Áhyggjurnar hurfu þegar frumburðurinn kom í heiminn

Steinunn Harðardóttir á tvær dætur, þær Eldeyju og Lílú.
Steinunn Harðardóttir á tvær dætur, þær Eldeyju og Lílú. mbl.is/Kristinn Magnússon

Steinunn Eldflaug Harðardóttir, betur þekkt sem dj. flugvél og geimskip, á dæturnar Eldeyju og Lílú með sambýlismanni sínum, Ísak Ívarssyni. Steinunn segir lífið vera ævintýri sem vaxi með móðurhlutverkinu. Áhyggjurnar sem hún hafði þegar hún gekk með eldri dóttur sína hurfu þegar frumburðurinn kom í heiminn.

„Það gengur ekkert að spila á nóttunni þegar þú ert komin með börn,“ var stundum sagt við Steinunni áður en hún eignaðist dætur sínar. Hún segist í fyrstu hafa verið smeyk við að þessar efasemdaraddir hefðu rétt fyrir sér en annað kom á daginn. „Að spila á nóttunni er það skemmtilegasta sem ég geri. Allir eru að dansa, það eru ljós og partí. Ég var smeyk við þetta og stressuð, að þetta yrði ekki lengur hluti af lífinu en svo var það ekkert þannig,“ segir Steinunn. Margt breyttist þó með móðurhlutverkinu og segist hún til að mynda vera orðin meiri tilfinningavera.

Fóru saman í ferðalög

Hún segir að fyrirkomulag tónleikaferðalaga breytist einfaldlega þegar hún er með ungbarn og fjölskyldan hefur í leiðinni búið til margar dýrmætar minningar.

„Ég er svo heppin að ég og kærastinn minn, hann Ísak, erum ótrúlega góð saman. Fyrsta árið hennar Eldeyjar var hún á brjósti og ég gat ekki farið frá henni. Ef ég fór til útlanda að spila kom Ísak bara með mér. Við vorum þá bara með hana með okkur. Ég gaf henni brjóst áður ég fór að spila og svo var hann með hana baksviðs eða uppi á hótelherbergi. Við fjölskyldan fórum í mörg ferðalög fyrsta árið, sem við hefðum annars ekki gert,“ segir Steinunn og bætir við að þau hafi dreymt um ferðalög en ekki verið eins forsjál í að safna fyrir þeim. Það má því segja að þegar þau eignuðust börn hafi þau dottið í tvo lukkupotta, stofnað fjölskyldu og farið í ferðalög saman.“

Þegar Steinunn er ekki með börn á brjósti er auðveldara fyrir hana að bregða sér frá og geta vinnuferðir jafnvel verið kærkomið húsmæðraorlof. Steinunn bendir á að það, að vera alltaf með barn með sér, geti stundum verið yfirþyrmandi. „Það er líka indælt að vera einhvers staðar í útlöndum og þurfa ekki að vakna um miðja nótt þegar eitthvert barn fer að gráta.“

Steinunn segist ekki skilja börnin eftir þegar hún fer í tónleikaferðir enda eru stelpurnar hjá pabba sínum. Sumir eigi það til að lýsa yfir áhyggjum sínum vegna þessa. Hún segir hins vegar Ísak og stelpurnar eiga mjög gott samband. „Hann hefur verið með þær eins og mömmur eru vanar. Þótt árið sé 2022 þá endar móðirin oft á því að vera meira með börnin. Það skiptist jafnar á milli okkar,“ segir Steinunn. Hún rifjar upp atvik í flugvél þegar sessunautur hennar benti á að Ísak væri í mömmuleik þegar hann fór að skipta á eldri dóttur þeirra.

Steinunn hélt áfram að spila á tónleikum eftir að hún …
Steinunn hélt áfram að spila á tónleikum eftir að hún varð móðir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nöfn eru hljóð sem einkenna manneskju

„Margir krakkar halda að hún heiti Líló eins og í bíómyndinni Liló og Stitch en hún heitir Lílú, segir Steinunn þegar hún útskýrir nafn yngri dóttur sinnar fyrir blaðamanni. „Nafnið kemur úr Fifth Element-bíómyndinni. Það er mjög skemmtileg frönsk vísindaskáldsögumynd frá níunda áratugnum, segir Steinunn. Í Fifth Element leikur leikkonan Milla Jovovich persónuna Leeloo.

Steinunn og Ísak íslenskuðu hins vegar nafnið þegar þau sóttu um leyfi fyrir því. „Við sendum inn skjal með umsókninni þar sem við sögðum að þetta væri uppáhaldsbíómyndin okkar og þetta væri góð persóna í myndinni. Svo sögðum við, af því við vissum að þetta fengist ekki samþykkt nema þetta væri svolítið íslenskt, að nafnið beygðist eins og önnur íslensk nöfn og væri með íslenskum stöfum.“

Steinunn segir almennt vel tekið í nafnið þó það sé nýtt á Íslandi. Fólk sem hefur séð myndina fer oft að brosa og Frakkar skilja nafnið vel þar sem það er til í Frakklandi. „Krakkar eru ekkert að pæla í þessu. Einhverjum finnst þetta skrítið nafn og segja að þetta sé ekki nafn heldur bara hljóð. En þá bendi ég á að nöfn eru bara hljóð, þau eru bara hljóð sem einkenna manneskju. Það hlýtur að vera gott að hafa hljóð sem er einkennandi fyrir þig, það eru svo margir sem heita sömu nöfnum. Það eru til dæmis margar sem heita Steinunn og stundum eru tvær Steinunnir, segir Steinunn og bendir á að það geti jafnvel valdið ruglingi.

Sjálf tók Steinunn upp millinafnið Eldflaug fyrir nokkrum árum en fékk ekki að taka nafnið upp formlega. „Ég reyndi það fyrir nokkrum árum. Það var ekki komin þessi nýja vingjarnlega mannanafnanefnd sem er núna. Það voru tvær ástæður gefnar. Annars vegar að það væri ekki hefð í íslensku máli að fólk héti í höfuðið á farartækjum að undanskildu nafninu Vagni sem unnið hefur sér sess í íslensku máli. Svo var líka talað um það ef ég fengi leyfi fyrir nafninu þá myndu aðrir foreldrar nota nafnið Eldflaug og þeir yrðu að taka tillit til þess að nöfn geta verið börnum til að ama. Ég hugsaði hvaða barni yrði það til ama að heita Eldflaug. Það er svo sem hægt að snúa út úr öllum nöfnum. Þeir fóru svo að grínast og sögðust ekki geta leyft nafnið Blómavasi.

Eldri dóttur þeirra Ísaks fékk hins vegar nafnið Eldey eftir söngkonunni Elly Vilhjálms sem er í miklu uppáhaldi hjá Steinunni. „Þarna er nafnið komið,“ sagði Ísak eitt kvöldið við konu sína þegar þau hlustuðu á söng Ellyar. Þá hafði Steinunn bent honum á að Elly hefði heitið Eldey en kölluð Elly.

Hugmyndin að nafninu Lílú kom úr franskri mynd.
Hugmyndin að nafninu Lílú kom úr franskri mynd. mbl.is/Kristinn Magnússon

Loftsteinninn sem aldrei kom

Steinunn er forvitin og dugleg að kanna ótroðnar slóðir. Hún er spennt fyrir tónlist, að búa til tölvuleiki, að komast að því hvað ástin er og að búa til nýja manneskju. Hún var spennt fyrir móðurhlutverkinu þegar hún gekk með eldri dóttur sína en á sama tíma fann hún fyrir kvíða, var hrædd við hvernig lífið myndi breytast.

„Þegar ég var ólétt að Eldeyju, eldra barninu mínu, grét ég á hverju einasta kvöldi og alla daga. Ég hélt að lífið væri búið. Þetta var rosalega erfitt. Ég veit ekki hvað það var, ég var svo hrædd en ég var líka mjög spennt fyrir því sem lífið hefði upp á að bjóða,“ segir Steinunn. Hún lýsir tilfinningunni þannig að loftsteinn hefði verið að hrapa ofan á þau.

„Ég hélt að ég myndi bara glata lífi mínu. Mamma og kona eru orð sem ég var skíthrædd við. Þess vegna vildi ég kannski vera Steinunn Eldflaug, ég er eitthvað allt annað, ég er ekki kona, ég er ekki mamma, ég er eldflaug. Ég vissi ekkert hvað væri að fara að gerast og mér leið eins og heimurinn minn væri að fara að splundrast. Ég veit ekki hvort þetta er eitthvert egó, sem verður svona hrætt, en þetta var mjög óþægilegt,“ segir Steinunn sem beið og beið eftir breytingunni sem aldrei varð.

Þegar barnið kom segist Steinunn ekki hafa haft neinn tíma fyrir þær áhyggjur sem fylgdu meðgöngunni. Allur hennar tími fór í að sinna barninu. „Allt í einu var ekki tími fyrir þessar áhyggjur,“ segir Steinunn. Á sama tíma hurfu líka hversdagslegar áhyggjur á borð við af því að fara út úr húsi ómáluð.

Foreldrahlutverkið minnir á fjarsamband

„Ég skil ekki hvernig fólk fer að þegar fólk á þrjú, fjögur börn. Mér finnst það bara ótrúlegt,“ segir Steinunn þegar hún er spurð út í fjölskyldulífið og parasambandið. Hún segir að hún þakki bara fyrir að allt reddist einhvern veginn í lok dags. Hún gerir fá langtímaplön. Það er mikið að gera á heimili sem telur tvö börn, tvo ketti, útvinnandi foreldra, svo ekki sé talað um þegar mamman heldur uppi stuði á tónleikum á kvöldin líka.

„Oft, þegar við ætlum að horfa á mynd, þá vaknar einhver og vill ekki sofa lengur. Maður þarf að venjast því að það er ekki hægt að skipuleggja sig. Þetta er tímabil. Einn daginn verða þær stærri og þá verður auðveldara fyrir okkur að gera eitthvað saman. Okkar stundir sem par eru þegar þær eru sofnaðar, ef þær eru ekki vaknaðar aftur, segir Steinunn. Hún segir að hún hafi lært það í móðurhlutverkinu að allt gangi í tímabilum. Hún hélt til að mynda þegar eldri dóttir þeirra var lítil og svaf illa að þau foreldrarnir gætu aldrei aftur horft á sjónvarpið saman en það átti eftir að breytast. „Þetta minnir mig pínu á fjarsamband af því einu sinni var Ísak í námi í Amsterdam og ég var á Íslandi. Ég saknaði hans rosalega mikið en þegar við hittumst þá var svo ótrúlega gaman,“ segir Steinunn og á þar við færri en þó skemmtilegar gæðastundir sem þau eiga saman tvö.

Fjölskyldan er dugleg að hlusta á tónlist saman og dansa.
Fjölskyldan er dugleg að hlusta á tónlist saman og dansa. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég gerði það mömmulegasta sem ég hef gert um daginn þegar ég bjó til sameiginlegt skjal sem við getum bæði skoðað í símanum. Það heitir „Umræðuefni sem við náum ekki að tala um“. Þá setjum við öll umræðuefnin sem við náum ekki að tala um inn í skjalið og þá þurfum við ekki að tala um þau þegar við eigum þessar stuttu stundir saman. Það er svo ömurlegt að vera komin upp í rúm á kvöldin og þá þurfum við að tala um fjölskyldumál. Það finnst mér voðalega þægilegt og mæli með fyrir foreldra. Svo er eitt sem mér fannst ótrúlega asnalegt en við höfum haldið í og það er að Ísak á föstudagskvöld og ég á laugardagskvöld. Ef ekkert annað kemur upp á þá vitum við að hann fær að plana eitthvað á föstudagskvöldum með vinum sínum og ég er heima með stelpurnar og hann fær að sofa út daginn eftir og ég á laugardagskvöldin,“ segir Steinunn sem segir einnig allt verða bærilegra ef þau taka til í tíu mínútur á kvöldin.

Annars nýtur fjölskyldan þess að vera saman og þá þarf ekki að gera eitthvað flókið eða kosta miklu til. „Mér finnst skemmtilegast að fara í bíltúr með fjölskyldunni. Við förum upp í sveit og borðum samlokur þar, það finnst mér mjög skemmtilegt.“

Elur börnin upp í ævintýraheimi

Steinunn og Ísak fylgja ekki ákveðinni uppeldisaðferð en tónlist og skapandi hugsun ræður för á heimilinu.

„Við hlustum mikið á tónlist hérna heima. Þeim finnst gaman að dansa. Við gerum alls konar hluti sem mér finnst eðlilegir. Til dæmis, þegar við erum búin að borða kvöldmat, þá setjum við á einhverja skemmtilega tónlist og dönsum. Okkur finnst gaman að fara á tónleika saman og stundum þegar ég spila á tónleikum sem dj. Flugvél og geimskip þá kemur Eldey hlaupandi upp á svið og dansar með mér. Mér finnst það bara krúttlegt. Mig langar til að þær upplifi ævintýri í lífinu. Við eigum mjög litríkt heimili, málum allt í litum og það er mikið um skraut sem mér finnst gaman að horfa á. Ég á frænku sem sagði: „Ef stelpurnar alast upp á þessu heimili þá eiga þær alltaf eftir að halda að lífið sé ævintýri! Ég sagði: „Já en lífið er ævintýri.“ Ég el þær þannig upp. Þegar við Eldey göngum í leikskólann þá skoðum við náttúruna og tökum eftir einhverju fallegu í kringum okkur, segir Steinunn sem er einnig dugleg að segja dætrum sínum sögur. Þau Ísak breyttu nýlega kvöldmatartímanum í sögustund til að fá eldri stelpuna sína til að koma að borða kvöldmat.

„Einhver sagði að Eldey ætti að læra dans af því að henni finnst svo gaman að dansa. En hún er svo lítil, henni finnst bara gaman að dansa og mér finnst fínt að við dönsum saman, segir Steinunn, sem kann þó líka að meta hefðbundnar tómstundir og agann sem fylgir þeim. Eldri dóttir þeirra byrjaði í Suzuki-tónlistarnámi í haust. Hún lærir þar á fiðlu, rétt eins og Steinunn gerði sjálf þegar hún var lítil stelpa. Í tónlistarnáminu lærði Steinunn fleira en bara að spila á hljóðfæri og vonast til að dóttir sín læri það líka.

„Það kenndi mér eitt sem er sérstaklega mikilvægt í dag. Það er að hlutirnir gerast ekki af sjálfum sér. Maður þarf að hafa fyrir því ef mann langar að geta gert eitthvað í lífinu, klárað nám, haldið út vinnudaginn, vinasambandi eða einhverju verkefni í lífinu. Það þarf ekki að vera fiðlunám, bara eitthvað. Það er ekkert auðvelt fyrst, það tekur tíma. Mér fannst fiðlunámið svo verðmætt, segir Steinunn sem ætlar þó ekki að pressa á dætur sínar að verða listamenn í framtíðinni. Hún segir að ef þær vilji verða lögfræðingar eða vinna í banka ætli hún ekki að standa í vegi fyrir því, sama þótt það veki ekki áhuga hennar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »