Tjáir sig um barnsmissinn

Chrissy Teigen og John Legend.
Chrissy Teigen og John Legend. AFP

Tónlistarmaðurinn John Legend opnaði sig á dögunum um djúpstæðan sársauka sem hann og eiginkona hans, fyrirsætan Chrissy Teigen, upplifðu þegar sonur þeirra fæddist andvana í september árið 2020.

Stjörnuhjónin voru full tilhlökkunar að taka á móti þriðja barni sínu, sem þau höfðu nefnt Jack, áður en hann fæddist andvana. Í samtali við fréttamiðilinn Guardian lýsti Legend þeirri óbærilegu sorg sem þau foreldrarnir upplifðu í kjölfarið. Hann sagði missinn einnig hafa kennt fjölskyldunni ýmislegt.

„Ég held að þetta hafi gefið okkur styrk og seiglu. Við vorum til staðar fyrir hvert annað og komum út úr þessu sterkari fyrir vikið, sem par og sem fjölskylda,“ er haft eftir Legend, sem sagði missinn vera fjölskylduharmleik. 

Að sögn Legends var það mikilvægasta sem þau gátu gert í þessum erfiðu aðstæðum að tjá tilfinningar sínar. Hann sagðist hafa fundið fyrir mikilli þörf til að tala um missinn og deila raunum sínum með öðrum, svo hann gæti haldið áfram með lífið. 

Teigen, eiginkona Legends, hefur deilt því með heimsbyggðinni að þau hjónin langi til að eignast fleiri börn og að tæknifrjóvgunarferlið sé hafið. Fyrir eiga hjónin tvö börn; Lunu, fimm ára og Miles, þriggja ára.

mbl.is