Hélt hún yrði dæmd fyrir að vilja barn

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á von á sínu fyrsta barni.
Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á von á sínu fyrsta barni. Ljósmynd/Aðsend

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á von á barni á þessu ári. Þetta er fyrsta barn hennar og eiginmanns hennar, Thomas Bojanowskis. Ólafía segir í viðtali við barnavef mbl.is að hún hafi búist við því að vera meira dæmd fyrir að vera íþróttakona á besta aldri að eignast barn. 

Ég veit ekki hvaðan sú tilfinning kom. Það er kjánalegt að segja það upphátt, en eitthvað inni í mér fann sektarkennd yfir að langa að eignast barn því ég væri íþróttamaður og skylda mín væri að stunda íþróttina,“ segir Ólafía og bætir við að hún hafi bara fundið fyrir stuðningi og ást eftir að þau hjónin tilkynntu að þau ættu von á barni.

Hún segir að þau hafi rætt þetta sín á milli og að svo hafi hún ákveðið að segja íþróttasálfræðingi sínum líka frá þessum hugsunum. 

„Það var mjög erfitt að segja honum frá því. Ég þurfti að vinna úr þessu, því ég veit að ég myndi ekki vera hamingjusöm í íþrótt minni ef ég stæði ekki með sjálfri mér, það var nú þegar farið að hafa svolítil áhrif á mig,“ segir Ólafía.

Ólafía segir það vera stórt skref að ákveða að reyna að eignast barn. „Ef það heppnast ekki strax í fyrstu skiptin þá sér maður virkilega hvað mann langar í barn, þegar maður finnur tilfinningarnar sem fylgja því. Auðvitað áttar maður sig samt á að það er venjulegt að það taki smá tíma. Maður hefur heyrt það, en ég skildi þetta allavega ekki alveg svona á þennan hátt áður en ég stóð í þessum sporum. Núna er ég mjög þakklát,“ segir Ólafía.

Meðgangan hefur að hennar sögn gengið mjög vel og hún telur sig vera mjög heppna. Hún segir þó að það sé örlítið óþægilegt að vita ekki alveg hvað sé í gangi hverju sinni. „Ég þurfti að fara í nokkrar aukaskoðanir vegna einkenna sem ég fékk, en það kom alltaf allt ljómandi út úr því. Það sem ég var að ganga í gegnum var mjög smávægilegt, en þrátt fyrir það fylgir alltaf smá ótti,“ segir Ólafía.

Ólafía Þórunn hræddist það að vera dæmd fyrir að langa …
Ólafía Þórunn hræddist það að vera dæmd fyrir að langa í barn. Ljósmynd/Aðsend

Langaði í sitt eigið barn

Ólafíu hefur liðið vel á meðgöngunni hingað til en auðvitað fundið fyrir breytingum á líkamanum. „Núna er ég aðeins meira en hálfnuð þannig að líkamlegar breytingar eru helst að bumban er að stækka. Ef ég borða of mikið líður mér eins og ég sé alveg að springa. Ásamt því þarf ég að fara að splæsa í nýja, stærri brjóstahaldara bráðum,“ segir Ólafía. 

Ólafíu hefur alltaf þótt mjög vænt um börn og hlakkaði alltaf til að koma heim til Íslands og hitta litlu frændsystkin sín þegar hún var á ferð og flugi um heiminn að keppa. 

„Svo á einhverjum tímapunkti var það ekki alveg nóg lengur, mig langaði í mitt eigið barn. Maður getur ekki beðið eftir fullkomnum aðstæðum, það verður ekki léttara þegar ég er orðin eldri að keppa og ferðast með lítið barn. Í ár hefði ég verið að keppast um að komast inn á Ólympíuleikana, en það hefði allt þurft að ganga upp til að ég kæmist þangað,“ segir Ólafía. 

Covid-19-faraldurinn hefur líka haft mikil áhrif á ferðalög og keppni í golfi svo Ólafíu þykir ekki jafn gaman og gefandi að ferðast þegar það má bara vera á golfvellinum og inni á hótelherberginu. 

„Þannig að þessar aðstæður gerðu ákvörðunina aðeins léttari, en hefðu samt ekki verið aðalástæða ákvörðunarinnar. Það er svo margt sem að spilar saman þegar maður ákveður að núna sé rétti tíminn til að eignast barn,“ segir Ólafía. 

Ólafía Þórunn og Thomas Bojanowski.
Ólafía Þórunn og Thomas Bojanowski. Ljósmynd/Aðsend

Stefnir á að halda keppni áfram

Ólafía gerði áfram sínar venjulegu æfingar fyrstu vikur meðgöngunnar, en þegar hún fór að finna fyrir mikilli þreytu fór hún meira í gönguferðir og fór að fylgja æfingum fyrir óléttar konur. Hún stefnir á að halda áfram að keppa í golfi þegar hún er tilbúin eftir meðgönguna. 

„Ég er svo heppin að eiga góða styrktaraðila, KPMG og Bláa lónið, sem vilja styðja mig í að halda áfram að elta drauminn. Án þeirra væri endurkoma enn þá erfiðari. Ég er þakklát fyrir að þau vilji gefa mér tækifæri til að sýna hvað í mér býr, ég trúi að ég geti náð langt. Þetta verður auðvitað örlítið púsl. Í draumaheimi þegar ég byrja að keppa aftur væri léttara að byrja á Evrópumótaröðinni, því frá heimili okkar í Þýskalandi gætum við keyrt á mörg mótin með litla kút,“ segir Ólafía.

Ólafía Þórunn stefnir á að halda áfram að keppa í …
Ólafía Þórunn stefnir á að halda áfram að keppa í golfi eftir að hún verður móðir. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is