Þetta kom Jógvani á óvart við foreldrahlutverkið

Jógvan hefur gefið út nýtt lag sem er gjöf hans …
Jógvan hefur gefið út nýtt lag sem er gjöf hans til Færeyja þar sem hann hefur ekki getað heimsótt landið á þessu ári.

Jógvan Hansen segir lífið hafa verið frekar rólegt vegna kórónuveirunnar þar til núna þar sem hann er kominn á fullt við að syngja í gegnum tölvuna sína. Hann er á því að oft hafi menning og listir verið mikilvægur þáttur í lífi landsmanna, en nú sé hreinlega nauðsyn á því. Því tónlist lætur fólk líða betur og eykur ánægjuna. 

Hann segir óvíst hvort hann sé með bestu uppeldisráðin fyrir Íslendinga en að hann sé fastur fyrir þegar kemur að reglum tengt börnunum sínum og svo vilji hann vera til staðar fyrir þau, meira en að vera skemmtanastjóra þeirra. 

Það er alltaf nóg að gera hjá Jógvan. 

„Menning og listir finnur sér alltaf farveg og leiðir. Ég hef verið í upptökuveri að taka upp tvö lög. Eitt fyrir færeyska markaðinn og síðan eitt lag sem ég hef verið að vinna með Vigni Snæ og Matta Matt. Það er frábært að fá að hitta fólkið sitt aftur og vinna í að skapa eitthvað saman með þeim.“

Jógvan er mikill fjölskyldufaðir og á tvö börn. Strák sem verður níu ára í desember og stúlku sem er sjö ára. 

„Þau eru að mínu mati bestu börn í heimi. En það finnst örugglega öllum um sín eigin börn. En það væri ekkert sem gæti látið mig skipta um skoðun þegar kemur að börnunum mínum.“

Jógvan var ekki búinn að hugsa mikið út í föðurhlutverkið áður en hann varð faðir sjálfur.  

„Ég var frekar slakur þegar kom að því að verða faðir, ég var hvorki spenntur né hræddur. Þegar ég svo fékk börnin í hendurnar þá fór allt af stað innra með mér. Ætli það komi mér ekki hvað mest á óvart hvað ég get verið staðfastur í mínu þegar kemur að börnunum mínum. Ég er mikið fyrir að ala börnin upp við rútínu og góða reglu fyrir þau. Svo þegar að háttatíma er komið þá þýðir lítið að reyna að fá að vaka lengur.“

Jógvan vill vera faðir sem er til staðar fyrir börnin sín. 

„Það skiptir mig engu máli hvort það er gaman að vera með pabba eða ekki. Ég reyni bara að vera sem mest á staðnum þegar þau þurfa á mér að halda, þannig að þau geti alltaf treyst á mig.“

Áttu gott uppeldisráð?

„Ég er ekki viss um að ég sé með eitthvað nýtt sem ég get deilt með lesendum enda er ég ekki að reyna að finna upp hjólið í þessu. Það sem ég geri er að ég reyni bara að hafa hlutina innan eðlilegra marka og að gera eins vel og ég get þegar kemur að börnunum mínum.“

Hvað gerir þú á jólunum?

„Jólin snúast að mestu um börnin, samveruna við fjölskylduna, mat og gott vín. Ég elska jólin! Svo má ekki gleyma því að hlusta á fallega jólatónlist. 

Ég var að gefa út nýtt lag, sem er klassíska Kaldalónslagið Nóttin var sú ágæt ein. Á færeysku heitir lagið Nóttin fögur. Ég er búinn að eiga flotta þýðingu af laginu lengi í skúffunni minni sem vinur minn Steintór Rasmussen gerði árið 2011. Ég hafði samband við vin minn Matta Kallio, sem er frá Finnlandi, og spurði hvort hann væri til í að gera lagið með mér fyrir færeyska markaðinn. Við höfum báðir áhuga á keltneskum stíl, sem er í raun og veru sagan á bak við gerð lagsins. Hann fékk finnska vinkonu sína, Kuka Lehto, til að spila á fiðlu. Matti Laitinen spilar á gítar og mandólín. Sjálfur er Matti meistari á flautu, píanó og harmonikku. Hann fékk síðan Svante, sem hefur unnið allt efni með Rammstein sem dæmi, til að fara yfir lagið. Þetta er jólagjöf mín til Færeyinga þar sem ég hef ekki getað heimsótt þá í ár vegna kórónuveirunnar. 

Að lokum vil ég bara óska öllum landsmönnum „gleðilig jól og eitt av Harranum signað nýggjár“ eins og við segjum  í Færeyjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert