Opnaði hjarta sitt í Stranger Things

Lily Allen og David Harbour.
Lily Allen og David Harbour. AFP

Leikarinn David Harbour segir hlutverk sitt í Stranger Things hafa hjálpað sér mikið við það að ganga í hlutverk stjúppabba þegar hann tók fyrst saman við tónlistarkonuna Lily Allen. 

Harbour ræddi við Dan Patrick í hlaðvarpsþáttunum That Scene. Í Stranger Things gengur persóna Harbours, Jim Hopper, stúlkunni Eleven, sem Millie Bobby Brown túlkar, í föðurstað. 

Sjónvarpið hjálpaði mér klárlega í lífinu. Ég er algjör New York-rotta. Ég elskaði frelsi mitt og sjálfstæði. Og síðan breytti þetta hlutverk mér og viðhorfi mínu. Þættirnir opnuðu hjarta mitt á mismunandi hátt. Ég til dæmis áttaði mig á því hversu smá tilvera mín er án fjölskyldu,“ sagði Harbour. 

Allen á tvær dætur úr fyrra hjónabandi, þær Marnie Rose átta ára og Ethel Mary níu ára. Í Stranger Things er meirihluti mótleikara Harbours krakkar og táningar. 

„Ég held að hluti af velgengni þáttanna sé að það er einhver einstök tenging á milli leikara og persónanna. Mér líður eins og það hafi verið eitthvað í Hopper sem þráði að eiga fjölskyldu, og það var eitthvað í mér sem gerði það líka þótt ég hafi ekki verið meðvitaður um það,“ segir Harbour.

mbl.is