Öllum var sama um óléttuna

Greta Gerwig er ólétt að sínu öðru barni.
Greta Gerwig er ólétt að sínu öðru barni. AFP

Leikkonan og leikstjórinn Greta Gerwig á von á sínu öðru barni með Noah Baumbach. Gerwig sagði frá óléttunni í viðtali við Jimmy Fallon en segist hafa frumsýnt óléttukúluna á viðburði nýlega en enginn hafi tekið eftir því.

„Ég fór á viðburð nýlega og klæddist einhverju og ég hélt að allir myndu hafa áhuga á því að ég ætti von á barni, en öllum var alveg sama. Það voru ekki sagðar fréttir af því,“ sagði Gerwig og grínaðist með að greinilegt væri að enginn veitti henni eftirtekt.

Fyrir eiga þau Gerwig og Baumbach þriggja ára son sem heitir Harold. Þau greindu ekki frá því opinberlega að hún væri ólétt að honum á sínum tíma. Harold litli kippir sér lítið upp við að verða stóri bróðir, en Gerwig sagði að það væri auðvitað erfitt fyrir lítinn þriggja ára mann að meðtaka eitthvað sem væri ekki enn beint fyrir framan hann.

mbl.is