Þáði bólusetningu vegna dóttur sinnar

Patrick Mahomes og unnusta hans Brittany Matthews ásamt dóttur sinni …
Patrick Mahomes og unnusta hans Brittany Matthews ásamt dóttur sinni Sterling Skye. Skjáskot/Instagram

NFL-stjarnan Patrick Mahomes þáði bólsetningu við kórónuveirunni til að vernda heilsu dóttur sinnar. 

„Fyrir mig var þetta persónuleg ákvörðun tengd því að ég á litla dóttur og vitandi að ég þarf að vera í kringum fólk. Ég vildi gera allt sem ég gæti til að vernda heilsu hennar,“ sagði Mahomes í viðtali. 

Mahomes og unnusta hans, Íslandsvinkonan Brittany Matthews, eignuðust sitt fyrsta barn Sterling Skye í lok febrúar. 

Mahomes ítrekaði að honum þætti bólusetning þó eiga að vera val fyrir alla. „Hverju sem þú trúir, þá finnst mér að þú ættir að fylgja þeirri sannfæringu,“ sagði Mahomes. 

Hann segist hafa lært mikið af því að verða faðir, örugglega meira en hann hefur lært allt líf sitt. 

Bólusetningar í Bandaríkjunum ganga gríðarlega vel og hefur yfir helmingur allra fullorðinna fengið að minnsta kosti eina sprautu og yfir 30% eru fullbólusett.

mbl.is