Vissi að þetta myndi takast einn daginn

Berglind Icey hafði trú á því að hún myndi verða …
Berglind Icey hafði trú á því að hún myndi verða ólétt einn daginn. Ljósmynd/Aðsend

Fyrirsætan og framleiðandinn Berglind Icey og sambýlismaður hennar Örn Valdimar Kjartansson eiga von á sínu fyrsta barni á þessu ári. Berglind er 44 ára á þessu ári og segist vera endalaust þakklát fyrir þetta litla kraftaverk.

Berglind hefur unnið sem fyrirsæta frá því hún var unglingur en hún keppti til dæmis í Hawaiian Tropic-keppninni árið 1997. Það tækifæri opnaði margar dyr fyrir henni og fyrirsætustörfin leiddu hana til Hollywood þar sem hún lék einnig í bíómyndum og sjónvarpsþáttum. Hún flutti aftur heim til Íslands fyrir nokkrum árum og stofnaði sitt eigið framleiðslufyrirtæki, Icey Productions, sem komið hefur að framleiðslu erlendra þátta og auglýsinga, nú síðast fyrir japanska bílaframleiðandann Subaru.

Leið Berglindar að móðurhlutverkinu hefur ekki verið einföld en hún hefur farið í 9 tæknifrjóvganir í gegnum árin. Áður en hún kynntist Erni ætlaði hún að frysta eggin sín en þá var ekki byrjað að frysta ófrjóvguð egg.

„Þar sem ég var orðin næstum 41 þegar ég kynntist manninum mínum, þá vissum við að við værum ekki með mikinn tíma sem við gætum leikið okkur með. Á síðustu árum hef ég farið í 9 tæknifrjóvganir bæði hérna heima og tvisvar sinnum í Grikklandi. Þar fór ég í aðgerð á veggjum í legholinu þar sem þeir voru of þykkir og fóstrin fengu aldrei nægt blóðflæði, það átti mikinn þátt í því að ég var alltaf að missa fóstur eftir 6, 7 eða 9 vikur. Einnig fórum við þrisvar sinnum til Danmerkur,“ segir Berglind í viðtali við mbl.is.

Hún segir að það sé rosalega mikilvægt að vera jákvæður í þessu ferli og gera alltaf eitthvað skemmtilegt á milli meðferða. „Ég átti mjög auðvelt með að sprauta mig í meðferðunum og var alltaf mjög sterk, leyfði mér að losa allar tilfinningar og svo byrjaði ég að gera næstu plön. Ég vissi að við værum ekki með langan tíma svo í raun ákvað ég bara að gera þetta að minni vinnu á síðasta ári. Vildi gefa mig alla í þetta svo ég myndi aldrei hafa það á samviskunni, „hvað ef“. Ég hugsaði alltaf að ef ég reyndi allt mitt besta þá myndi ég verða sátt ef þetta hefði ekki gengið upp,“ segir Berglind og bætir við að það sé alls ekki fyrir alla að fara svona oft í tæknifrjóvganir, fólk verði að vera andlega tilbúið og hlusta á líkamann sinn.

Berglindi hefur alltaf langað til að eignast fjölskyldu. „Mér hefur alltaf fundist mikilvægt að eignast barn með manni sem myndi verða góður faðir og einhvern sem ég elskaði mikið. Ég kynntist manninum mínum þegar ég flutti heim að utan. Ég hef sjálf alist upp í yndislegri fjölskyldu og var náin ömmum mínum og öfum, þar með sá ég alltaf hversu mikilvægt það væri að eiga sterk bönd og fjölskyldutengsl,“ segir Berglind.

Berglind og Örn Valdimar fóru tvisvar í meðferð til Grikklands.
Berglind og Örn Valdimar fóru tvisvar í meðferð til Grikklands. Ljósmynd/Aðsend

Varð ólétt mánuði eftir bílslys

Berglind og Örn eiga von á lítilli stúlku og líta þau á hana sem lítið kraftaverk. Það gekk ekki áfallalaust að búa hana til. Þegar Berglind var í meðferðinni fyrir tæknifrjóvgunina lenti hún í bílveltu í nóvember á síðasta ári þar sem bíllinn lenti á hvolfi ofan í skurði.

„Ég hálsbrotnaði, einnig fór hálsinn alveg úr lið, lungun fylltust af díselolíu og vatni úr skurðinum. Þetta gerðist þegar ég var í einni meðferðinni. Það var algjört kraftaverk að koma heil út úr þessu og ég hélt áfram okkar plönum og var orðin ólétt af litlu stelpunni okkar mánuði eftir slysið, hálsbrotin og í endurhæfingu uppi á Landspítala, átti aldrei von á því. Kom mér á óvart að sama hvað reyndi á, þá fann ég alltaf styrk til að halda ótrauð áfram. Einhvern veginn fann ég það á mér að þetta myndi takast einn daginn.

Berglind varð ólétt af litlu stúlkunni sinni mánuði eftir slæmt …
Berglind varð ólétt af litlu stúlkunni sinni mánuði eftir slæmt bílslys. Ljósmynd/Aðsend

Berglindi hefur liðið vel á fyrri hluta meðgöngunnar en hún er gengin 21 viku. „Mér hefur liðið rosalega vel allan tímann. Var smá flökurt frá viku 5 til viku 13 og langaði ekkert mikið að vera í kringum kjöt og mikla matarlykt. En núna líður mér eins og ég sé ekkert ólétt og þarf alltaf að minna mig á það með því að líta niður á stækkandi bumbuna,“ segir Berglind.

Berglind hefur búið stóran hluta ævi sinnar erlendis en sér fyrir sér að ala dóttur sína upp hér. Hún segir þó mikilvægt að fara reglulega utan og kynna hana fyrir fjölbreyttri menningu og lífi fólks annars staðar í heiminum.

En stefna þau á að eignast fleiri börn?

„Við erum bara endalaust þakklát fyrir þetta litla kraftaverk, en ef annað myndi koma óvænt þá tækjum við því fagnandi, ég er að verða 44 ára svo ég er mjög raunsæ og bara þakklát fyrir að eignast eitt kraftaverk. Við erum svo heppin að maðurinn minn á þrjú yndisleg uppkomin börn og einnig eignuðumst við yndislegt barnabarn síðasta október,“ segir Berglind.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert