Brighton í boði Elínar Arnar

Elín Arnar býr og starfar í Brighton.
Elín Arnar býr og starfar í Brighton. Ljósmynd/Johan Robach

„Það sem mér finnst best við staðsetninguna er að þetta er eins og að búa í litlu gamaldags þorpi þar sem þú ert með pósthús, slátrara, bakara, ostabúð, apótek og alla helstu þjónustu í litlum sérhæfðum búðum. Minnir svolítið á gamla daga áður en stórmarkaðir og keðjur tóku yfir. Það finnst mér mikill sjarmi.“

Brighton er afskaplega sjarmerandi borg.
Brighton er afskaplega sjarmerandi borg. Ljósmynd/Oleksandr Samoylik

Elín flutti út fyrir tæpum fimm árum, þá fyrst og fremst til að verja fæðingarorlofinu sínu eftir að hún eignaðist yngri dóttur sína. „Svo er alltaf eitthvað sem verður til þess að ég ílengist en ég er búin að vera á leiðinni heim síðan ég kom og hefur aldrei staðið til að flytja alveg frá Íslandi. Kærastinn minn leitar að vinnu heima og vil ég nýta tækifærið og óska eftir vinnu fyrir hann,“ segir Elín sem í dag starfar sem ritstjóri veftímaritsins Brighton Journal en tímaritið fjallar um allt það helsta sem er að gerast í borginni. Það er því vel við hæfi að spyrja Elínu spjörunum úr um sína eftirlætisstaði í borginni.

Hver er eftirlætisveitingastaðurinn þinn?

„Það eru svo margir og erfitt að velja einn en sennilega hef ég fengið mestu matarfullnæginguna á Ginger Man sem er lókal veitingastaður sem notið hefur svo mikilla vinsælda að ég held að þeir séu orðnir þrír núna. Það er staður í fínni kantinum sem sérhæfir sig í traditional evrópskri matargerð með “fusion” ívafi. Hins vegar ef maður vill létta budduna minna þá er Chilli Pickle með dásamlegan indverskan mat og hefur unnið til fjölda verðlauna. Og ef þú vilt prófa aðeins öðruvísi mexíkóskan mat þá mæli ég með stað sem heitir Wahaca. Besti brönchinn er svo á Bills. Ég bara get ekki staðist að nefna fleiri en einn stað. Og jú svo er The Ivy in The Lanes í miklu uppáhaldi og þar er smartasta “powder room” veraldar.“

Hvert er þitt eftirlætiskaffihús?

„Það heitir Marwood og er mjög sérstakt kaffihús sem er falið í mjóu sundi í The Lanes. Það er eins hipster og það getur orðið en þar er gott kaffi og mjög skemmtilegt skapandi umhverfi. Þar er alltaf vel tekið á móti manni því starfsfólkið er alltaf í svo miklu stuði (alvöru stuði, enginn að þykjast að vera hress, hvernig þau fara að því öllum stundum er mér hulið). Þar er líka einn frumlegasti vatnskrani sem ég hef drukkið úr. Dætur mínar elska hins vegar Cloud 9 en þar fást cupcakes í öllum regnbogans litum. Þegar ég vil gera vel við þær þá förum við þangað en þar eru líka litir og litabækur og gott pláss til að vera með börn. Og af því ég er að minnast á börn þá verð ég að nefna annað kaffihús á ströndinni sem er fullkomið til að allir geti notið sín. Það heitir Yellowave og er með mjög næs útiaðstöðu með borðum og stólum í kringum risastóran sandkassa þar sem börnin geta spriklað og leikið.“

Bryndís og Mínerva, dætur Elínar, spóka sig við Undercliff á …
Bryndís og Mínerva, dætur Elínar, spóka sig við Undercliff á balletskóm. Ljósmynd/EA

Hvert er þitt eftirlætissafn?

„Þegar kemur að list “Phoenix” og þegar kemur að sögu “The Pavilion”. Þegar maður ver lengri tíma erlendis þá tekur maður á móti fjölda gesta frá Íslandi og því hef ég farið ansi oft í Pavilion. Ég verð að segja að ég læri eitthvað nýtt í hvert sinn.“

Hvernig lítur draumadagurinn þinn út í borginni?

„Draumadagurinn minn er að spila strandblak í nokkra klukkutíma á góðum sumardegi. Grilla svo á ströndinni eftir að hafa skolað af sér sandinn í sjónum og njóta matar og víns í góðum félagsskap. En fyrir gestkomandi sem stoppa stutt þá mæli ég með að byrja kannski daginn á einhvers konar activity, mögulega paddle boarding, byrjendatíma í strandblaki eða fara á kajak meðfram ströndinni og í kringum Pier. Ég mæli líka alltaf með göngu meðfram ströndinni. Þar eru barir og veitingastaðir, litlar búðir og þar iðar allt af lífi á sumrin. Á aðra höndina ertu með glæsilegar Regency-byggingar sem prýða borgina meðfram ströndinni og á hina ströndina og hafið. Um hádegisbil er kjörið að setjast með fish and chips á ströndina. Verja svo eftirmiðdeginum í að spóka sig um milli lítilla verslana og kaffihúsa í the Lanes en þar flýgur tíminn þar sem það er svo margt að skoða. Um kvöldið er svo hægt að borða á góðum veitingastað og skella sér annaðhvort á tónleika í Concorde 2 eða uppistand í Komedia. Ef þú ert í stuði fyrir djamm þá er bar eða klúbbur liggur við hvert sem farið er.“

Mermaid March er opinber dagur hafmeyja og -peyja og sjávarskrímsla …
Mermaid March er opinber dagur hafmeyja og -peyja og sjávarskrímsla af ýmsu tagi. Ljósmynd/Dominic Alves

Hvað er ómissandi að sjá?

„Þetta helsta er The Pier, strandlífið, The Lanes og Pavilion. Það er líka gaman að spóka sig í Kemptown Village þar sem ég bý. Þar er mikið af second hand-búðum bæði með fötum og húsgögnum. Devils Dyke er líka skemmtilegur viðkomustaður með útsýni yfir Downs eða að ganga eða hjóla undir hvítum klettum meðfram sjónum yfir í lítið sætt þorp hérna rétt hjá sem heitir því undarlega nafni Rottingdean.“

Elín hvetur sem flesta til að mæta á The Naked …
Elín hvetur sem flesta til að mæta á The Naked Bike Ride sem fer fram í júní. Ljósmynd/EA

Er eitthvað spennandi að gerast í borginni á næstunni?

„Hér er alltaf eitthvað að gerast á hverjum degi og einhvers konar festival hverja helgi sérstaklega yfir sumarið. Það erfitt að fylgjast með öllu og maður rambar á hinar ótrúlegust hátíðir og skrúðgöngur t.d The March of the Mermaids, Brighton Mod Weekender, Volkswagen-rúgbrauð hátíð og það er ekki hægt að telja allt upp hér það er svo margt. Hins vegar er maí kannski sá mánuður þar sem öll borgin er undirlögð af alls kyns viðburðum hvert sem farið er vegna Brighton Fringe og Brighton Festival. Það eru tvær stórar árlegar listahátíðir sem fagna öllum listformum allan mánuðinn. Svo er Naked Bike Ride 9. júní næstkomandi. Allir að mæta!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert