Lyfjameðferð hefði ekki bjargað syninum

Nick Cannon segir lyfjameðferð ekki hafa getað bjargað syni hans …
Nick Cannon segir lyfjameðferð ekki hafa getað bjargað syni hans Zen.

Bandaríski skemmtikrafturinn Nick Cannon segir að lyfjameðferð hefði ekki getað bjargað syni sínum og Alyssu Scott. Cannon og Scott eignuðust soninn Zen á síðasta ári og lést hann aðeins fimm mánaða gamall úr krabbameini í heila. 

Cannon ræddi um greiningu og andlát sonar síns í þættinum The Checkup with Dr. David Agus. Zen litli lést í desember fyrir ári. 

„Að sjá son sinn tengdan við öll þessi tæki, hann þurfti stuð tvisvar eða þrisvar sinnum, það var hræðilegt í hvert einasta skipti. Jafnvel á þessum stutta tíma gat ég ekki ímyndað mér að láta hann ganga í gegnum lyfjameðferð,“ sagði Cannon. 

Hann segir lækna hafa sagt þeim að ólíklegt væri að lyfjameðferð gæfi honum mikið meiri tíma. Lífslíkur hans væru í besta falli þrjú til fjögur ár. Hann segir að þau Scott hafi ákveðið að veita honum hin mestu lífsgæði þann stutta tíma sem hann átti eftir.

Cannon þekkir lyfjameðferð af eigin reynslu, en hann hefur þurft að fara í meðferð vegna sjálfsofnæmissjúkdóms. „Ég missti hárið. Ég get varla kallað það sársauka, þetta saug bara allt úr mér. Ég gat ekki ímyndað mér að láta nýfætt barn ganga í gegnum það og hvað það myndi gera honum,“ sagði Cannon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert