Lykilatriði að hugsa jákvætt

Nemandi fær tilsögn hjá Ragnhildi. Gaman er að heyra smellinn …
Nemandi fær tilsögn hjá Ragnhildi. Gaman er að heyra smellinn í kúlunni eftir vel heppnaða sveiflu, en ekki má vanrækja stutta spilið. Ljósmynd/Hari

Golfbakterían getur verið skæð og er yfirleitt ólæknandi þegar fólk smitast á annað borð. Golfið hefur það jú umfram flestar aðrar íþróttir að iðkendur geta verið virkir í golfinu allt frá grunnskólaaldri fram á efri ár. Aðstæður til golfiðkunar og -þjálfunar hafa líka aldrei verið betri svo að meira að segja á kalda Íslandi má vinna að því árið um kring að bæta sveifluna og fullkomna púttið.

Ragnhildur Sigurðardóttir, margfaldur Íslandsmeistari í golfi og golfkennari með meiru, lumar á nokkrum góðum ráðum fyrir þá sem vilja lækka hjá sér forgjöfina. Aðalatriðið er, merkilegt nokk, ekki að djöflast og pína sjálfan sig heldur þvert á móti að muna að njóta golfsins: „Kylfingurinn þarf bæði þrjósku, þolinmæði og auðmýkt í miklu magni, og má líka alls ekki gleyma að hafa það skemmtilegt. Það ætti ekki að stunda golf af einhverri skyldurækni, heldur finna gleðina í sportinu, njóta þess að vera lifandi og gleðjast yfir því þegar tækifæri gefst til að stunda þessa frábæru íþrótt.“

Sjálf leggur Ragnhildur mikið upp úr því sem kylfingur að móta með sér rétta hugarfarið. „Þegar kapp hleypur í okkur, hvort heldur í æfingum eða á mótum, þá erum við oft okkar versti óvinur, ráðumst á okkur með skömmum og jafnvel svívirðingum, svo við verðum ósátt, leið og fúl, spenna hleðst upp í líkamanum sem hefur mjög neikvæð áhrif á útkomuna. Lykilatriði í keppni og í þjálfun er að hugsa jákvætt og hafa gaman af alveg eins og í lífinu sjálfu,“ segir Ragnhildur og gefur kylfingum það ráð að tala við sjálfa sig eins og þeir myndu tala við börnin sín: með hlýju og ástúð á uppbyggilegum nótum.

Æfa sig allt árið

Ekkert lát virðist ætla að verða á golfáhuga landsmanna og meira en nóg að gera hjá golfskóla Ragnhildar (www.apari.is) þar sem hún býður bæði upp á einstaklingsmiðaða þjálfun árið um kring og lengri golf-ferðir til Spánar þar sem hægt er að verja blíðviðrisdögum á golfvellinum nánast frá lendingu og fram að flugtaki. „Jafnvel yfir kaldasta tíma ársins er nóg að gera í kennslunni og greinilegt að fólk vill vera klárt fyrir sumarið,“ segir hún og bendir á að bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni megi æfa golf innan- og utandyra yfir vetrarmánuðina og ekkert því til fyrirstöðu að heimsækja æfingasvæðið eins og t.d. í Básum í Grafarholti þó úti sé djúpt lag af snjó.

Þá er heldur enginn hörgull á golfvöllum og mælir Ragnhildur með að þeir sem eru að stíga fyrstu skrefin hefji golfferilinn á viðráðanlegum byrjendavöllum eins og við Korpúlfsstaði, Keili og Hveragerði svo þeir geti náð tökum á íþróttinni í meiri rólegheitum.

Ragnhildur segir algengt að konur sem byrja í golfi fái …
Ragnhildur segir algengt að konur sem byrja í golfi fái að láni kylfur sem eru of stórar og of stífar. Búnaðurinn þarf að hæfa kylfingnum. Ljósmynd/Hari

Grunnatriðin skipta máli

Fyrir utan jákvæða viðhorfið segir Ragnhildur að til að ná betri árangri sé upplagt að bóka tíma hjá kennara, þó að ekki væri nema til að fara vandlega í grunnatriðin. „Fólk áttar sig oft ekki á því að það getur tekið langan tíma að vinna með grunninn, en ef því er sinnt sést það fyrr en fólk grunar í frammistöðunni úti á golfvellinum. Að halda rétt og standa rétt er það mikilvægasta. Jafnvægið verður að vera gott og þegar reitt er til höggs þarf að muna að slá ekki af öllum lífs og sálar kröftum.“

Þá segir hún að aldrei sé of seint að fara til þjálfara og að því fari fjarri að fólk sem hafi kennt sjálfu sér leikinn sé búið að venja sig á ósiði sem ekki megi laga. „Í raun þarf það ekki að taka langan tíma að breyta og bæta helstu mistökin hjá þeim sem hafa spilað golf lengi en ekki fengið neina tilsögn. En fólk þarf þó alltaf að vera tilbúið að æfa sig og leggja rækt við grunninn sinn, því ekkert af þessu gerist af sjálfu sér.“

Liðleiki og jafnvægi

Ragnildur ráðleggur kylfingum að hafa mælanleg æfingamarkmið svo hægt sé að sjá framfarirnar betur. „Ekki skemmir fyrir að spila með góðu fólki og má prufa leiki eins og Texas Scramble til að gera byrjunina auðveldari en þar vinnur allur hópurinn saman að því að fá sem best skor.“

Ekki sakar heldur að hafa púttmottu uppi við, og pútter í viðbragðsstöðu upp við vegg, inni á skrifstofu. „Púttin eru stystu höggin en jafnframt þau sem geta brotið sjálfstraustið á bak aftur. Þeim er sjaldnast sinnt nægilega hjá hinum almenna kylfingi. Ef fólk á æfingatæki þá eru meiri líkur á að þau séu notuð ef þau eru til taks, frekar en inni í geymslu. Má jafnvel æfa gripið og taka nokkrar sveiflur með stuttri kylfu heimavið ef hátt er til lofts, vítt til veggja og engin hætta á að rekast utan í lampa eða ljósakrónur.“

Loks hjálpar í golfinu, eins og öllum öðrum íþróttum, að vera í ágætis formi. „En mestu skiptir að hafa góðan liðleika og jafnvægi, og ættu líkamsræktaræfingar að vinna með þá hluti til viðbótar við styrkinn,“ útskýrir Ragnhildur og bendir á að hér og þar sé boðið upp á líkamsræktar- og jógatíma sem sniðnir eru sérstaklega að þörfum golfiðkenda.

Ef það er eitthvað sem áhugafólk í golfi á það til að vanrækja þegar komið er á æfingasvæði golfklúbbanna, þá er það að æfa stutta spilið. Ragnhildur segir afar vinsælt hjá hinum almenna kylfingi að æfa löngu höggin en það sé stutta spilið sem skilji á milli þeirra sem fagna sigri og þeirra sem þurfa að lúta í gras. „Púttin og vippin vilja oft gleymast, og sést það sorglega oft á skorkortinu hjá mörgum.“

Velji kylfur við hæfi

En hve miklu máli skiptir síðan að fjárfesta í nýjasta og fullkomnasta búnaði? Framleiðendur kynna reglulega til leiks háþróaðar og fullkomnar kylfur sem eiga að gera kraftaverk – og kúlur sem eiga að fara rakleiðis þangað sem kylfingurinn ætlast til. Ragnhildur segir búnaðinn skipta máli og aðalatriðið vera að hver og einn sé með kylfur við hæfi. „Byrjendur ættu ekki að kaupa sér ódýrasta settið í búðinni, nema það passi, og undir öllum kringumstæðum ættu byrjendur að leita sér ráðgjafar varðandi kaupin hvort sem velja á nýtt sett eða notað,“ útskýrir Ragnhildur. „Byrjendum ráðlegg ég líka að velja ódýra bolta, því meðan tækninni er ábótavant eiga þeir til að svífa í allar áttir og týnast. Það er engin ástæða til að eyða miklu í bolta sem hverfa ofan í tjörn eða inn í runna.

Svo er að mun að vera til fyrirmyndar úti á golfvellinum: „Vilji fólk afla sér vinsælda er brýnast af öllu að kunna að leika rösklega og hafa þægilega nærveru. Það er mun mikilvægara en að vera tæknilega vel staddur. Sé fólk ekki að tefja og láti skapið ekki hlaupa með sig í gönur, getur það spilað golf með hverjum sem er.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert