Stúfur sækir í sig veðrið

Stúfur og Kertasníkir eru saman á toppnum.
Stúfur og Kertasníkir eru saman á toppnum. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Jólasveinninn Stúfur hefur sótt í sig veðrið síðustu ár og er nú orðinn jafn vinsæll og bróðir hans Kertasníkir. Kertasníkir hefur verið vinsælastur af bræðrunum þrettán síðustu fimm ár en nú hefur litli bróðir hans heldur betur skotið honum ref fyrir rass. Báðir mælast þeir vinsælastir hjá 25% landsmanna samkvæmt niðurstöðum könnunar MMR.

Vinsældir þeirra beggja hafa þó minnkað á milli ára jafnhliða því sem vinsældir Hurðaskellis hafa aukist um heil fjögur prósentustig en hann mælist nú vinsælastur hjá 15% landsmanna.

Sveiflur hafa verið á vinsældum Stúfs síðastliðin ár en vinsældir hans náðu hámarkið árið 2019, þegar bókin Stúfur hættir að vera jólasveinn kom út og árið 2017 þegar lagið Baggalútur og Friðrik Dór gáfu út jólalagið Stúfur. 

Ketósveinarnir tveir, þeir Skyrgámur og Ketkrókur eru í fjórða og fimmta sæti á vinsældarlista bræðranna. 

Nokkur munur er á skoðunum kynjanna á jólasveinunum en Stúfur er vinsælastur á meðal kvenna en 33% sögðu hann vera sinn uppáhalds svein samanborið við 16% karla. Hurðaskellir reyndist vinsælastur hjá körlum en 19% sögðu hann vera sinn uppáhalds. 

Stúfur var einnig vinsælastur hjá svarendum á aldrinum 18-29 ára en 29% sögðu hann vera sinn uppáhalds svein. Kertasníkir var vinsælastur hjá 30 ára og eldri.

Könn­un­in var gerð meðal ein­stak­linga 18 ára og eldri sem voru vald­ir handa­hófs­kennt úr hópi álits­gjafa MMR og var hún hluti af spurn­inga­vagni MMR. Svar­fjöldi var 947 ein­stak­ling­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert