Sólarvarnir leikskólabarna: þetta þarftu að vita

Eitt af markmiðum Krabbameins­félagsins er að fækka þeim sem fá …
Eitt af markmiðum Krabbameins­félagsins er að fækka þeim sem fá krabbamein með öflugum forvörnum. mbl.is/Eva Björk

Eitt af markmiðum Krabbameins­félagsins er að fækka þeim sem fá krabbamein með öflugum forvörnum. Sólarvarnir skipta miklu máli fyrir alla og sérstaklega fyrir börn, sem eru viðkvæmari fyrir sólargeislum, en skaði af völdum sólar getur leitt til húðkrabbameins síðar á ævinni.

Á Íslandi þarf að huga að sólarvörnum frá apríl fram í september, sér í lagi milli klukkan 10 og 16. Þetta er tíminn sem mörg börn eru í leikskóla og því mikilvægt að þar sé gætt vel að sólarvörnum.

Krabbameinsfélagið hefur útbúið gátlista um sólarvarnir leikskólabarna fyrir annars vegar leikskólabörn og hins vegar foreldra þeirra. Þeir hafa verið sendir á alla leikskóla landsins með góðri kveðju til starfsfólks og foreldra. Það er von okkar að gátlistarnir geti komið að góðum notum en þá má til dæmis prenta út og hengja upp í fataklefum leikskóla.

Gátlisti fyrir leikskólann:

 • Við hugum að sólarvörnum frá apríl fram í september
 • Við pössum að börnin séu í fötum sem hylja axlir, bringu, handleggi og fótleggi
 • Við pössum að börnin séu með sólhatt eða derhúfu
 • Við hvetjum börnin til að nota sólgleraugu
 • Við berum sólarvörn með stuðulinn 30 til 50+ á börnin fyrir útiveru fyrir og eftir hádegi og svo eftir þörfum (t.d. ef þau svitna mikið, busla í vatni eða þeim er þvegið með þvottapoka)
 • Við berum sólarvörn á öll svæði sem ekki eru hulin með fötum, svo sem andlit, eyru, hnakka, handarbök og mögulega hársvörð
 • Við pössum að það séu svæði á leikskólalóðinni þar sem börnin geta leikið sér í skugga, til dæmis frá trjám eða tjöldum eða norðan megin við hús, og hvetjum börnin til að nýta sér þau
 • Við tökum hlé frá sólinni og færum leikinn inn eða í skugga
 • Við munum að sólargeislar geta borist í gegnum ský og hugum að sólarvörnum þótt það sé skýjað
 • Við munum að sólargeislar geta endurkastast frá vatni og sandi
 • Við pössum að börnin drekki nóg vatn í og eftir útiveru í sólinni
 • Við erum góðar fyrirmyndir og verjum okkur sjálf fyrir sólinni
 • Við komum upp góðum venjum í kringum sólarvarnir á leikskólanum og erum í góðu samstarfi við foreldra

Gátlisti fyrir foreldra:

 • Við hugum að sólarvörnum frá apríl fram í september, sér í lagi milli klukkan 10 og 16
 • Við pössum að börnin séu með föt í leikskólanum sem hylja axlir, bringu, handleggi og fótleggi
 • Við munum eftir að koma með sólhatt eða derhúfu í leikskólann
 • Við munum eftir að koma með sólgleraugu í leikskólann
 • Við berum sólarvörn á börnin áður en þau fara í leikskólann nema við séum viss um að borið sé á þau fyrir fyrstu útiveru í leikskólanum: á öll svæði sem ekki eru hulin með fötum, svo sem andlit, eyru, hnakka, handarbök og mögulega hársvörð
 • Við munum eftir að koma með sólarvörn með stuðulinn 30 til 50+ í leikskólann
 • Við endurnýjum sólarvörnina eftir þörfum, almennt er mælt með að endurnýja sólarvörn árlega
 • Við pössum að börnin drekki nóg vatn eftir sólríka daga
 • Við erum góðar fyrirmyndir og verjum okkur sjálf fyrir sólinni
 • Við erum í góðu samstarfi við leikskólann varðandi sólarvarnir barnanna
mbl.is