Frisbí með ferskum Blæ

Menn eru alltaf í boltanum á Copacabana-ströndinni.
Menn eru alltaf í boltanum á Copacabana-ströndinni. Ljósmyndir/Bogi Bjarnason

Bogi Bjarnason hefur verið duglegur að sækja alþjóðleg mót í frisbígolfi á umliðnum árum og misserum og þegar honum bauðst að taka þátt í móti í Brasilíu í síðasta mánuði lét hann ekki segja sér það tvisvar. Ekki spillti fyrir að hann gat tengt mótið við annað mót, Opna spænska mótið í frisbígolfi, í sömu ferðinni en Bogi hafði tekið þátt í því móti þrisvar áður.

Blær Örn Ásgeirsson leggur dræv framhjá kvöðinni á 18. holu …
Blær Örn Ásgeirsson leggur dræv framhjá kvöðinni á 18. holu á Parque Purificación Tomás íOviedo á Spáni, þar sem IV Open de España fór fram. Ljósmyndir/Bogi Bjarnason

„Ég hafði aldrei komið til Suður-Ameríku og gat ekki látið mér þetta tækifæri úr greipum ganga; það er heldur ekki eins og mótin séu þar á hverju strái en völlurinn, sem er í Piracicaba, mun vera sá eini sinnar tegundar í allri álfunni,“ segir Bogi.

Eftir langt og strangt ferðalag með millilendingu í Madríd og Casablanca lenti Bogi, sem var einn á ferð, í São Paulo í Brasilíu. Á flugvellinum vippaði hann sér upp í Uber-bíl og bað um að sér yrði skutlað til Piracicaba. Bílstjórinn talaði á hinn bóginn enga ensku og litla spænsku, þannig að Bogi endaði á allt öðrum stað. Eftir að greitt hafði verið úr flækjunni komst hann loks á áfangastað – 53 klukkustundum eftir að hann lagði af stað frá Íslandi.

Ódýrt útsýni af dýrari gerðinni af húsþaki í Rocinha-favellunni í …
Ódýrt útsýni af dýrari gerðinni af húsþaki í Rocinha-favellunni í Rio de Janeiro. Ljósmyndir/Bogi Bjarnason

Svæðið sem hann var á í Piracicaba var afgirt og enginn hægðarleikur að komast þaðan út og inn. „Mér leið eins og ég væri staddur á Kvíabryggju,“ segir Bogi hlæjandi. Fjarskipti voru heldur varla í boði en Bogi komst að því að 1 GB í símann myndi kosta hann litlar 2,6 milljónir króna. „Ég var því með símann á flugstillingu í tæpar tvær vikur. Komst að vísu annað slagið í wi-fi í sumarhúsi við keppnissvæðið.“

Bogi Bjarnason með Spirit of the Game-verðlaunin sín ásamt Taiju …
Bogi Bjarnason með Spirit of the Game-verðlaunin sín ásamt Taiju Laakso, sigurvegaraí kvennaflokki, á Opna brasilíska mótinu í frisbígolfi í síðasta mánuði. Ljósmynd/Bogi Bjarnason

Mótið fór vel fram og voru keppendur tæplega þrjátíu talsins, frá hinum ýmsu þjóðlöndum.

Úr því hann var kominn til Brasilíu langaði Boga vitaskuld að skoða sig aðeins um og tók því, að móti loknu, flug til Rio de Janeiro og kom sér þar makindalega fyrir á fínu hóteli tveimur húsalengdum frá Copacabana-ströndinni frægu.

Bogi kunni vel við sig í Rio en segir ekki hlaupið að því að komast einn og óstuddur á viðburði; þannig þurfti hann að kaupa sig inn í hópferð um borgina til að fá miða á Maracana-fótboltavöllinn. Ekki var viðlit að kaupa miða með öðrum hætti.

Eftir viku í góðu yfirlæti í Rio flaug Bogi sem leið lá til Casablanca í Marokkó og náði að stoppa þar í tæpan sólarhring. „Ég var á góðu hóteli og ákvað að panta bíl gegnum það til að skoða mig um í borginni. Brá þó í brún þegar bíllinn mætti; eldgamall og hékk bara saman á lyginni. Vírar stóðu út úr hjólbörðunum og ég veit ekki hvað. Þennan bíl afþakkaði ég og samdi í staðinn við leigubílstjóra um að fara með mig í skoðunarferð. Falleg borg, Casablanca.“

Adriano Medola mótshaldari kastar á holu 2 á vellinum í …
Adriano Medola mótshaldari kastar á holu 2 á vellinum í Colinas do Piracicaba undir vökulu augu sigurvegarans, Tapani Aulu frá Finnlandi. Ljósmynd/Bogi Bjarnason

Eftir þetta stutta stopp í Casablanca flaug Bogi til Madrídar, þar sem hann hitti fimm félaga frá Íslandi, sem einnig voru á leið á Opna spænska mótið í frisbígolfi. Þaðan héldu þeir saman til Oviedo, þar sem mótið fór fram.

Fremstur meðal jafningja í þeim ágæta hópi er sextán ára gamall piltur, Blær Örn Ásgeirsson, sem keppir í úrvalsflokki. Leiknar eru þrjár umferðir á mótum sem þessum, á átján holu völlum og vegnaði Blæ strax prýðilega fyrsta daginn, var í öðru sæti. Næsta dag fór Blær hins vegar á kostum og var með þriggja kasta forskot á næsta mann eftir aðra umferðina, af tæplega 100 þátttakendum. „Hann setti met þennan dag, miðað við það „layout“ sem farið er eftir, en brautin getur verið breytileg. Blær lét rigna eyðileggingu yfir völlinn,“ segir Bogi, stoltur af sínum manni en hann er umboðsmaður Blæs.

Blær setti öryggið á oddinn í lokaumferðinni og stóð uppi sem sigurvegari á mótinu. Bætti því gulli við sigur á Opna breska mótinu í fyrra, þegar hann var aðeins fimmtán ára.

„Blær er að etja kappi við bestu spilara í Evrópu á þessum mótum og á bjarta framtíð fyrir sér,“ segir Bogi en Bandaríkjamenn hafa löngum borið höfuð og herðar yfir aðra í greininni enda á hún rætur að rekja þangað. „Byrjað var að keppa á mótum fyrir rúmum fjörutíu árum en hipparnir byrjuðu á þessu ennþá fyrr – sér til dægrastyttingar og yndisauka,“ segir Bogi.

Skellinöðruskutlarar í Rochina-fátækrahverfinu leggja fákunum og fara í mat.
Skellinöðruskutlarar í Rochina-fátækrahverfinu leggja fákunum og fara í mat. Ljósmynd/Bogi Bjarnason

Framundan hjá Blæ á árinu eru mót í Skotlandi og Hollandi og EM og HM, sem fram fer í Illinois í Bandaríkjunum. Spurður um möguleika Blæs þar segir Bogi raunhæft að stefna á topp 30 í þessari lotu.

Ferðalög sem þessi eru ekki ókeypis en Blær og tveir aðrir Íslendingar, Mikael Máni Freysson og Andri Fannar Torfason, eru styrktir af Innova, markaðsráðandi fyrirtæki í greininni, auk þess sem Bogi hefur staðið fyrir fjáröflun, s.s. með því að halda styrktarmót. „Markmiðið er að Blær verði atvinnumaður í frisbígolfi þegar hann lýkur menntaskóla. Hann hefur alla burði til þess.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »