Kveður son sinn í hinsta sinn

Alyssa Scott með Zen litla í fanginu.
Alyssa Scott með Zen litla í fanginu. Skjáskot/Instagram

Fyrirsætan Alyssa Scott, barnsmóðir uppistandarans Nick Cannons, deildi hjartnæmri færslu á Instagram í vikunni til minningar um fimm mánaða gamlan son þeirra, Zen Cannon, sem lést fyrr í mánuðinum af völdum krabbameins í heila. Page Six greinir frá. 

Mikil sorg hvílir yfir fjölskyldunni um þessar mundir og það skal engan undra. Að missa barn er líklega erfiðasti atburður í lífi foreldra og tilfinningarnar yfirþyrmandi og óútskýranlegar. Scott birti átakanlegt myndband sem sýndi elsku litla Zen í ýmsum athöfnum frá því hann fæddist og fram til hans síðasta augnabliks. 

„Ó elsku Zen minn. Það er sársaukafullt að minna sig á að þú sért ekki lengur hér með okkur,“ segir Scott í byrjun færslunnar og sorgin leynir sér ekki. „Ég hef staðið sjálfa mig að því horfa í aftursætið á bílnum þegar ég er að keyra og sjá bara spegil. Hann endurspeglar ekki lengur þitt fullkomna andlit.“

Alyssa Scott lýsti því með fallegum hætti hvernig Zen hélt henni gangandi síðustu fimm mánuðina. Hann var ljósið í lífi hennar en þessi stutti tími sem hún fékk að verja með syni sínum segir hún hafa verið í líkingu við kapphlaup. 

Nick Cannon, faðir Zen, greindi aðdáendum sínum frá andlátinu og orsökum þess, í spjallþætti sínum á dögunum. Andlátstilkynningin varð honum um megn sem varð til þess að hann brotnaði niður í beinni útsendingu. Enda er ekki hægt að ímynda sér að þurfa að kveðja barnið sitt í hinsta sinn. 

Zen litli fæddist þann 23. júní en lést 5. desember, síðastliðinn og var yngsta barn af þeim sjö sem Nick Cannon á. Heimsbyggðin syrgir með fjölskyldunni og hafa ófáar samúðarkveðjur borist foreldrunum á samfélagsmiðlum. 

View this post on Instagram

A post shared by Alyssa (@itsalyssaemm)

mbl.is