Fyrir börn sem elska myndlist og dýr

Sóldís að mála fjölskylduhundinn Mána.
Sóldís að mála fjölskylduhundinn Mána.

Sóldís Einarsdóttir, myndlistarkennari við Myndlistarskóla Kópavogs, málar falleg listaverk meðal annars tileinkuð íslenska fjárhundinum.

Sóldís er mikill dýravinur sjálf og hefur starfað við hundaþjálfun og hundasnyrtingar svo eitthvað sé nefnt. Næsta sumar, annað árið í röð, stendur hún fyrir námskeiðinu Dýr og list sem er samblanda af lista- og dýranámskeiði fyrir börn. Námskeiðið er haldið í samstarfi við  Dýragarðinn Slakka og Reiðskólann Eðalhesta.

„Ég og dætur mínar eyðum miklu af tíma okkar í hesthúsinu með dýrunum okkar þessa dagana. Það er svo sem ekkert nýtt og heimsástandið hefur ekki haft mikil áhrif á það. Það að sinna dýrunum og fara á hestbak er bæði mjög gefandi og gott fyrir andlega og líkamlega heilsu. Ég er að undirbúa sumarnámskeiðið Dýr og list sem ég ætla að vera með í sumar fyrir káta krakka auk þess sem ég er að undirbúa myndlistarsýningu sem ég stefni á að vera með næsta haust.“

Hún eyddi páskahátíðinni með fólkinu sínu og dýrum.

 „Ég var bæði heima og í hesthúsinu. Ég málaði, bakaði og eldaði góðan mat ásamt því að dunda mér með fjölskyldunni. Ég elska hefðir og rótgróna siði. Hefðir sameina okkur og tengja okkur við fortíðina. Páskadagur er einn af þessum dögum þar sem ákveðin hefð hefur skapast hjá okkur fjölskyldunni. Við byrjum ávallt páskadaginn á því að fara í útiratleik og allir þurfa að finna páskaeggið sitt. Svo er dagurinn notaður í einhverja skemmtilega útivist og helmingurinn af fjölskyldunni fer í góðan reiðtúr. Í páskadagskaffinu geri ég alltaf uppáhaldsrjómakökuna okkar, en það er rjómakaramellu-bananakaka eins og mamma mín gerði hana, skreytt með páskalilju og skrautsykri. 

Páskadagsmáltíðin er líka lituð af ákveðinni hefð. Ég hægelda ljúffengan lambahrygg, geri heimalagað rauðkál, sætkartöflumús, rósakál, baka grænmeti og útbý alveg sérstaklega góða rjómasósu með. Elsti sonur okkar er grænmetisæta og fyrir hann útbý ég hnetusteik, en meðlætið passar bæði með lambahryggnum og hnetusteikinni. Í forrétt var ég með graflax, salat og ómótstæðilega graflaxsósu. Í eftirrétt er síðan rótgróin hefð að vera með ljúffengan heimalagaðan jarðarberja-frómas sem allir elska eftir uppskrift frá elsku mömmu.“

Sóldís með hundinn Blúndu. Fjölskyldan á þrjá hunda.
Sóldís með hundinn Blúndu. Fjölskyldan á þrjá hunda.

Hvaða ráð áttu fyrir foreldra barna á aldrinum fimm til ellefu ára nú á tímum kórónuveirunnar?

„Það er svo margt skemmtilegt hægt að gera. Ég og dætur mínar erum duglegar að föndra saman, fara í góða göngutúra úti í náttúrunni með nesti, baka saman, spila alls konar spil og fleira. Nú svo er tilvalið að fara í útileiki með krökkunum. Núna eftir páskana þegar fólk hefur verið að föndra egg, er upplagt að halda áfram að föndra eitthvað fallegt fyrir vorið.“

Hvað getur þú sagt mér um sumarnámskeiðið þitt?

„Ég er mikil dýraáhugamanneskja og hafði í mörg ár langað að vinna meira með dýrum. Ég hef líka mikinn áhuga á list og sköpun og finnst það mjög góð leið til að jarðtengja sig, til að dvelja í núinu og finna hugarró í okkar hraða samfélagi. Það var svo fyrir um það bil tveimur árum að ég og vinkona mín Halla María Þórðardóttir, eigandi Reiðskólans Eðalhesta, fengum þá frábæru hugmynd að prófa að vera með námskeið þar sem við gætum blandað saman dýrum og list. Við erum báðar með kennaramenntun að baki og mikla reynslu af alls konar dýrahaldi og þannig varð námskeiðið Dýr og list til. Halla María er nú flutt úr borginni svo hún verður ekki með í sumar en eldri dóttir mín Þórunn Rebekka Ingvarsdóttir, sem stundar nám í líffræði við Háskóla Íslands og hefur margra ára reynslu af reiðskólastarfi, ætlar að koma inn í þetta með mér í staðinn. 

Dæturnar Sunna Dís og Þórunn Rebekka í hesthúsinu fjölskyldunnar.
Dæturnar Sunna Dís og Þórunn Rebekka í hesthúsinu fjölskyldunnar.

Við leggjum áherslu á að hafa einungis tíu til fimmtán börn í einu og skiptum námskeiðinu þannig upp að við notum helminginn af tímanum í dýrastarfið og hinn helminginn í myndlist.

Markmið námskeiðsins er að börnin skemmti sér, komist í snertingu við dýr og náttúru og efli skapandi hugsun. Við kennum börnunum að umgangast dýrin, þrífa hjá þeim, gefa þeim að borða og veita þeim fullt af knúsi, ást og hlýju. Við erum með hesta, hunda, ketti, kanínur, naggrísi, hænuunga og fleira. Listastarfið fer að mestu leyti fram úti í guðsgrænni náttúrunni og þar vinnum við með skapandi hugsun hvers og eins, persónulega tjáningu og ímyndunaraflið. Námskeiðið gekk mjög vel síðasta sumar og komust færri að en vildu. Við hlökkum því til næsta sumars!“

mbl.is