Ferð fyrir ævintýragjarna hlaupara

Leiðin um Laugaveginn er óskaplega falleg.
Leiðin um Laugaveginn er óskaplega falleg. Ljósmynd/Náttúruhlaup.is

Að sögn Birkis Más Kristinssonar, eins skipuleggjenda ferðarinnar og þjálfara hjá Náttúruhlaupum, er heildarlengdin 54 km en hlaupið verður 27 km hvorn daginn. „Yfirleitt er Laugavegurinn genginn á þremur dögum en með því að skokka hann má fara hann á tveimur. Fyrir flesta er þetta heilmikil áskorun en á móti kemur að það er svakalega gaman að skokka og ganga svona fjölbreytta leið í frábærum félagsskap.“

Ýmsar skemmtilegar áskoranir eru á leiðinni.
Ýmsar skemmtilegar áskoranir eru á leiðinni. Ljósmynd/Náttúruhlaup.is

Aðspurður hvort ætlast sé til að þátttakendur hlaupi allan tímann segir Birkir vera í góðu lagi að ganga inn á milli, stoppa og njóta útsýnisins. „Þeir sem vilja fara hraðar, munu líka fá tækifæri til þess en við leggjum áherslu á að þetta er ekki keppni heldur reynum við að fá eins mikið út úr upplifuninni og mögulegt er. Við leiðsögumennirnir erum allir mjög vanir að stýra hraðaskiptum hópum en auk mín verða Gunnur Róbertsdóttir og Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé með í för.

Mikil eftirspurn í Laugavegshlaupið

Sífellt meiri spurn er eftir því að taka þátt í Laugavegshlaupinu en þá eru allir 54 km kláraðir á einum degi og segir Birkir ferðina upplagða fyrir þá sem stefna á að taka þátt í hlaupinu að ári. „Þetta er upplögð ferð til þess að skoða leiðina í rólegheitum og finna hvernig er að hlaupa hana en ekki síður fyrir alla aðra sem eru í formi til þess að fara þetta. Laugavegurinn er ótrúlega falleg leið sem allir sem geta verða að fara. Fyrir þá sem hafa gengið Laugaveginn, er mun skemmtilegra að skokka og vera laus við þungan bakpoka, en farangurinn verður trússaður.“

Skemmtileg áskorun fyrir hlaupara.
Skemmtileg áskorun fyrir hlaupara. Ljósmynd/Náttúruhlaup

Þátttakendur þurfa þó ekki að hafa hlaupið 27 km á einum degi áður en þurfa þó að hafa nokkuð ágætan hlaupagrunn. „Gott er að hafa farið a.m.k. 20 km í einu áður og ekki verra að hafa reynslu af náttúruhlaupum og/eða fjallgöngum. Við hjálpum svo til með hlaupaáætlun fyrir þá sem vilja til að koma sér í betra form fyrir ferðina.“

Farið verður í sameiginlegri rútu frá Reykjavík að Landmannalaugum og er fyrsta daginn hlaupið að Hvanngili þar sem gist verður í fjallakofa. „Þar eru kojur og margir saman í herbergi, fólk þarf að koma með eigin svefnpoka. Leiðsögumennirnir elda mat. Þetta er svakalega skemmtileg stemmning og fólk kynnist vel. Næsta dag klárum við svo leiðina og endum eftir aðra 27 km í Húsadal. Þar verður létt snarl í boði og hægt að fara i sturtu og gufu,“ segir Birkir. Þeir sem vilja fá nánari upplýsingar um ferðina geta skoðað hana hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert