innihaldsríkara líf með Sölva Tryggvasyni, námskeiðið Náðu árangri með Ásdísi Hjálmsdóttir, námskeiðið Betra jafnvægi með Nökkva Fjalari Orrasyni, námskeiðið Frá neikvæðri líkamsímynd yfir í jákvæða líkamsímynd með Ernu Kristínu og Sofðu rótt með Rafni Franklín.  Við myndum hópinn SWIPE club og höfum það að markmiði að gefa fólki tæki og tól til að upplifa betri andlega og líkamlega líðan. Um þessar mundir er 15% afsláttur af námskeiðunum okkar. Ég hvet alla til að kaupa pakkann því þá fær fólk mun meira fyrir peninginn. Verðið fyrir pakkann er 16.991. Fólk getur horft á námskeiðið hvenær sem er og hvar sem er og unnið þau algjörlega á sínum hraða.“

mbl.is