Vistvæn ferðalög góð fyrir sálina

Verum meðvituð - tökum ábyrgð og njótum alls hins besta …
Verum meðvituð - tökum ábyrgð og njótum alls hins besta sem náttúran hefur upp á að bjóða - án þess að skaða hana. Ljósmynd/Úr einkasafni

Það eru nokkrir hlutir sem geta gert gæfumunin þegar við ferðumst - og það er í okkar höndum að reyna að vera meðvituð og velja betri kostinn. 

Á Íslandi er hægt að velja um nokkra ferðamáta - flugið er sísti kosturinn og ættum við því að reyna að finna aðrar leiðir til að ferðast um innanlands. Það er auðvitað umhverfisvænna að velja almenningssamgöngur, fara á vit ævintýranna og jafnvel láta það bara ráðast hvar er farið úr vagninum. Strætó er farinn að keyra vítt og breitt um landið og hvað er betra en að setjast bara í vagninn með bakpoka og sjá hvert leiðin liggur og hoppa úr og tjalda þar sem sólin er? 

Einkabíllinn hentar mörgum betur - og þá er lykilatriði að pakka sem minnstu í bílinn. Því þyngri sem bíllinn er því meiru eyðum við. Ef á að skreppa í stutta túra er gott að hafa bak við eyrað að því styttra sem ferðinni er heitið, því minni mengun verður af bílferðinni. 

Og auðvitað er alltaf gott að sameina í bíla ef farið er á t.d ættarmót - það að fækka bílferðum á þjóðveginum er alltaf gott mál. Góð leið til að kynnast fjarskyldum ættingjum er að bjóða þeim far á næsta ættarmót!

Svo þarf að borða á leiðinni - skipuleggið ferðalagið - útbúið nesti og hellið upp á kaffi á hitabrúsa. Fátt er jafn óþolandi og að kaupa óferskan mat, í einnota umbúðum og á uppsprengdu verði, á bensínstöðvum landsins. Munið eftir brúsa og verið óhrædd við að sækja ykkur ferskt ískalt vatn í sprænum landsins og bragðbætið að vild úr íslenskri náttúru, blóðberg, birkilauf, ber og hundasúra er alveg meiri háttar bragðbætir í flöskuna. Alls ekki kaupa vatn í plastbrúsum á ferðalögum. Ferskt vatn rennur út um allt land og bíður þess að við föngum það í nestisflöskurnar okkar.

Reynið að kaupa af heimamönnum þegar það er í boði - íslenska uppskeru. Ekki kaupa kjöt í öll mál og alls ekki henda matnum ykkar. Ekki stoppa í stórmarkaði og kaupa eins og þið séuð að fara í hellisdvöl í óbyggðum í margar vikur. Leyfið náttúrunni að njóta virðingar - munið að hún hefur verið hér mun lengur en við. 

Eftir rúntinn þarf að gista - það er auðvitað frábært og umhverfisvænt að tjalda úti í guðsgrænni náttúrunni, það er, ef maður velur réttu staðina þar sem má tjalda, skilur ekki eftir sig rusl og hefur ekki bílinn í gangi til að hlusta á útvarpið. Mér hefur þótt skemmtilegast og umhverfisvænast að leggjast upp á ættingja og vini, en ég bý það vel að eiga frænda sem rekur hið frábæra hótel Fisherman á Suðureyri. Þangað leita ég oftar en ekki, með nesti og nýja skó og læt Ella sjá um að elda fyrir mig nýveiddan fisk. Ég átta mig á því að allir eru ekki í eins góðri stöðu, það er að eiga frændur og frænkur sem eiga hótel og því er gott að fletta upp í Íslendindabók áður en langt er af stað. Ef það kemur engin tenging er gott að velja hótel sem er með svansvottun eða gerir grein fyrir umhverfisstefnu hótelsins.

Ef gist er á hótelum, hugið að umhverfinu. Slökkvið ljósin þegar þið þurfið ekki að nota þau, notið handklæðið oftar og biðjið um að ekki sé skipt á rúmunum oftar en þið þurfið (það þarf enginn að láta skipta um á rúmunum sínum daglega…enginn)

Leggið bílnum - fáið ykkur hjól á leigu eða göngutúra. Tínið upp rusl ef þið sjáið það - og ef sveitarfélagið sem þið heimsækið býður ekki upp á flokkun - takið ykkar rusl þá aftur með - ekki láta ykkar eftir liggja. 

Verum meðvituð - tökum ábyrgð og njótum alls hins besta sem náttúra  hefur upp á að bjóða - án þess að skaða hana.

mbl.is