Fallegasta sviðsmynd sem hægt er að hugsa sér

Ragnar Freyr ásamt þeim Elísabetu, leiðsögukonu, og Hlyn, skipstjóra hjá …
Ragnar Freyr ásamt þeim Elísabetu, leiðsögukonu, og Hlyn, skipstjóra hjá Norðursiglingu. Ljósmynd/Aðsend

„Við vorum áfram á Norðurlandi í þessum þáttum og Húsavík og Skjálfandi skörtuðu sínu fegursta. Við fengum Elísabetu, leiðsögumann, og Hlyn skipstjóra hjá Norðursiglingu til að sigla með okkur út í Naustavík í Náttfaravíkum. Þar í víkinni fyrir neðan Garðarshólma elduðum þorsk sem við veiddum í sjónum skammt fyrir utan víkina.  Við reistum eldstæði og eldunaraðstöðu með því að safna rekaviði saman og í fjöruborðinu elduðum við þennan spriklandi ferska þorsk „en papillote“ - sem þýðir að hann var pakkaður inn í álpappír, en ekki fyrr en hann hafði verið troðin með lauk, íslenskum tómötum og glás af ferskum kryddjurtum,“ segir Ragnar Freyr og bætir við að þorskurinn hafi verið borinn fram með geggjaðasta lauksmjöri sem hann hafi smakkað.

Þorskurinn með besta lauksmjöri sem þáttastjórnandinn hefur smakkað.
Þorskurinn með besta lauksmjöri sem þáttastjórnandinn hefur smakkað. Ljósmynd/Aðsend

Ragnar Freyr segir Naustavík ótrúlegan stað og það sé eiginlega ekki hægt að hugsa sér draumkenndari stað til að borða veislumáltíð á. „Það vitjaði okkar refur síðla kvölds og svo vöktu selir skammt fyrir utan víkina. Á heimleiðinni sá ég svo hnúfubakspar - og þar rættist svo sannarlega gamall draumur, en ég hef verið hvalaunnandi frá blautu barnsbeini en aldrei verið í svona mikilli nánd við þessar stórkostlegu skepnur.“

Rýnt á bakvið tjöldin þar sem verið er að undirbúa …
Rýnt á bakvið tjöldin þar sem verið er að undirbúa þorskinn í Naustavík. Ljósmynd/Aðsend

Í þættinum heimsækir Ragnar Freyr einnig þau Pál og Heiðbjörtu sem rækta tómata, papríkur, gúrkur, grænkál og chili á Hveravöllum. „Markmiðið var að taka snúning á íslensku kjötsúpuna en Páll plataði mig langt af leið og fékk mig til að prófa ýmiskonar hráefni sem ég hafði aldrei notað í kjötsúpu áður - enda fékk hún nafnið kjötsúpa með ólöglegu efni.“

Lambið og miðin verða í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans í kvöld og í kjölfarið má svo finna allar uppskriftir úr þættinum á vefsíðu Ragnars Freys.

mbl.is