Afskekkt náttúruperla

Falklandseyjar eru í Suður-Atlantshafi, við strendur Argentínu.
Falklandseyjar eru í Suður-Atlantshafi, við strendur Argentínu. Mynd/Getty

Margir láta sig dreyma um frí á suðrænum eyjum, flatmaga í sólinni með svalandi drykk, en sjaldan innihalda slíkir dagdraumar um suðrænar eyjur mörgæsir. Falklandseyjar eru eyjaklasi í Suður-Atlantshafi og heldur sunnar en flestir eiga að venjast. Klasinn er austan stranda Argentínu, rúmlega 13 þúsund kílómetra frá Íslandi. Eyjarnar hafa skapað sér nafn sem heimili einstaks dýralífs og stórbrotinnar ómengaðrar náttúru og hafa verið vinsæll ferðamannastaður fyrir ævintýragjarna. Þessar myndrænu eyjar eru í senn framandi og kunnuglegar, þar sem þær eru hluti af bresku yfirráðasvæði og bresk menning, í bland við suðurameríska menningu, er ríkjandi á eyjunum.

Falklandseyingar búa í sátt og samlyndi með framandi dýrum.
Falklandseyingar búa í sátt og samlyndi með framandi dýrum. mynd/getty

Langferðin þess virði

Til að komast til Falklandseyja þarf annaðhvort að millilenda í höfuðborg Síle, Santiago, eða ferðast hina svokölluðu loftbrú, sem er flug á vegum breska varnarmálaráðuneytisins. Auk þess fara fjölmörg skemmtiferðaskip þar framhjá.

„Þótt það sé vesen að komast til Falklandseyja er það klárlega þess virði,“ segir Íslandsvinurinn Byron Stewart-Reid, sem er fæddur og uppalinn í Stanley, höfuðborg Falklandseyja. „Ef þú kemur á réttum árstíma geta eyjarnar verið einn af bestu stöðum í heimi til að fara í frí til,“ bætir hann við.

Náttúran á eyjunum er stórbrotin og státa þær af einstöku lífríki, loðselir og sæfílar hópast saman á ströndum, þyrpingar albatrosa veiða sjaldgæfa smáfiska í sjónum og fimm mismunandi tegundir af mörgæsum eiga aðsetur á eyjunum.

„Það vinsælasta til að gera á eyjunum er að skoða mörgæsir, þær er að finna á víð og dreif um eyjuna og það er mjög magnað að sjá þær með berum augum.

Eyjurnar eru einnig kjörnar fyrir göngu- og veiðimenn, en stærsta aðdráttaraflið er náttúran,“ segir Stewart-Reid.

Fáni Falklandseyja er dæmigerður fyrir yfirráðasvæði Breta.
Fáni Falklandseyja er dæmigerður fyrir yfirráðasvæði Breta. Mynd/Getty

Bresk menning með tvisti

Falklandseyjar eru hluti af yfirráðasvæði Breta, en Argentínumenn hafa einnig lengi gert tilkall til eyjanna. Deilur Bretlands og Argentínu um Falklandseyjar hafa staðið yfir frá nítjándu öld og náðu hápunkti í apríl 1982 þegar Argentínumenn gerðu innrás og hernámu eyjarnar. Eftir hið 74. daga Falklandseyjastríð endurheimtu Bretar yfirráð á svæðinu.

Bresk menning er ríkjandi á eyjunum, breskur matur á borð við fisk og franskar, kindakjöt og te er afar hefðbundinn, og eiga Falklandseyingar sína eigin útgáfu af breskum morgunmat, sem inniheldur, auk eggja og beikons, kótelettur.

Víða gætir þó suðuramerískrar menningar í bland við þá bresku, spænskur matur er víða á boðstólum og fjölmörg orð í tungumálinu eru tökuorð frá spænsku. Þar má helst nefna orðið „camp“ sem notað er í daglegu tali yfir sveitir Falklandseyja, en orðið er komið af spænska orðinu yfir sveit: „campo“.

Kóngamörgæsir ráfa um strendur Falklandseyja.
Kóngamörgæsir ráfa um strendur Falklandseyja. Mynd/Getty

Langflestir íbúar Falklandseyja búa í þéttbýliskjörnum á borð við Stanley og Port Howard og restin á sveitabæjum og kofum í sveitunum. „Þar búa nokkur hundruð manns á landsvæði á stærð við Belgíu,“ segir Stewart-Reid.

Besti tíminn til að ferðast til Falklandseyja er á sumrin, sem vegna staðsetningar eyjanna er á milli október og mars. Hlýjustu mánuðir ársins eru janúar og febrúar, en þá er meðalhitastig í kringum 10°C, á meðan meðalhiti köldustu mánaða ársins, júní, júlí og ágúst, er í kringum 2°C.

Flestir ferðamenn koma til eyjanna til að sjá mörgæsir.
Flestir ferðamenn koma til eyjanna til að sjá mörgæsir. mynd/Getty

Íslenskt vandamál

Ferðamennska hefur aukist gríðarlega á síðustu árum á Falklandseyjum. Árið 2010 komu í kringum 500 ferðamenn til eyjanna, en áratug seinna, árið 2015, voru ferðamennirnir orðnir rúmlega 60 þúsund.

„Oft og tíðum fjölgar fólki á eyjunum um meira en helming á einum degi, þegar skemmtiferðaskip koma í höfn,“ segir Stewart-Reid, en ferðamennska hefur orðið einn stærsti hlutinn í hagkerfi eyjanna.

Í kjölfarið hafa Falklandseyjingar þurft að glíma við vandamál sem við á Íslandi þekkjum betur en við kærum okkur um, líkt og slæma umgengni ferðamanna og sóðaskap.

Íbúar Falklandseyja eru aðeins í kringum þrjú þúsund, en tæplega 20 sinnum fleiri ferðamenn heimsækja eyjarnar á ári hverju.

Til að sporna við þeim vandamálum sem fylgja aukinni ferðamennsku hafa óformlegar hegðunarreglur verið settar sem ferðamenn eru beðnir um að fylgja. Samkvæmt þeim eru ferðamenn til dæmis beðnir um að halda sig við vegi, gefa villtum dýrum ekki mat, tína ekki blóm – þar sem þau gætu verið friðuð – og flytja ekki bein, egg eða slíkt úr landi.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert