Hjartað kallaði á barn

Litla fjölskyldan Þórir Hlynur Ríkharðsson, Viktoría Hildur og Ásthildur Úa …
Litla fjölskyldan Þórir Hlynur Ríkharðsson, Viktoría Hildur og Ásthildur Úa Sigurðardóttir.

Ásthildur Úa Sigurðardóttir, leikkona í Borgarleikhúsinu, eignaðist dótturina Viktoríu Hildi með sambýlismanni sínum Þóri Hlyni Ríkharðssyni í fyrra. Hún var nýútskrifuð þegar hún ákvað að eignast barn og þrátt fyrir varnaðarorð ákvað hún að fylgja hjartanu. 

„Ég upplifði það mjög sterkt þegar ég var að útskrifast að hjartað mitt kallaði fyrst og fremst á barn. Það var alveg „scary“ vegna þess að það er alveg frjálst fall að útskrifast úr LHÍ. Það er ekkert í hendi og maður er hræddur um að gleymast, fá ekki tækifæri, vegna þess að það er það sem maður þarf, tækifæri til þess að fá reynslu. Ég var alveg vöruð við því að eignast barn strax eftir útskrift. En þegar maður hefur farið fjórum sinnum í inntökupróf fyrir LHÍ þá þjálfast maður líka í því að hlusta á hjartað og fylgja því sem maður raunverulega þráir. Ég er fegin að hafa fylgt hjartanu,“ segir Ásthildur um hvernig það var að eignast barn fljótlega eftir útskrift. 

„En auðvitað fór ég í alls kyns sveiflur með þetta þegar ég var ólétt og vann við allt annað en leiklist og horfði á bekkjarfélaga mína fljúga af stað inn í sinn feril. En ég er þannig gerð að ég trúi því að ef maður fylgir sannfæringu sinni þá færi lífið manni það sem maður þarf.“

Hvernig breytti móðurhlutverkið þér?

„Ég upplifi meiri tilfinningar einhvern veginn, meiri ást, svona ofsaást á annarri manneskju. Meiri hræðslu við það að falla frá og vera ekki til staðar fyrir dóttur mína og stöðuga ábyrgðarkennd gagnvart annarri manneskju sem maður elskar meira en allt. En þetta hefur líka opnað fyrir mér nýjan heim, skilning á því hvað konur eru magnaðar að ganga með og fæða börn í þennan heim og hvað foreldrar eru magnaðir alla daga, alltaf.“

Ásthildur Úa ákvað að eignast barn eftir útskrift úr Listaháskóla …
Ásthildur Úa ákvað að eignast barn eftir útskrift úr Listaháskóla Íslands.

Hvað kom mest á óvart við móðurhlutverkið?

„Kannski kom það ekki beint á óvart, en eftir að ég eignaðist mína litlu stelpu þá myndaðist dýpri og fallegri skilningur á sambandi mínu við mömmu mína og á öllu því sem mæður gera fyrir mann. Fórnirnar sem þær hafa fært fyrir mann og öll ástina sem þær gefa manni alltaf. Hvað maður er heppinn að eiga manneskju í lífi sínu sem er alltaf til staðar. Mér finnst það mjög fallegt og táknrænt fyrir það hvað maður þroskast mikið við það að eignast barn.“

Finnur þú fyrir pressu frá samfélagsmiðlum að gera hlutina á ákveðinn hátt?

„Já ekki spurning, en það er auðvitað bara pressa frá mér sjálfri. Ef ég ákveð að miða mig við aðra þá finn ég fyrir þessari pressu. Bara að eiga ákveðna hluti, líta vel út nýbúin að eiga fannst mér erfitt. Þegar ég var heima hjá mér enn þá í netanærbuxunum af spítalanum með sauma í píkunni var ég að sjá konur á sama stað sem litu út fyrir að hafa aldrei átt barn.

En svo finn ég líka bara fyrir alls konar pressu varðandi það að eiga hluti með fyrsta barn. Ég upplifi svolítið eins og það sé ekki eðlilegt að eiga ekki allt með fyrsta barn, eins og það sé eðlilegt að vera komin með allt til alls strax. Það má ekkert vanta, íbúð, innbú, barnaherbergi með öllu, föt á barn. Þetta er allt bara komið við fyrsta barn sem mér þykir óraunsætt.“

Hvernig var meðgangan?

„Ég var nokkuð veik meirihlutann af meðgöngunni, þannig að hún tók töluvert á. Mér var bara stanslaust flökurt og leið eins og ég væri bara veik eða þunn í sjö mánuði. Mér fannst samt yndislegt að vera ólétt vegna þess að ég var búin að þrá það lengi, þannig að ég naut þess líka. En að vera svona veikur svona lengi tók á. Síðustu þrír mánuðir meðgöngunnar eru oft taldir erfiðasti tíminn en mér leið best þá mánuði, þá varð ég bara ég aftur.“

Hvernig var fæðingin?

„Ég átti draumafæðingu, miðað við fyrsta barn var eiginlega ótrúlegt að hún gengi svona vel. Hún var fimm tíma að koma í heiminn, frá því að ég missti vatnið og þangað til hún var komin í fangið á mér. Allt gekk eins og í sögu en þetta er erfitt. Mér fannst ég ekki hafa heyrt það áður en ég átti. Það hefur ekki nægilega mikið verið talað um það í gegnum tíðina hvað það er svakalegt afrek að fæða barn. Núna þegar ég sé konur með þrjú börn þá langar mig bara að stoppa og hneigja mig fyrir þeim, nei í alvöru, það er bara skrýtið að það sé svona normaliserað hvað þetta er erfitt.“

Ásthildur segir að það sé ekki nauðsynlegt að eiga allt …
Ásthildur segir að það sé ekki nauðsynlegt að eiga allt þrátt fyrir samfélagsmiðlar gefi oft aðra mynd.

Hvað hefðirðu viljað vita áður en þú varst móðir?

„Ég hef pælt í þessu og veistu ég held að það sé ekki almennilega hægt að búa mann undir það að verða foreldri. Maður þarf að reyna það á eigin skinni til þess að skilja hvað það er.“

Besta ráð sem þú átt handa nýbökuðum eða verðandi mæðrum?

„Ef þið eruð mikið einar með barn, reynið eftir fremsta megni að einangra ykkur ekki, heldur hitta aðra þótt það sé ekki nema smá stund. Ef þið eruð mikið fastar heima með barn á brjósti mæli ég með að hámhorfa á Grace and Frankie á Netflix, þær munu létta ykkur lund. Og ekki vera hikandi við það að fá hjálp frá fjölskyldum í kringum ykkur til að hvíla ykkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert