Bauðst til að ganga með barn sonar síns 85 ára

Cooper virðist sáttur í íslenskri náttúru.
Cooper virðist sáttur í íslenskri náttúru. Ljósmynd/Instagram Anderson Cooper

Móðir bandarísku sjónvarpsstjörnunnar Andersons Coopers bauðst til þess að ganga með barn hans þegar hún var 85 ára. Móðir Coopers, Gloria Vanderbilt, er úr þekktri og ríkri bandarískri fjölskyldu og segir Cooper hana oft hafa fengið skrítnar hugmyndir en þessi hafi verið alveg klikkuð. 

Vanderbilt bað son sinn að hitta sig af því hún væri með fréttir. Vanalega þýddu samtöl sem þessi að hún vildi endurhanna íbúðina sína á hans kostnað en allt annað var upp á teningnum í þessu samtali. Hún sagði syni sínum að hún hefði farið til kvensjúkdómalæknis sem hefði tjáð henni að hún gæti enn gengið með barn. 

Í fyrstu sagði Cooper móður sinni hversu klikkað það væri þar sem hún væri orðin svo gömul, orðin 105 ára þegar barnið færi í háskóla! Móðir hans hneykslaðist þá á syni sínum sem er samkynhneigður og sagði að hún ætlaði að ganga með barn fyrir hann. Þau gætu fengið egg og frjóvgað það með sæði hans, þannig að hann gæti orðið faðir. 

Móðir hans, sem dó ekki fyrr en tíu árum seinna, gleymdi ekki hugmyndinni. Hún sendi honum eitt sinn póst með úrklippu úr dagblaði þar sem hún hafði klippt út grein með sambærilegu máli. Þar hafði ítölsk kona gengið með barnabarn sitt fyrir samkynhneigðan son sinn og eiginmann hans. „Sjáðu,“ skrifaði mamma hans við greinina. 

Cooper eignaðist barn í fyrra og kom móðir hans ekki nálægt meðgöngunni. Sonurinn Wyatt kom í heiminn með hjálp staðgöngumóður. 

mbl.is