„Það sem er vökvað vex“

Bryndís Hera Gísladóttir ásamt unnusta sínum, Ásgeiri Kolbeinssyni, og syni …
Bryndís Hera Gísladóttir ásamt unnusta sínum, Ásgeiri Kolbeinssyni, og syni þeirra, Alexander Loga. Ljósmynd/Aðsend

Heilsumarkþjálfinn Bryndís Hera Gísladóttir, sem gjarnan er kölluð Hera, segir mikilvægt að vera í góðu andlegu- og líkamlegu jafnvægi til þess að ná vænlegum árangri í foreldrahlutverkinu. Hera og unnusti hennar, athafnamaðurinn Ásgeir Kolbeinsson, eiga saman soninn Alexander Loga sem er sjö ára gamall. 

Hera hefur lagt sig fram í að skoða hugarheim og hegðun barna eftir að hún eignaðist son sinn og telur hún það ansi brýnt að foreldrar nálgist börn sín á jafningjagrundvelli. Sem menntaður heilsumarkþjálfi hefur hún lært að setja skýr mörk og gera sér raunhæf markmið bæði í foreldrahlutverkinu og í hinu daglega amstri.    

 „Foreldrahlutverkið getur oft verið krefjandi, stundum lítið um svefn og álagið mikið. Það getur verið kúnst að halda sjálfum sér í jafnvægi á krefjandi tímum í uppeldinu en ég hef reynt að tileinka mér að leita frekar lausna með bros á vör í stað þess að eyða orku og tíma í tuð yfir einhverju sem ég fæ hvort sem er ekki breytt. Hegðun barna er lærð en ekki meðfædd og þau læra mest á því að fylgjast með öðrum í kringum sig og prófa svo sjálf. Við erum fyrirmyndirnar og þegar við erum í góðu jafnvægi og gerum okkar besta, þá eru meiri líkur á að okkur takist að ala upp flotta einstaklinga sem verða betur í stakk búnir til þess að kljást við öll verkefnin sem bíða þeirra á lífsleiðinni,“ segir Hera.

Það er mikilvægt að foreldrar hugi vel að and- og …
Það er mikilvægt að foreldrar hugi vel að and- og líkamlegri líðan sinni. Ljósmynd/Aðsend

Langar þig að eignast fleiri börn?

„Ég væri voða þakklát ef ég fengi tvö börn í viðbót og jafnvel fleiri en það. Tilgangurinn og fegurðin við það að vera foreldri er bara svo fallegur og hlutverkið svo gefandi.“ 

Aðhyllist þú einhverjar ákveðnar uppeldisaðferðir?

„Ég spila eftir tilfinningu og þroska. Ég sé fegurðina í því að þroskast sem mamma og geri mér grein fyrir því að ég er ekki fullkomin og ég get bætt mig á mörgum sviðum. Mér finnst það fallegt að ég breytist og þroskast samhliða Alexander á hverju ári. Ég aðhyllist enga ákveðna stefnu en ég hef lesið mjög margt um uppeldi og tek til mín það sem mér finnst henta okkur hverju sinni og sem mér þykir gagnlegt.“

Hvernig hefur þú samstillt vinnu, námi og heimilishaldi við barnauppeldið í gegnum tíðina? 

„Ég er það lánsöm að við erum tvö saman að vinna að góðu uppeldi sonar okkar og höfum náð að samstilla okkur vel. Þegar ég þarf að stökkva frá er pabbi hans honum til staðar og í raun gott betur en það. Við getum orðað það þannig að hann er „góða löggan“ og ég er þá meira „vonda löggan“ en það þarf víst alltaf að vera þannig til þess að hafa hið fullkomna jafnvægi. Ég er bara heppin að við erum og höfum alltaf verið mjög samstillt þannig við höfum ekki þurft að leggja á okkur einhverja sérstaka vinnu til þess að ná þessu jafnvægi. Það kom bara náttúrulega mjög snemma.“

Pabbinn er ,,góða löggan'' í uppeldinu að sögn Heru.
Pabbinn er ,,góða löggan'' í uppeldinu að sögn Heru. Ljósmynd/Aðsend

Hversu mikilvægt þykir þér að foreldrar séu vinir barna sinna og verji með þeim tíma?

„Ég held að við ættum öll að tileinka okkur það að vera besta foreldrið en ekki endilega það  skemmtilegasta. Engu að síður er ómetanlegt að eiga gott vinasamband við barnið sitt. Það er ótrúlegt hvað börn geta gefið og kennt manni ef maður er tilbúin til þess að hlusta á þau og virða þeirra skoðanir. Ég trúi einnig að okkur sé ekki ætlað að stjórna börnum okkar á hvaða aldursskeiði sem þau eru, heldur leiðbeina þeim. Þau eru framtíðin og þurfa okkur ekki til þess að segja þeim hvað okkur finnst best - heldur viljum við byggja þau upp þannig að þau fari út í lífið með nóg af sjálfstrausti og að þau komi til með að vera góð við sjálfan sig og náungann.“

Telur þú þig vera stranga?

„Já, ég myndi segja það en á sama tíma tel ég mig vera sanngjarna. Ég held að börn þurfi gott utanumhald en ekki niðurbrjótandi stjórnun. Ég er með einfaldar reglur sem eru til dæmis: Vertu þakklátur, hjálpsamur og kurteis og reyndu alltaf að gera þitt besta. Þegar hann verður reiður gef ég honum tíma til þess að kljást við tilfinningarnar, vinna úr þeim og róa sig niður. Alveg eins og ég myndi vilja að mér væri gefinn þessi tími. Síðan ræðum við saman þegar hann hefur náð sér niður og förum yfir orðinn hlut og hvernig hægt væri að gera betur. Þannig ég myndi ekki segja beint að ég sé ströng heldur með gott utanumhald og að ég beri mikla virðingu fyrir honum sem einstaklingi og öllu tilfinningarófinu hans.“ 

Hera hvetur allra foreldra til að finna innra barnið í …
Hera hvetur allra foreldra til að finna innra barnið í sér endrum og eins. Ljósmynd/Aðsend

Lumar þú á einhverjum hagnýtum uppeldisráðum?  

1. „Vertu sanngjarnt foreldri. Þegar þér finnst þú hafa misstigið þig og færð svokallað „mömmu/pabba samviskubit“ skoðaðu það sem þér finnst hafa farið úrskeiðis og hvernig þú hefðir getað brugðist betur við.“  

2. „Við eigum að sjá fegurðina í því að vera ekki fullkomin. Við erum alveg jafn mikið að læra og börnin okkar og eigum að vera með gagnrýna hugsun á okkur sjálf og biðjast fyrirgefningar þegar við erum óréttlát.“ 

3. „Gefðu þér tíma, slökktu á símanum og leyfðu barninu í þér að koma fram. Það er til dæmis alveg ótrúlega gaman að dansa inni í stofu, jafnvel uppi í sófa. Þú færð jafn mikla útrás og vellíðan og barnið þitt. Þið eigið eftir að hlæja og búa til minningar. Fara í snjókast, vaða í fjöru, fara í eltingaleik, skríða í grasinu og þykjast vera dýr eða bara þær hugmyndir sem barninu þínu dettur í hug.“

4. „Vera samstíga. Við erum öll einstaklingar með sitthvorar áherslur í uppeldinu. Foreldrar þurfa að ræða og stilla sig saman með virðingu fyrir ólíkum skoðunum. Það tel ég mjög mikilvægt.“

5. „Vera með skýr skilaboð. Ekki segja nei einn daginn og já þann næsta. Börn þurfa skýr skilaboð til þess að hjálpa þeim að skilja hvers þú ætlast til af þeim. Farðu stundum niður á þeirra plan og gefðu þér tíma til þess að útskýra fyrir þeim af hverju þetta er mikilvægt eða hitt. Ekki drífa þig um of. Börn eru eins og leir - ef þú vilt móta þau vel þarftu að gefa þeim tíma.“

6. „Það sem er vökvað vex. Við eigum það til að gefa neikvæðri hegðun mikla athygli en þegar vel gengur gleymum við að hrósa! Hrósum þessum litlu mannverum þegar vel gengur.“

Hera ásamt sjö ára syni sínum.
Hera ásamt sjö ára syni sínum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is