„Ég er eina foreldrið í bekknum mínum“

Ellen Margrét Bæhrenz ásamt syni sínum, Hrafni Jóhanni.
Ellen Margrét Bæhrenz ásamt syni sínum, Hrafni Jóhanni. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ellen Margrét Bæhrenz, leikaranemi og dansari, er á lokaári sínu á leiklistarbraut í Listaháskóla Íslands. Hún er eina móðirin í bekknum og segir það dásamlega tilfinningu en oft flókið að vera til staðar hundrað prósent alls staðar. Ellen býr ásamt unnusta sínum Arnmundi Ernst Björnssyni og syni þeirra Hrafni Jóhanni í Vesturbænum.

Ellen er að hefja lokaárið sitt í leiklist við Listaháskóla Íslands. Hún er um þessar mundir að æfa fyrir fyrstu sýninguna á árinu í skólanum.

„Sýningin heitir Þrjár systur og er eftir Anton Tsjekov. Við erum að vinna að uppsetningunni undir leiðsögn Halldóru Geirharðsdóttur. Þetta eru mjög sérstakir tímar í skólanum því við erum öll að leika leikritið með grímur og með metra á milli okkar. Við sprittum alla leikmuni stöðugt og reynum að vanda okkur eins mikið og hægt er. Það gengur vel miðað við aðstæður en það getur verið mjög sérstakt að nota röddina undir grímunni og að lesa í mótleikarana þegar maður sér bara augun í þeim og líkamsbeitinguna. Eins og staðan er núna er maður bara þakklátur fyir að geta mætt í skólann. Við krossum fingurna fyrir að hægt verði að sýna sýninguna fyrir einhverja utanaðkomandi áhorfendur.

Utan skóla er ég líka að taka þátt í sýningunni „Ég býð mig fram“ eftir Unni Elísabetu Gunnarsdóttur sem frumsýnd verður þann 22. október í Hafnarhúsinu. Ég er náttúrulega alltaf í móðurhlutverkinu svo ég þarf að skipuleggja mig vel. Ég er þannig að ég vil ekki að það bitni á syni mínum og tímanum hans að ég er í krefjandi námi og að sama skapi vil ég ekki að það bitni á náminu að ég sé móðir. Ég er eina foreldrið í bekknum mínum.“

Reynir að vera mild við sjálfa sig

Ellen á það til að gera miklar kröfur til sín að eigin sögn.

„Auðvitað er ekki alltaf hægt að vera hundrað prósent í öllu þannig að ég er líka alltaf að æfa mig í að mæta sjálfri mér í mildi.“

Ellen á jákvæða upplifun að því að ganga með og fæða barnið sitt.

„Ég var mjög heppin. Meðgangan mín gekk vel og fæðingin sömuleiðis. Krummi kom reyndar út með aðra höndina samferða höfðinu eins og Súperman svo ég get ekki sagt að það hafi verið þægilegt, þvert á móti. Ég rifnaði við það og það þurfti að sauma mig saman í 40 mínútur að fæðingu lokinni og það var eiginlega bara ógeðslega vont. Engu að síður gæti ég ekki verið þakklátari fyrir fæðinguna. Krummi kom öruggur í heiminn og ég var örugg og það voru bara 12 klukkutímar frá því ég fór að finna fyrstu verki og þar til ég var komin með litla drenginn minn í hendurnar. Hugur minn og hjarta er alltaf hjá þeim konum sem þurfa að vera í heilan sólarhring eða meira að koma börnunum sínum í heiminn. Ég bara get ekki ímyndað mér þreytuna sem þær ganga í gegnum.“

Hefur lífið breyst mikið frá því þú eignaðist barn?

„Já það hefur margt breyst. Sumt tengi ég beint við það að hafa eignast barn en svo breytist líka bara ýmislegt eftir því sem tíminn líður. Ég hef til dæmis öðlast meiri jarðtengingu og er öruggari í eigin skinni. Að bera ábyrgð á lífi einhvers annars en sínu eigin er hollt og þroskandi en líka mjög krefjandi og ástin fer náttúrulega á algjörlega nýtt hæðarplan. Það er rosalega mikið nýtt til að taka inn og læra á. Það er komin heil ný manneskja í heiminn svo að það þarf að finna jafnvægi í öllu. Að verða foreldri hefur því krafið mig um mikla sjálfsskoðun og sjálfsvinnu sem stoppar aldrei og það er bara jákvætt.

Ég komst loksins inn í leiklistina í Listaháskólanum eftir að ég átti Krumma, hann var átta mánaða gamall þegar ég var í prufunum. Ég er ekki viss um að ég hefði komist inn ef ég hefði ekki eignast hann, ég fullorðnaðist svo mikið við það og var í kjölfarið alveg rosalega tilbúin bara. Í skólanum hef ég svo nefnilega tekið út heilmikinn þroska. Við höfum talað um það þar að við nemendurnir séum eins og humrar. Þegar humar vill stækka fer hann undir stein, í öruggt umhverfi, fer úr skelinni og stækkar. Svo fer hann í nýja skel og kemur undan steininum stærri humar. Eins erum við leiklistarnemendurnir. Komum inn í skólann í ákveðinni stærð og í öruggu umhverfi tökum við af okkur skelina og höfum þá rými til að stækka og dafna. Þegar við útskrifumst komum við svo út stærri en við vorum eða alla vega reynslunni ríkari. Frekar fyndin samlíking en mér finnst hún æðisleg.“

Besta uppeldisaðferðin að vera góð fyrirmynd

Ellen segir áhugavert að muna hvernig var að vera barn sjálf.

„Ég var einmitt að rifja upp bernskusögur í valáfanga í skólanum fyrir stuttu síðan og það var ýmislegt sem kom upp. Það sem mér fannst áhugavert í þeim upprifjunum var hvað allar tilfinningar sem maður var að upplifa sem barn voru raunverulegar. Til dæmis ef ég týndi einhverju dóti sem mér þótti vænt um þá man ég hvað ég fann raunverulega til og fannst það virkilega sorglegt þó að núna horfi ég til baka og finnist hitt og þetta hafa verið smámál. En það var af því að það var það sorglegasta sem ég hafði upplifað á þeim tíma og því var sorgin djúp. Í raun og veru er það mjög fallegt. Ég sé þetta líka hjá syni mínum hvað hann lifir sig sterklega inn í aðstæður og ég geri mitt besta til að sýna honum alltaf skilning, hlusta á hann og gera ekki lítið úr tilfinningum hans þótt aðstæður séu kannski spaugilegar, eins og þær geta gjarnan verið.

Annað sem ég sé í syni mínum sem minnir á mína æsku er ímyndunaraflið. Ég hef alltaf haft ríkt ímyndunarafl og elskaði að fara í hlutverkaleiki sem barn. Einu sinni lét ég kalla mig Mjallhvíti í heila viku í leikskólanum, lét eins og ég heyrði ekki nafnið Ellen og svaraði engu nema ég væri ávörpuð sem Mjallhvít. Svo man ég eftir að hafa leikið sama atriðið úr Pocahontas með vinkonu minni á leiðinni heim úr skólanum á hverjum einasta degi þegar við gengum fram hjá ákveðnum kletti. Ég sé þetta svo vel í syni mínum sem er alltaf að leika eitthvað annað en sig sjálfan, oftast risaeðlur en líka kisur, engisprettur, strúta og allt þar á milli.“

Hverjar eru fyrirmyndir þínar þegar kemur að móðurhlutverkinu?

„Þær eru margar og endalaust af góðum foreldrum allt í kringum mig. Meðal annars mínir eigin foreldrar, en mér dettur einnig í hug bandaríski rithöfundurinn Glennon Doyle, en hún skrifaði bókina Untamed sem ég las í sumar. Bókin er ekki eingöngu um móðurhlutverkið en mér finnst hennar viðhorf til þess mjög fallegt og hún veltir upp mörgum þörfum pælingum sem höfðu mikil áhrif á mig. Til dæmis bara hvað það er að vera góð móðir. Ég held að allir foreldrar vilji vera góðir foreldrar en stundum höldum við að til þess þurfum við að fórna okkur sjálfum og okkar löngunum, þörfum eða þrám. Doyle leggur til að fólk líti inn á við, elti sína eigin drauma og langanir og lifi eins og því sjálfu finnst sannast og fallegast. Mín skoðun er sú að börn læra það sem fyrir þeim er haft en ekki endilega það sem þeim er sagt þannig að ef foreldrarnir lifa sinn sannasta og fallegasta raunveruleika er líklegra að börnin þeirra eigi eftir að gera slíkt hið sama. Ef foreldrarnir fórna sjálfum sér í sífellu og elta ekki eigin drauma er kannski líklegt að börnin þeirra geri það ekki heldur og þá verða til kynslóðir fólks sem eltir ekki drauma sína. Þannig að ég held að það sé rétt hjá henni að besta uppeldisaðferðin sé að vera góð fyrirmynd.“

Dreymir um að verða leikkona

Hvaða hugmyndir um lífið viltu kenna áfram til sonar þíns?

„Að elska sjálfan sig og aðra. Að miðla kærleik og jákvæðni. Að vera góður og hafa gaman. Við erum öll að reyna okkar besta. Svo langar mig að hjálpa honum að finna út hvað skiptir hann máli og hvað veitir honum hamingju og styðja hann í að elta það.“

Þegar kemur að framtíðinni þá er Ellen með stóra drauma.

„Það er svo margt sem mig langar að gera. Eftir útskrift er náttúrulega draumurinn að fá vinnu við að leika. Mig langar að vinna bæði í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu, mig langar að fá hlutverk í bíó og mig langar að prufa að vinna í sjálfstæðu leiksenunni. Svo væri líka gaman að gera eitthvað í útlöndum. Mig langar að prófa þetta allt og ég hef stóra drauma, eins og sést. Ég hef líka drauma fyrir litlu fjölskylduna mína og er ofsalega forvitin að fylgjast með Krumma og vonandi fleiri afleggjurum, vaxa og dafna. Ég elska að eldast og einn daginn langar mig að verða amma, svo langamma og helst líka langalangamma. Ég reyni samt að lifa í núinu. Að lokum óska ég mér friðar á jörðu, meiri samkenndar á meðal valdafólks og sameiningar mannkyns í baráttunni við loftslagsbreytingar. Svo væri líka flott að fá bóluefni við kórónuveirunni. Ég er draumóramanneskja eins og heyrist og skammast mín ekki fyrir það.“

mbl.is/Arnþór Birkisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert