10 ára greip foreldra sína í bólinu

Mario og Courtney Lopez eiga þrjú börn.
Mario og Courtney Lopez eiga þrjú börn. AFP

Leikarinn Mario Lopez og eiginkona hans Courtney upplifðu „verstu“ martröð foreldra þegar 10 ára dóttir þeirra Gia labbaði inn á þau þegar þau voru að stunda kynlíf. 

Hjónin sögðu Lisu Vanderpump, Ken Todd og Sheryl Underwood frá raunum sínum eftir að Vanderpump spurði hvernig þau gætu eiginlega stundað kynlíf þegar þau ættu þrjú börn. Hjónin sögðu að þetta snerist allt um að ljúka sér fljótt af og finna tíma. 

Hjónin völdu þó ekki besta tímann þegar dóttir þeirra kom að þeim. Þau höfðu valið að fara inn í gestaherbergið og héldu að Gia væri að sinna heimavinnunni sinni á meðan. Á sama tíma voru flutningamenn á heimilinu að færa til húsgögn og þau héldu að dóttir þeirra myndi ekki heyra neitt. Þau slepptu því að læsa dyrunum að gestaherberginu. 

„Gia kom að leita að okkur og opnaði dyrnar. Þetta er það versta sem getur gerst, ekki satt? Ég var leifturfljótur undir sængina,“ sagði Lopez.

Eftir atvikið vildi Lopez ræða einlægt við dóttur sína en það reyndist þrautin þyngri þar sem Gia litla fannst ekki í klukkutíma eftir atvikið. 

mbl.is